Evert Víglundsson, eigandi CrossFit Reykjavíkur, segir það stórt vandamál í sjálfu sér að engir fjármunir séu í því að gera fólk heilbrigt. Þess í stað séu peningarnir í því að selja fólki lyf eða taka við því eftir að það er orðið veikt.
Í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar fer Evert um víðan völl í öllu sem snýr að heilbrigði.
„Það eru engir peningar í því að gera fólk heilbrigt og það er hluti af vandanum. Við getum breytt þessu öllu, en það verður erfitt á meðan peningarnir eru í því að selja öll þessi lyf. Mörg af stærstu fyrirtækjum í heiminum eru lyfjafyrirtæki og það þarf ekki að kafa djúpt til að byrja að spurja spurninga. Þar sem eru svona miklir peningar er stutt í einhvers konar spillingu. Sagan um Oxycontin sem nú er búið að gera sjónvarpsseríu um er eitthvað sem líklega hefur gerst margoft í einhverri mynd. Allir stærstu lyfjarisarnir eru með einhvers konar dóma á bakinu fyrir að ljúga að fólki, sem eitt og sér ætti að fá okkur til að hugsa okkur um. Læknarnir okkar og heilbrigðisstarfsfólkið er frábært fólk, en það er eitthvað í kerfinu sjálfu sem er ónýtt,“ segir hann.
Evert segist sannfærður um að Ísland geti orðið heilbrigðasta land í heimi ef við leggjumst öll á eitt. Það geti ekki verið eðlilegt að meirihluti Íslendinga sé á lyfjum, líka unga fólkið.
„Það getur ekki verið eðlilegt að meira en 70 prósent Íslendinga séu að taka lyf að staðaldri. Ég vil sjá þetta alveg öfugt. Það á að vera minnihlutinn sem er að taka lyf. Við sem samfélag þurfum að leggjast á eitt til að gera okkur öll heilbrigðari og ekki sjá það sem eðlilegan hlut að flestir séu að taka lyf, þó að auðvitað eigi þau rétt á sér. Ísland á að vera heilbrigðasta land í heimi og við sáum það vel í Covid faraldrinum að þegar við viljum, þá getum við öll gengið í takt. Fólk virðist geta farið eftir fyrirmælum, þannig að það er spurning hvort ekki sé komið að tilmælum og fyrirmælum um að hreyfa sig, borða hollan mat og hugsa um svefninn. Auðvitað yrði mjög hávær umræða ef við færum að banna sykur og fleira í þeim dúr. En ég tel að við getum alveg látið fólk borða mat en ekki rusl og látið fólk hreyfa sig. Við þurfum bara að finna leiðina til þess. Hvað myndi gerast ef við myndum til dæmis hafa þjóðarátak þar sem allir myndu ganga í takt í 30 daga til þess að vera besta útgáfan af sjálfu sér? Væri það ekki tilraun sem væri vert að prófa. Það er auðveldara að framkvæma hluti í hóp og þegar aðrir eru að gera sömu hluti.“
Evert segist sjá það að Covid tímabilið hafi gert lífsstíl margra enn verri og var staðan þó ekki frábær fyrir.
„Ég sé það í CrossFit Reykjavík og veit að það er þannig hjá flestum sem ég hef talað við í þessum geira að hlutirnir hafa verið hægari eftir Covid. Það hafa almennt ekki eins margir verið að mæta í ræktina eftir Covid, enda er ekki nema ár síðan aðgerðir voru í fullum gangi. Við eigum örugglega enn eftir að sjá afleiðingarnar af því hvernig lífsstíll fólks hefur versnað enn meira eftir þetta tímabil,“ segir hann.
Evert hefur í áraraðir unnið við heilsu og hreysti og er leitun að meiri viskubrunni á því sviði. Hann er með sterkar skoðanir á því hver staðan er og að við verðum að grípa inn í.
„Heilbrigðiskerfið ætti líklega frekar að heita sjúkdómakerfið. Það er meira réttnefni. Stærstur hlutinn af kostnaði heilbrigðiskerfisins er vegna lífsstílssjúkdóma. Lyf eiga að vera undantekningin og veikindi eiga að vera undantekningin. Þannig er það ekki lengur og fyrir mér er mjög augljóst að það er vegna þess að lífsstíllinn hjá Vesturlandabúum hefur vernsað. Við vorum ekki svona veik bara fyrir 50 árum síðan. Við borðum alltaf meira og meira rusl í staðinn fyrir hollan mat, höfum aldrei neitað okkur jafnmikið um svefn og hreyfum okkur allt of lítið. Þetta þarf ekki að vera svona. Þekkingin á líkamanum og hvernig hann virkar er orðin það mikil að við getum mjög oft auðveldlega gripið inn í áður en fólk verður veikt. En það sem verið er að gera núna er að grípa eingöngu inn í eftir að fólk er orðið veikt, sem fyrir mér er algjörlega brengluð leið. Ég hef persónulega engan áhuga á því að lifa lengi og vera veikur síðustu áratugina. Við þurfum að breyta umræðunni þannig að þetta snúist ekki bara um að lengja lífaldur, heldur að bæta heilbrigði við árin sem við lifum,“ segir hann.
Þáttinn með Evert og alla aðra þætti Sölva má nálgast inni á www:solvitryggva.is