Harry Bretaprins hefur gefið það út að hann ætli ekki að gera framhald af ævisögu sinni – Spare eða Varaskeifan, sem nýlega kom út og setti allt á hliðina.
Heldur ætlar hann að fara þá leið að bæta kafla við bókina þegar hún kemur út á kilju.
Þetta hafa erlendir fjölmiðlar eftir ónefndum heimildarmanni úr herbúðum Harry og fjölskyldu.
„Harry prins er nú þegar farinn að leggja drög að minnst einum kafla í viðbót til að hafa í kiljunni sem kemur út síðar á þessu ári eða snemma á næsta ári.“
Heimildarmaðurinn bætti við að lesendur væru æstir í að vita hvað Harry og eiginkonu hans, Meghan hertogaynju, fannst um viðbrögðin við heimildaþætti sem gerðir voru um þau og sömuleiðis viðbrögðin við bókinni.
Page Six leitaði viðbragða hjá talsmönnum Harry og fékk þau svör að ofangreint væri kjaftæði og ekki satt.
Harry hefur þó áður gefið upp að hann hafi haft úr nægu að moða við gerð ævisögunnar og hafi vandamálið helst verið að velja og hafna. Upprunalega hafi uppkastið að bókinni verið 800 síður sem minnka þurfti niður í um 400.
Bókin hefur slegið öll sölumet fyrir ævisögur og því margir velt fyrir sér hvað Harry ætli að gera næst. Hann hefur þó gefið til kynna að af virðingu við föður sinn og bróður ætli hann ekki að fylgja bókinni eftir með framhaldi. Hann er sagður hafa sagt í viðtali fyrir um mánuði síðan að það hafi margt komið fyrir í lífi hans sem hann hafi ekki gert grein fyrir í bókinni, sérstaklega hvað varði samskipti hans við bróður hans, Vilhjálm Bretaprins. Taldi Harry líklegt að faðir hans, Karl Bretlandskonungur, og bróðir hefðu aldrei fyrirgefið honum hefði hann skrifað um sum atvikin.
Nú er bara að bíða og sjá hvort að Harry standist freistinguna og láti bókina eiga sig eins og hún er, eða hvort hann bæti við kafla eða köflum til að gera grein fyrir fjaðrafokinu sem fylgdi upprunalegri útgáfunni.