Leikarinn Channing Tatum opnaði sig upp á gátt við tímaritið Vanity Fair og ræddi þar um skilnað hans og leikkonunnar Jenna Dewan.
Þau Jenna og Channing kynntust við tökur á kvikmyndinni vinsælu, Step Up, árið 2006. Þremur árum síðar giftu þau sig og eignuðust svo dóttur árið 2013.
Það kom mörgum á óvart þegar þau svo greindu frá því að þau hefðu ákveðið að skilja árið 2018.
„Ég held að við höfum sagt okkur ákveðna sögu þegar við vorum ung og höfum svo bara haldið áfram að segja sömu söguna þó svo að lífið væri klárlega að segja okkur að við værum verulega ólík,“ sagði Channing.
„Þegar þið eruð svo orðin foreldrar þá skiljið þið virkilega þennan mun á milli ykkar. Því þessi munur er að öskra á ykkur allan daginn. Hvernig þið eruð ólíkir uppalendur, hvernig þið sjáið heiminn og hvernig þið farið í gegnum lífið.“
Channing segir að skilnaðurinn hafi verið gífurlega erfitt verkefni að tækla. Í upphafi hafi þetta verið ógnvekjandi og hræðilegt.
„Lífið bara kollvarpast. Þessar áætlanir sem þú hafðir gert breytast bókstaflega í sand sem lekur milli fingranna þinna og þú hugsar – Sjitt, hvað nú?“
Channing er þó á því að þetta hafi verið besta ákvörðunin sem hann og Jenna gátu tekið og hafi í reynd verið bráðnauðsynleg.
„Ég hugsa að ég hefði annars aldrei farið í þessa sjálfsvinnu, þar sem ég þurfti að vinna í sjálfum mér til að finna út næstu skref. Og þetta hófst allt með dóttur minni. Ég bara lagði allt til hliðar og einbeitti mér að henni. Og það var það besta sem ég hefði geta gert því þessar stundir sem við höfum ein saman gerðu okkur að frábærum vinum.“
Jenna opnaði sig sjálf um skilnaðinn fyrir nokkrum árum í bók sinni Gracefullu You:Findinng Beauty and Balance in the Everyday.
Þar lýsti hún því hvernig hún hafi upplifað fyrst eftir skilnaðinn að hún væri lokuð inni í dimmum skáp í örvæntingarfullri leit að ljósinu.
„Ég var í áfalli. Eina vikuna gekk þetta rosalega vel en þá næstu þurfti ég að takast á við öldu af nýjum tilfinningum. Sögusagnasmiðjan spann upp sögu aftir sögu og það voru margir tímar þar sem ég faldi mig undir sænginni til að bíða þess sem næst kæmi.“
Hún sagði að hún hafi verið heltekin af ótta og sorg og það hafi tekið hana tíma að komast í gegnum sorgina.
Bæði Jenna og Channing hafa þó fundið ástina aftur. Jenna er trúlofuð Steve Kazee og á með honum tveggja ára son. Channing er sem stendur í sambandi við leikkonuna Zoë Kravitz.