Leikkonan og fyrrum kynbomban Raquel Welch er látin 82 ára gömul. Frá þessu greindu fjölskyldumeðlimir hennar í dag en hún mun hafa látið lífið í morgun eftir skammvinn veikindi.
Welch varð fræg á sjöunda áratug síðustu aldar fyrir hlutverk sín í Fantastic Voyage og One Million Years B.C. Í síðarnefndu myndinni var hún í klæðalitlu bikiní úr hreindýraskinni sem gerði hana að frægri kynbombu.
Hún greindi síðar frá því að hún hafi næstum látið lífið við töku myndarinnar því hún hálskirtlabólgu sem var bein afleiðing af notkun bikinísins í slæmum veðurskilyrðum.
„Ég var búin að taka inn svo mikið pensilín þegar ég var í loðna bikiníinu að ég dó næstum,“ sagði hún í samtali við Fox News.
Hún hafi þurft að flýta sér til læknis og varla haft það af. Þar hafi hún fengi mótefni og tilkynnt að hún hefði verið við dauðans dyr.
Eftir þetta hlutverk var Raquel komin á kortið og var eftirsótt leikkona á sjöunda og áttunda áratugnum. Hún hlaut svo Golden Globe verðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Three Musketeers sem kom út árið 1974.
Árið 1995 var hún á lista yfir 100 kynþokkafyllstu stjörnur kvikmyndasögunnar í Empire tímaritinu. Hún lenti líka í þriðja sæti á lista Playboy yfir kynþokkafyllstu stjörnur 20. aldarinnar.
Hún steig eftirminnilega á svið með Cher árið 1975 þar sem þær fluttu saman lagið „I’m a Woman“.
Hún lét lítið fyrir sér fara á efri árum og sást sjaldan opinberlega.
Hún giftist fjórum sinnum. Fyrst James Welch sem hún átti með tvö börn. Þau voru gift á árunum 1959-1964. Næst giftist hún Patrick Curtist og voru þau gift frá 1967 til 1972. Svo var það André Weinfeld á árunum 1980-1990 og að lokum Richard Palmer, en þau voru gift frá 1999 til 2004.
Hún lætur eftir sig börnin sín tvö, Damon sem er 63 ára og Tahnee sem er 61 árs.