Birgir Örn, tónlistarmaðurinn og keppandi í Idol, hefur gefið út lagið Found Each Other. Birgir Örn sem gengur undir listamannsnafninu Bixxi tók lag sitt í beinni útsendingu í fyrsta þætti Idol þáttaraðarinnar sem nú er sýnd á Stöð 2.
Birgir vakti mikla athygli hér á landi í keppninni og segist hann hafa mest fundið fyrir stuðning og tilhlökkun fyrir því að lagið hans kæmi út. Birgir átti sér draum um að fá lag í spilun á FM957 áður en hann steig á svið og sá draumur rættist á lokakvöldi hans þegar Daníel Ágúst einn af dómurum keppninnar sagði við Birgi: „Beint á FM957 með lagið!’“
FM957 hikaði ekki við að hafa samband við Birgi og var lagið frumsýnt hjá þeim Birgi til mikillar gleði og þakklætis.
„Lagið sjálft er um unga og villta ást, ást sem hangir á bláþræði en er samt svo spennandi að báðir aðilar vilja ekki að hún endi,“ segir Birgir.
Birgir er tónlistarmaður í húð og hár og hefur verið að skapa tónlist og þróast í þann listamann sem hann er í dag frá 11 ára aldri og lagt stund á nám til að læra fræðina á bak við tónsmíði og tónvinnslu. Birgir missti föður sinn óvænt árið 2017 og áttaði sig þá á því hversu stutt lífið getur verið og tók þá ákvörðun að elta drauma sína og hefur ekki litið til baka síðan.
Í dag er Birgir einn af eigendum framleiðslu og markaðssetningarfyrirtækisins Flame.is þar sem hann vinnur einnig með ýmsu tónlistarfólki hér á landi. Birgir er einnig að vinna mikið af eigin tónlist.