Aktívistinn og athafnakonan Monica Lewinsky hefur biðlað til stórstjörnunnar Beyoncé að breyta texta lags sem tónlistarkonan gaf út fyrir níu árum síðan. Þetta gerir hún í framhaldi af því að Beyoncé ákvað að breyta texta á nýrri plötu sinni eftir að hafa verið bent á að texti eins lagsins bæri keim af fötlunarfordómum (e.ableism).
Lagið Heated er að finna á splunkunýrri plötu frá Beyoncé en textinn inniheldur orðið „spaz“ eða spassi eins og orðið hefur verið þýtt yfir á íslensku. Í fötlunarfordómum felst meðal annars notkun á orðum sem eru neikvæð í garð fatlaðs fólks, en spassi hefur verið notað sem niðrandi orð um fólk sem er með heilalömun, (e. cerebral palsy). Aðeins er rétt rúmur mánuður síðan söngkonan Lizzo var sökuð um það sama fyrir notkun á sama orðinu.
Beyoncé, líkt og Lizzo á undan henni, ákvað að bregðast við gagnrýninni með því að breyta textanum í laginu og gefa það aftur út.
Eftir að þessi tíðindi bárust tísti Monice Lewinski að Beyoncé gæti þá í leiðinni breytt texta í 9 ára gömlu lagi sínu, Partition.
„Á meðan þú ert að þessu #Partiton,“ skrifaði Monica.
Í laginu Partition syngur Beyoncé : Monica Lewinsky’d all on my gown, en þetta er vísun til þess þegar Monica Lewinski átti í ástarsambandi við þáverandi forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton, þegar hún var starfsnemi í Hvíta húsinu. Málið varð mjög áberandi og eftir að Clinton opinberlega neitaði ástarsambandinu fór málið fyrir rannsóknardóm þar sem meðal sönnunargagna var kjóll af Monicu þar sem mátti finna lífssýni úr Clinton.
Monica var aðeins 21 árs gömul þegar þetta ástarsambandið hófst en Clinton var 27 árum eldri en hún og valdamesti maður Bandaríkjanna á þeim tíma. Monica varð í kjölfarið fræg á einni nóttu og varð fyrir því sem hún hefur lýst í seinni tíð sem gífurlegri drusluskömmun og netníði. Hún hefur glímt við áfallastreitu vegna málsins og segist þakka sínu sæla að samfélagsmiðlar hafi ekki verið til á þeim tíma sem hneykslið komst upp.
Hún hafði áður talað um textann við Partition á léttu nótunum en greindi frá því nú um helgina að hún hafi verið að nota húmor til að takast á við stöðuna því þannig hafi hún komist í gegnum lífið frá því að hún varð fræg fyrir að vera hjákona valdamesta manns í Bandaríkjunum.