Stjörnuhjónin Brooklyn Beckham og Nicola Peltz giftu sig með pompi og prakt í apríl á síðasta ári og virtist brúðkaupið hafa verið afburðavel heppnað og hið glæsilegasta og að sjálfsögðu rándýrt og íburðarmikið, eins og tíðkast meðal hinna ríku og frægu.
Nú greina fjölmiðlar hið ytra frá því að þó hafi margt leynst bak við tjöldin í þessu glæsilega brúðkaupi en brúðkaupsskipuleggjendur þeirra eru farnir í hart og segja maðk í mysunni varðandi samskipti þeirra við brúðkaupshjónin og fjölskyldur þeirra. Page Six greinir frá.
Samkvæmt gögnum sem brúðkaupsskipuleggjendurnir, Nicole Braghin og Arianan Grijalba, hafa lagt fram fyrir dómi reyndi móðir Nicolu að fela fyrir eiginmanni sínum hversu dýrt brúðkaupið var orðið. Reyndi hún að fá skipuleggjendurna til að taka þátt í blekkingaleiknum.
„Því er haldið fram að Nelson Peltz [Faðir Nicolu] hafi borgað meira en 14 milljónir, auk ferðakostnaðar, fyrir hárgreiðslu og förðun Nicolu fyrir brúðkaupið,“ segir í stefnunni. „Claudia [Móðir Nicolu] minntist á það við [annan skipuleggjendanna] að Nelson mætti ekki vita kostnaðinn við hárið og förðunina því annars myndi hann „drepa hana“ og verða bálreiður.“
Þær Braghin og Grijalba segir að Nicola og Claudia hafi verið hræðilegar í samstarfinu og þær hafi mikið lagt á sig til að fela mistök sín fyrir væntanlegri tengdarfjölskyldu – Kryddpíunni Victoriu og fótboltamanninum David Beckham.
Nicola hafi stöðugt verið að bæta við og taka fólk út af gestalistanum og það hafi gert allt skipulag erfiðara. Frekar en að hafa allt á hreinu hafi áherslan verið lögð á að fela ringulreiðina fyrir Beckham-hjónunum.
„Bæði Claudia og Nicola heimtuðu að Victoria Beckham fengi ekki að vita af neinum mistökum sem vörðuðu skipulagið á brúðkaupi sonar hennar, þar með talið öll mistök með gestalistann,“ segir í stefnu.
Þær Braghin og Grijalba voru ráðnar til starfsins sex vikum fyrir brúðkaupið en voru svo reknar níu dögum síðar.
Faðir brúðarinnar, milljarðamæringurinn Nelson Peltz, hefur haldið því fram að þær hafi neitað að skila rúmlega 23 milljón króna innborgun sem þær hafi fengið greiddar fyrir verkið. Þær hafa hinsvegar stefnt Peltz á móti í gagnsök fyrir samningsbrot.
Í stefnunni segir að Nicola hafi skammað þær, Braghin og Grijalba, fyrir að hafa leitað til Brooklyn Beckham eftir áliti.
„Ég treysti Brooklyn ekki með þetta,“ er Nicola sögð hafa sagt í textaskilaboðum.
Þær segja að skipulagðið í kringum brúðkaupið hafi verið svo slæmt að Nelson Peltz, sem þær kalla milljarða hrottann , hafi viljað aflýsa brúðkaupinu og kallað það „hörmung“.
Claudia hafi grátbeðið mann sinn um að aflýsa því ekki þar sem þá yrði úti um feril Nicole.
Braghin og Grijalba hafa farið fram á skaðabætur.