Dwayne „The Rock“ Johnson og Orri Huginn Ágústsson eiga það sameiginlegt að tala fyrir ofurhundinn Krypto í nýju myndinni DC League of Super-Pets eða Ofurgæludýrabandalagið eins og hún er kölluð á íslensku. Myndin var frumsýnd í lok síðasta mánaðar og hefur fengið nokkuð góða dóma á netinu.
Í tilefni útgáfu myndarinnar með íslensku tali hér á landi var útbúið myndband þar sem „The Rock“ og Orri Huginn ræða saman. Glöggir lesendur taka þó ábyggilega eftir því að um grín er að ræða og bandaríska vöðvafjallið er í raun og veru ekki að tala við Orra sjálfan, enda talar Orri á íslensku og „The Rock“ á ensku í myndbandinu.
Það er þó engu að síður skemmtilegt að sjá myndbandið og ekki síst samanburðinn milli þessa leikara sem ljá ofurhundinum rödd sína. Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.