Harry Bretaprins leitaði aðstoðar sálfræðings eftir að hafa verið ruddalegur við Meghan Markle í rifrildi. Hann segir frá þessu nýju ævisögu sinni, Spare.
Prinsinn fer um víðan völl í bókinni, hann segir meðal annars frá slagsmálum við Vilhjálm bróður sinn, þegar hann missti sveindóminn með eldri konu, að hann hafi notað kókaín og fellt 25 manns þegar hann gegndi herþjónustu í Afganistan.
Sjá einnig: Önnur sprengja úr bók Harrý – Grátbáðu Karl um að giftast ekki Kamillu
Í bókinni, sem kemur út eftir fjóra daga á heimsvísu en fór fyrir mistök í sölu á Spáni viku fyrr, segir hann frá ljótu rifrildi milli hans og eiginkonu hans, Meghan Markle. US Weekly greinir frá.
Harry viðurkennir að hann hafi verið ósanngjarn og reiður við eiginkonu sína og að hann hafi ávarpað hana svo harkalega að það varð dauðaþögn í herberginu. Eftir að hafa eytt fimmtán mínútum í sitthvoru lagi ræddu þau aftur saman.
„Hún var róleg en sagði við mig að hún myndi aldrei láta tala svona við sig. Ég kinkaði kolli,“ skrifar Harry.
Meghan sagði að hún myndi ekki umbera slíka hegðun í framtíðinni. „Hún ætlaði ekki að ala upp börn í umhverfi þar sem reiði og vanvirðing réðu ríkjum. Hún var mjög skýr með þetta,“ sagði hann.
Aðspurður hvort hann hafi verið vitni að slíkri hegðun fullorðinna þegar hann var barn svaraði hann játandi.
„Það var augljóst að ég þurfti hjálp. Ég hafði áður prófað sálfræðimeðferð en aldrei fundið réttu manneskjuna. Hún sagði mér að reyna aftur.“