Dana White, forseti bardagafyrirtækisins UFC, hefur stigið fram og beðist afsökunar á því að hafa slegið eiginkonu sína, Önnu White, á dögunum. Myndband, sem tekið var í nýársfagnaði á næturklúbbnum El Squid Roe á ferðamannastaðnum vinsæla Cabo San Lucas í Mexíkó, þar sem Dana sést slá eiginkonu sína hefur farið sem eldur um sinu á samfélagsmiðlum.
Í myndbandinu má sjá hjónakornin til 26 ára rífast og virðist Anna vera í annarlegu ástandi. Dana virðist segja nokkur vel valin orð við hana sem endar með því að Anna löðrungar eiginmann sinn sem svarar í sömu mynt og slær hana tvisvar sinnum.
Hjónin höfðu leigt VIP-svæði skemmtistaðarins fyrir vini sína og gesti til að fagna áramótunum.
Slúðurmiðillinn TMZ birti myndbandið af slagsmálum hjónanna og í samtali við miðilinn baðst Dana afsökunar. „Ég er einn af þeim sem hefur sagt að það sé aldrei hægt að afsaka það að leggja hendur á konu. En núna er ég að ræða við TMZ um það,“ hefur miðillinn eftir Dana.
Hann segir að þau hjónin hafi gengið í gegnum ýmislegt í sambandi sínu en saman eiga þau þrjú börn. Þetta sé þó einn af þeirra allra lægstu punktum.
„Ég skammast mín en eins og staðan er núna höfum við meiri áhyggjur af börnunum okkar,“ segir Dana og segir að dreifing myndbandsins hafi haft slæm áhrif á þau.
Hann segist elska konuna sína og skilja vel ef að fólk hafi skömm á hegðun hans.
„Það var augljóslega mikið af áfengi en það er engin afsökun og ég ætla ekki að reyna að afsaka þessa hegðun. Þetta hefur aldrei gerst áður og ég skil vel ef fólk muni hafa sterkar skoðanir á þessu. Ég á allt vont skilið í þeim efnum. Þetta gerðist og ég á það skilið,“ segir White.