Hann segir frá þessum samskiptum í nýju ævisögu sinni, Spare, sem kom út í dag.
Rökræðurnar snerust um kjól Charlotte, dóttur Kate og Vilhjálms Bretaprins.
„Kjóllinn hennar Charlotte er of stór, of síður og of víður. Hún fór að gráta þegar hún mátaði hann heima,“ segir Harry að Kate hafi sagt í smáskilaboðum til Meghan, nokkrum dögum fyrir brúðkaup þeirra í maí 2018.
Meghan átti þá að hafa sagt við hertogaynjuna. „Einmitt, og ég sagði þér að klæðskerinn hefur verið tilbúinn að taka á móti þér síðan klukkan átta í morgun. Hérna. Í Kensington-höllinni. Getur þú farið með Charlotte og látið laga kjólinn, eins og hinar mömmurnar eru að gera?“
Frekar en að samþykkja það á Kate að hafa krafist þess að allir kjólarnir yrðu gerðir upp á nýtt. Hún sagðist hafa rætt vandann við eigin kjólahönnuð, sem var sammála.
Til að reyna að fá Kate til að skilja stressið og álagið í kringum hana á þessum tíma spurði Meghan hvort Kate væri meðvituð um dramað í kringum föður hennar, Thomas Markle.
„Meg spurði hvort Kate væri meðvituð um það sem væri í gangi, með föður hennar. Kate sagðist vera fullkomlega meðvituð, en kjólarnir. Og að brúðkaupið væri eftir fjóra daga!“
„Já, Kate. Ég veit,“ svaraði Meghan henni.
Harry heldur því einnig fram í bókinni að Kate hafi gagnrýnt hvernig Meghan hafi skipulagt brúðkaupið. „Þetta var fram og til baka,“ segir hann.
Hann segir að Meghan hafi sagt að lokum: „Ég veit ekki hvað meira ég get sagt. Ef kjóllinn passar ekki þá vinsamlegast farðu með Charlotte [til klæðskerans.] Hann hefur verið að bíða í allan dag.“
Kate á þá að hafa svarað: „Gott og vel.“
Prinsinn segir að þegar hann hafi komið heim hafi hann fundið eiginkonu sína hágrátandi á gólfinu.
Útdráttur Harry af samskiptum þeirra er framhald af því sem hjónin höfðu rætt stuttlega í viðtali hjá Opruh Winfrey í júní 2021. Breskir fjölmiðlar höfðu greint frá því að Meghan átti að hafa grætt Kate. Aðspurð um málið í viðtalinu sagði Meghan: „Það var reyndar öfugt.“