Nína, sem er einn af þáttastjórnendum Fréttavaktarinnar á Hringbraut, fæddist með skarð í vör sem sést stundum á myndum eða myndböndum. Hún var lögð í hrottalegt einelti í æsku og reyndi að taka eigið líf aðeins tólf ára gömul.
Í dag er Nína sterkur einstaklingur og lætur þessi orð ekki hafa áhrif á sig. Hún sneri vörn í sókn og birti skjáskot af skilaboðunum á Facebook ásamt einlægum pistil um hvernig henni tókst að rísa upp úr öskunni og standa sem sigurvegari þrátt fyrir að menn eins og umræddur netníðingur reyndu að draga hana niður.
DV fjallaði um málið í síðustu viku og vakti það gríðarlega athygli. Við slógum þráðinn til Nínu sem viðurkennir að viðbrögðin hafi komið henni á óvart.
Sjá einnig: Sjónvarpskonan Nína Richter tók netníðing til bæna – „Í dag geta svona orð ekki sært mig“
„Fyrir utan lækin og kommentin fékk ég fleiri en hundrað einkaskilaboð þar sem fólk þakkaði mér fyrir eða tjáði stuðning með einum eða öðrum hætti. Mér þótti sérstaklega vænt um að sjá skilaboð frá foreldrum barna með skarð sem sögðu mér að þessi skrif hefðu skipt þau máli. Þetta virðist hafa snert einhvern streng og kannski þurfum við bara að tala meira um þessi mál, að við þurfum að bera ábyrgð á því sem við skrifum á netið og muna að það er manneskja þarna hinum megin sem á sögu og reynslu sem við vitum ekkert um,“ segir hún.
Nína ákvað að opinbera skilaboðin fyrir sautján ára Nínu og alla hina sem fá svipuð skilaboð.
„Ef ég hefði fengið þessi skilaboð 17 ára gömul hefði þetta gersamlega brotið mig niður. Ég hefði bara hætt í sjónvarpi og farið að gera eitthvað annað. Án gríns. Ég veit að það er fjöldi fólks þarna úti sem fær viðlíka skilaboð og mér fannst þess vegna mikilvægt að afgreiða þetta opinberlega,“ segir hún og heldur áfram:
„Ég hef orðið vitni að netníði í garð kollega minna síðustu vikur og þetta fyllti mælinn. Ég ætla hins vegar ekki að fara í saumana á því hvaða fólk það er, eða hvernig skilaboð það voru. Það er ekki mitt að segja frá. En þetta er því miður algengara og grófara en fólk áttar sig á.“
Nína bendir einnig á að jaðarsettir hópar verða fyrir aðkasti á netinu. „Það eru líka einstaklingar í samfélaginu sem tilheyra jarðarsettum hópum sem verða fyrir aðkasti og jafnvel hótunum. Hinsegin samfélagið er dæmi um það og Íslendingar af erlendum uppruna,“ segir hún.
„Það er þannig séð auðvelt fyrir ófatlaða, cis-gagnkynhneigða, ljóshærða íslenskumælandi konu að taka slaginn opinberlega. Þetta er ekki hættulegt fyrir mig, eins og það getur verið hættulegt fyrir aðra hópa. Svona lagað þrífst í þögninni. Það vill enginn vera opinberaður sem netníðingur en samt eru merkilega margir tilbúnir að senda meiðandi skilaboð á annað fólk.“
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Nína hefur orðið fyrir netníði.
„Ég hef orðið fyrir netníði, hótunum og ýmsu misfögru síðan ég byrjaði að vinna í fjölmiðlum árið 2016. Það virðist því miður tilheyra starfinu,“ segir hún og viðurkennir að hún hafi átt erfitt með að stíga sín fyrstu skref með alla þessa átakanlegu reynslu að baki.
„Það var ógeðslega erfitt að byrja í fjölmiðlum. Ég var á tímabili í stöðugum ótta um að fá yfir mig einhverja drullu út af útlitinu og ég þurfti alveg að vinna svolítið í sjálfri mér og nota verkfærakassann sem ég hef safnað í, til dæmis með hugrænni atferlismeðferð. En það er gott að minna sig á að fólk er miklu minna að pæla í manni en maður heldur. Sömuleiðis er mikilvægt að taka sig ekki of alvarlega. Ég geri mikið grín að sjálfri mér og held að það sé eitt mikilvægasta vítamínið,“ segir hún.
Við fengum Nínu um að miðla skilaboðum til þolenda eineltis.
„Fólk er lagt í einelti vegna þess að einhver eða einhverjir ákveða að leggja viðkomandi í einelti. Það er eina ástæðan. Hvað sem það er sem gerir ykkur sérstök er ekki ástæða eineltisins. Allir eru með eitthvað sem hægt er að pikka í. Það er gott að skila skömminni ef fólk treystir sér til, en einelti er ekki ástand sem nokkrum manni ber að sætta sig við.“
En til gerenda netníðs?
„Ég trúi því að í grunninn séu allir góðar manneskjur. Við fæðumst ekki fávitar. Ég held að stór hluti af vandanum sé að fólk einfaldlega áttar sig ekki á alvarleikanum eða afleiðingunum sem getur fylgt netníði. Að skrifa einhver ógeðsleg skilaboð og senda á fólk sem er viðkvæmt fyrir getur verið ansi dýrkeypt og haft í för með sér afleiðingar, ekki bara fyrir þolendur heldur líka fyrir gerendur. Ég ítreka bara fyrri orð og hvet gerendur bara til þess að leita sér fagaðstoðar. Ég held að djúpstæður sjálfsmyndarvandi liggi að baki því að senda ljót skilaboð á annað fólk.“
Að lokum hvetur Nína fólk til að díla við hlutina í kærleikanum.
„Við vitum sjaldnast alla söguna um fólk. Og svo er gott og vænlegra til árangurs að vinna í sjálfum sér frekar en að reyna að breyta öðrum.“