fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Sylwia var fjallkonan í ár – ,,Ég vissi ekki hvernig íslenskt samfélag myndi bregðast við“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 2. júlí 2022 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjallkona ársins 2022 var að þessu sinni Sylwia Zajkowska, pólsk sviðslistakona búsett hér á landi. Fjöldi fólks tjáði sig um ávarp hennar á samfélagsmiðlum og mátti sjá suma kvarta yfir að fjallkonan væri ekki af íslenskum uppruna auk þess sem að sjá mátti færslur þar sem kvartað var yfir hreim hennar. 

Sylwia sem fjallkonan ásamt sonum sínum.

Nokkrar rökræðu spunnust en langflestir lýstu yfir ánægju með valið á Sylwiu í hlutverkið og þótti flutningur hennar áhrifamikill og hjartnæmur. 

Var viss um að snúa heim

Sylwia  er fertug, menntuð í leikhúsfræðum með meistaragráðu í brúðuleikhúsi. Hún er fædd í Silesia, námasvæði í Póllandi sem státar að eigin tungu, matargerð og sterkum konum sem standa í fæturnar þegar þörf er á en býr nú á Íslandi, nánar tiltekið í Reykjanesbæ.

,,Vinir mínir hlæja að því að það sé eins gott að gera okkur ekki reiðar,” segir Sylwia. 

Sylwia Zajkowska

Sylwia er gift og móðir drengjanna Filip og Kacper, tólf og átta ára. Hún er búin að vera tæp tvö ár á Íslandi. ,,Ég kom hingað í frí, faraldurinn var í hámarki, flugmiðar ódýrir og ég í fríi frá leikhússtörfum í Póllandi.” Hún segir eldri son sinn endilega hafa viljað fara í skóla hér á landi og þar sem allt var svo að segja lamað vegna Covid hafi henni verið veitt frí frá leikhússtörfum sínum í heimalandinu. 

,,Ég var viss um að við myndum snúa heim að ári liðnu,” bætir hún við. 

Erfið vinna og illa borguð

Í upphafi dvalarinnar var engin störf að hafa fyrir Sylwiu í íslensku leikhúsi, reyndar lítið um störf yfirleitt í Reykjanesbæ þar sem hrun ferðamanna hafði mikil áhrif á framboð atvinnu. ,,Ég þreif skóla sem var erfið vinna og illa borguð. Vinnutíminn var samt verstur og ég sá varla börnin mín sem ég hef verið með daglega alla þeirra ævi, spjallandi um lífið og tilveruna, allt og ekkert.

Ég saknaði þess sárlega og það gerðu krakkarnir mínir líka.”

Að ári liðnu ákvað fjölskyldan að snúa ekki heim til Póllands heldur dvelja áfram á Íslandi. ,,Ég sagði upp starfi mínu í leikhúsinu í Póllandi. Það hafði verið mitt draumastarf og ég hafði unnið með frábærrum leikstjórum frá Ítalíu, Spáni, Japan, Tékklandi, Þýskalandi og Hvíta-Rússlandi. Ég hafði ferðast með hópnum út um allan heim og sýnt á fjölda alþjóðlegra sýninga. Ég var í góðri stöðu, vel tengd inn í þennan heim og hafði starfað með leikhúsum og óperuhúsum víða í Evrópu.” 

Sylwia ásamt eiginmanni sínum Pawel.

Hún segist hafa grátið sárt við að pakka saman eigum sínum í leikhúsinu í Póllandi. ,,En yfirmaður minn sagðist gefa mér tvö ár til að skipta um skoðun og það gaf mér þann styrk sem ég þurfti til að taka atvinnumálin á Íslandi í eigin hendur.” 

Aftur í listina

Sylwia sneri sér aftur að því sem hún elskaði mest. Listinni. Hún kvaddi þrifin og hóf að feta brautina í íslensku listalífi. ,,Ég lék í stuttmyndinni ,,Liminality” í leikstjórn Pálinu Jónsdóttur við tónlist Halldórs Smárasonar, hún verður bráðum frumsýnd, og byrjaði með vinnustofur í Duus Safnahúsi í Keflavík, kenndi skuggaleikhús í Tjarnarbíó og brúðuleikhús á Egilsstöðum.” 

