Bretinn Ikechi Chima Apakama datt heldur betur í lukkupottinn þann 17. febrúar þegar í ljós kom að hann væri milljónasti farþegi flugfélagsins Play þegar hann lenti í Keflavík eftir flug frá Liverpool til Íslands.
Farþegum um borð hafði verið tilkynnt í fluginu að um sérstakt flug væri að ræða þar sem milljónasti farþegi félagsins væri í fluginu og veisla væri í vændum við komuna til Keflavíkur.
Það var þó ekki ljóst fyrr en við lendingu og er farþegar gengu inn í flugstöðina hver hinn heppni væri. Þar var Apakama komið heldur betur á óvart þegar honum var afhentur risastór flugmiði, svonefndur gullni miðinn, sem gildir í öll flug Play út ævi hans.
Apakama var að ferðast til Íslands með tveimur vinum sínum. Tilgangur ferðarinnar var keppni í amerískum fótbolta við Einherja sem er eina starfandi íþróttafélagið í amerískum fótbolta hér á landi.
Það sem Apakama þó vissi ekki var að félagar hans, Tom og Craig, vissu hvað var í vændum en þeir gættu þess að gefa ekkert uppi.
Og það sem hann vissi ekki heldur var að það var verið að fylgjast með honum svo hægt væri að ná viðbrögðum hans á myndband. Tökuliðið fór huldu höfði og fylgdi Apakama laumulega eftir allt frá því að hann kom á flugvöllinn í Liverpool.
Á myndbandinu má sjá þegar Apakama heyrir flugþjóninn lýsa því yfir að milljónasti farþeginn er um borð og hvernig hann veltir fyrir sér hvað hann myndi gera ef það yrði svo hann.
Apakama grunaði ekkert þegar heil veisla beið hans í Keflavík.
Kostuleg viðbrögð hans má sjá hér að neðan.