Alyssa Zebrasky, 31 árs kona frá Bandaríkjunum, vakti töluverða athygli í desember árið 2018 fyrir andlitshúðflúr sín. Myndir af Zebrasky, sem teknar voru þegar hún var handtekin í Ohio ríki fyrir þjófnað og vörslu fíkniefna, fóru eins og eldur í sinu um internetið á sínum tíma vegna húðflúranna sem hún var með í andlitinu.
Núna hefur Zebrasky aftur vakið athygli en í þetta skiptið vegna þess að hún er að vinna í að losa sig við húðflúrin í andlitinu. Zebrasky segir að hún sé búin að segja skilið við fyrra líf sitt og að hún sé komin á réttu brautina. Hún er búin að fara í meðferð en vill nú losna við öll húðflúrin í andlitinu þar sem þau minna hana á fyrrverandi kærastann sinn.
Zebrasky segist hafa verið í óheilbrigðu sambandi með þessum fyrrverandi kærasta sínum. Hún hafi viljað ganga í gengið hans en til þess þurfti hún að fá sér húðflúrin í andlitið.
Í dag er Zebrasky, að eigin sögn, í mjög heilbrigðu sambandi. Hún segist vera stolt af sjálfri sér og að hún sé búin að læra að elska sjálfa sig.
Hún byrjaði að losa sig við húðflúrin í október árið 2019 en markmið hennar er að verða „eðlileg“ í augum fólks a ný. „Ég fer í búð og fólk starir á mig. Það lætur mér líða illa,“ er haft eftir henni á vefsíðu fyrirtækisins sem vinnur í að fjarlægja húðflúrin hennar.
„Ég vil að fólk horfi á mig sem venjulega manneskju. Ég lifi mínu lífi eins og hver annar.“
Búið er að fjarlægja húðflúrin á kinnunum hennar og á enninu en það er ennþá nóg eftir. Þrátt fyrir það er Zebrasky nær óþekkjanleg á nýlegri mynd sem hún deildi á Facebook en myndina má sjá hér fyrir neðan.