Ástralska raunveruleikastjarnan Cassidy McGill, sem er hvað þekktust fyrir að taka þátt í áströlsku útgáfunni af Love Island þáttunum vinsælu, birti í síðustu viku mynd af sér sem olli töluverðu fjaðrafoki. Á myndinni hélt hún á disk en á disknum var að sjá tvær línur af hvítu dufti ásamt poka. Töldu netverjar strax að um fíkniefni væri að ræða.
„Úps, sé ykkur á morgun,“ sagði McGill er hún birti myndina í Story á Instagram-síðu sinni en hún eyddi henni fljótlega aftur. Þrátt fyrir það fór myndin í dreifingu á netinu og hefur raunveruleikastjarnan nú fundið sig knúna til að biðjast afsökunar á henni.
„Síðastliðna viku hef ég tekið mér tíma til að hugsa um það sem ég gerði,“ skrifaði McGill í afsökunarbeiðninni sem hún birti einnig í Story á Instagram. „Ég gerði mistök og ég tek því ekki af léttúð.“
McGill biður vini sína og fjölskyldu afsökunar í færslunni en einnig teymið sitt og vörumerkin sem hún er í samstarfi með. „Ég vona að með tímanum geti ég fengið ykkur til að treysta mér og virða mig aftur.“