Ólafur Ásgeirsson leikari hafði í svo samband við Sylwiu og fengu þau sér pizzu á Egilsstöðum. Bauð hann henni að taka þátt í sýningu leikhópsins PóliS á sýningunni Co za poroniony pomysl eða Úff, hvað þetta er slæm hugmynd sem var sýnd í Tjarnarbíó á síðasta ári. 

Leikhópinn skipa listafólk af pólskum og íslenskum uppruna sem búa til leikandi léttar sýningar þar sem samskipti þessara tveggja vinarþjóða eru í brennidepli. Sýningin fór fram á pólsku en íslensk og ensk var textun í boði. PóliS er leikhópur sem saman­stendur af pólsku og ís­lensku lista­fólki sem skoðar og svið­setur reynslu­heim pólskra inn­flytj­enda á Ís­landi. Efnið var ferða­lag ungs pólsks pars frá Pól­landi til Eski­fjarðar í von um skjótan gróða á meðan þau skipu­leggja brúð­kaupið sitt. Á leið sinni hitta þau svo kyn­lega kvisti, bæði pólska og ís­lenska. Og reka sig reglu­lega á hversu dýrt allt er á Ís­landi.

,,Það er of langt mál að nefna allt það hæfileikafólk sem kom að sýningunni en þau eru öll yndisleg og ég þakka þeim öllum. Við settum svo upp í sýninguna í Borgarleikhúsinu við frábærar undirtektir.”

Sylwia tók einnig þátt í sýningu brúðuleikhússins Handbendi á Hvammstanga sem hún segir hafa verið dásamlega reynslu. ,,Við bjuggum til einstaklega fallega sýningu, ,,Heimferð.” Við sýndum í hjólhýsi fyrir átta áhorfendur í einu og voru þau Sigríður Ásta Olgeirsdóttir og Sigurður Arent á sviði með mér. Það var hrífandi og afar hjartnæm sýning fyrir bæði börn og fullorðna.” 

Dáir íslenskar konur

Aðspurð um hvernig Íslendingar komi henni fyrir sjónir segist hún viðurkenna að hafa verið afar forvitin við komuna til landsins. 

Sylwia með manni sínum og syni á góðri stund.

,,En þetta er snúin spurning. Ég get ekki neitað því að Pólverjar hér á landi umgangast oftar en ekki aðra Pólverja líkt og Íslendingar umgangast aðra Íslendinga. Það er erfitt að ,,ná” Íslendingum en þegar maður nær þeim opnast heill heimur. Þið eruð afar hlý, ljúf og vingjarnleg og ég hreinlega dái íslenskar konur. Þær eru svo sjálfstæðar, sterkar og fallegar. Og fjallkonan? Hún er kona. Ekki karlmaður. En samt hlusta allir á hana í þessum karlæga heimi sem við búum í.

Það er stórfenglegt og einstaklega falleg hefð!”

Hún segir það hafa verið afar mikinn heiður að hafa verið valin sem fjallkonan í ár en einnig gert sér grein fyrir að hugsanlega yrði það umdeilt. ,,Ég vissi ekki hvernig íslenskt samfélag myndi bregðast við pólskri konu sem fjallkonu og það var mér ákaflega mikilvægt að flytja ávarpið frá hjartanu. 

Og sem betur fer virðist stór meiri Íslendinga vera hæstánægður.”

Verð ég með vinnu á morgun?

Hvers sakna Sylwia frá Póllandi?

,,Ég verð að segja stöðugleika. Í Póllandi var ég í fastráðinn í fullu starfi en á Íslandi veit ég ekkert hvað morgundagurinn býður upp á. Verð ég með vinnu á morgun? Stundum held ég að sú ákvörðun að dvelja áfram á Íslandi, komin undir fertugt og byrja frá grunni, hafi verið algjör klikkun. Og það jafnvel á minn mælikvarða.”

Fjölskyldan saknar kisu sinnar sárt.

Hún segir þó eitt sem hún sakni mest af öllu. ,,Það er kisan okkar. Hún er orðin gömul og ég þori ekki að flytja hana til Íslands. Hún yrði án okkar í langri einangrun og ég er hreinlega hrædd um að hún myndi ekki lifa það af. Svo að hún varð eftir í Póllandi þar sem vel er hugsað um hana. 

En hvað við söknum hennar mikið, segir Sylwia Zajkowska fjallkona. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“