Aðdáendur Britney Spears hafa áhyggjur af heilsu söngkonunnar eftir að hún eyddi út Instagram-reikningi sínum – enn einu sinni.
Höfðu einhverjir samband við fógetaembættið í Ventura-sýslu, þar sem Britney dvelur, og greindu frá áhyggjum sínum og töldu tilefni fyrir lögreglu til að kanna aðstæður.
Talsmaður fógetaembættisins sagði þó í samtali við Page Six að engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af Britney.
„Ég get staðfest að við fengum símtöl inn á stöðinna okkar og í grófum dráttum get ég staðfest að við teljum ekki að Britney Spears sé í hættu eða að hún hafi orðið fyrir skaða.“
Ekki staðfesti talsmaðurinn hvort lögregla hefði rætt við Britney eða farið að heimili hennar til að kanna aðstæður. Ekki væri hægt að svara frekari spurningum án þess að brotið væri gegn persónuvernd Britney.
TMZ greinir þó frá því að lögreglan hafi verið send að heimili Britney eftir að mörg símtal bárust embættinu frá áhyggjufullum aðdáendum. Lögreglumenn sem könnuðu aðstæður töldu þó ekkert benda til þess að söngkonan væri í hættu.
Britney var nýlega sögð hafa sýnt einkenni þess að vera í ójafnvægi þegar hún fór út að borða með eiginmanni sínum í Los Angeles. Gerðist þetta í kjölfar þess að aðrir gestir á veitingastaðnum tóku upp síma sína og fóru að taka myndir af söngkonunni, en hún hefur í gegnum tíðina farið óleynt með óbeit sína á því að myndir séu teknar af henni í heimildarleysi.
Rétt áður en hún eyddi Instagram-reikningi sínum sagðist hún hafa breytt nafni sínu og hún héti nú River Red.