Ágúst opnaði nýlega einkaklíník í Efstaleiti, Læknastofur Reykjavíkur. Í þættinum ræða þau um hinar ýmsu fegrunaraðgerðir, veikindi af völdum sílikonpúða í brjóstum, nýjustu tækni, fituflutning, rassastækkanir og fleira.
Aðspurður hvaða fegrunaraðgerðir séu vinsælastar hjá karlmönnum segir Ágúst:
„Þeir fara helst í fitusog í kringum mitti og á brjóstum, fyrir utan augnaðgerðir sem eru það algengar í dag að þær teljast varla fegrunaraðgerð lengur. Svo hafa einhverjir valið sér að fá sílikon í kálfa líka. Sílikon er ekki bara „implant“ fyrir brjóst það er fyrir allt mögulegt eins og rass, höku, kinnbein og fleira. En fylliefni hafa tekið við þar að mestu. Varðandi kálfavöðva þá er erfðafræðilegt hvað kálfar geta orðið stórir það eru til vaxtarræktarmenn sem eru með gríðarlegan vöðvamassa á efri hluta líkamans og lærum en mjög litla kálfavöðva.“
Ásdís Rán spyr hvort að það sé vegna þess að þessir karlmenn nenna ekki að eyða jafn miklum tíma í að æfa kálfana og efri hluta líkamans.
„Nei, vöðvinn stækkar ekki því erfðafræðilega verður hann ekki stór hjá sumum, það er bara þannig. Það er alveg sama hvað þeir reyna að æfa hann mikið, og þá hafa þeir þennan valmöguleika,“ segir Ágúst.
„Já, frábært! Ég er nokkuð viss um að þetta geti bjargað mörgum því þetta er algengt vandamál hjá körlum að þeir séu óánægðir með kálfana og brjóstin. Alveg eins og konur geta troðið sílikon púðum í rassinn, brjóstin og út um allt þá bara af hverju ekki að setja það í kálfana ef það er í boði og lætur þér líða betur,“ segir Ísdrottningin og spyr síðan:
„Hvað með eins og Kardashian systurnar, þær eru með sílikon púða bæði til hliðar á mjöðmunum og í rassinum, er þetta bara allt í lagi og er þetta ekki að valda neinum sérstökum óþægindum, þær virðast vera mjög hamingjusamar með þetta?“
„Ég ætla að svara þessu þannig að það er ekki allt sem sýnist. Það eru margir sem virðast vera glansmyndin ein út á við en það er allt annað sem á raunverulega við, það eru fullt af vandamálum sem fylgja þessu,“ svarar Ágúst.
Athafnakonan og lýtalæknirinn fara um víðan völl í þættinum sem má horfa á hér að neðan.