fbpx
Föstudagur 08.desember 2023
Fókus

Jafet opnar sig um nauðgunina og lífshættuna við skriðuna – „Ég hef upplifað mikið sjálfshatur“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 29. maí 2022 09:00

Jafet Sigfinnsson Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég lít svolítið á líf mitt sem fjóra kafla. Fyrst þegar ég var lítill, næst sem unglingur þegar mér var naugðað og varð seinna meir fyrir alvarlegu einelti. Svo er það tímabilið frá því ég kom út úr skápnum og fram að því að besta vinkona mín dó og að lokum skriðan á Seyðisfirði 18. desember 2020.

Það eru þessi fjögur áföll sem mótuðu mig mest,“ segir Jafet Sigfinnsson. 

Jafet við busunina í ME, Mynd/aðsend

Jafet hefur verið duglegur að benda á það sem hann telur að betur megi fara í þjóðfélaginu og hefur vakið athygli með hreinskilnum skrifum sínum á samfélagsmiðlinum Twitter.

Hann er ófeiminn við að segja sögu sína, sögu sem er lituð áföllum en einnig vitundarvakningu og bjartsýni.

Sögu sem hann vonar að fólk geti lært af til þess að gera þjóðfélagið okkar örlítið betra. 

Var álitin spes

En Jafet hefur ekki alltaf haft rödd og leiðin hans til að finna hana var oft grýtt. Jafet verður 32 ára á árinu, fæddur og uppalinn í nokkuð hefðbundinni fjölskyldu á Seyðisfirði.

„Mér fannst ég vera frekar venjulegur krakki en fékk reyndar oft að heyra að ég væri ,,spes” og tók því sem móðgun. Ég var alinn upp á tíunda áratugnum áður en fólk fór að gera sér almennilega grein fyrir því hvað ADHD væri.“

Jafet rétt eftir að hann kom úr skápnum Mynd/aðsend

„Það var alltaf talað eins og það væri bara ein tegund af ADHD, þessi sem fór ekki framhjá neinum, þannig mig grunaði ekki að ég væri með það þrátt fyrir að í lok hvers einasta skólaárs stóð alltaf það sama á einkunnarspjaldinu: Hann getur þetta ef hann bara leggur sig fram.“

Það var ekki fyrr en árið 2013 sem Jafet var loksins greindur með ADHD, þá 23 ára gamall.

Gallað skólakerfi

Þegar Jafet rifjar upp skólagöngu sína finnst honum skrítið til þess að hugsa að í hans skóla hafi verið svokallaður tossabekkur, þótt hann væri aldrei kallaður það hreint út.

„Mér finnst að skólinn eigi að sinna öllum börnum jafnt í stað þess að senda þau skilaboð að einungis stilltu börnin sem eiga auðvelt með að læra séu verðug. Mér finnst skólakerfið okkar engan vegin sniðið að fólki með ADHD og margir eru sammála mér um að kerfið sé hreinlega ekki sniðið að börnum yfirhöfuð, sem er mjög sorglegt.“

Jafet og Dakota Mynd/aðsend

„Við búum við eldgamalt kerfi sem er kannski of seint að breyta og við kannski of inngróin í það. Meðalmanneskjan vill ekki breyta því sem hún telur virka en skólakerfið er bara ekki að virka eins og það er.“

Druslusmánaði

Jafet segist hafa alist upp á opnu heimili, hann hafi aldrei heyrt foreldra sína né systkini tala illa um samkynhneigða. En hann fann sterkt fyrir hvað samfélagið ætlaðist til af honum.

„Ég var sjálfur að druslusmána og með fordóma gagnvart hommum, þrátt fyrir að vera hommi sjálfur. Mér fannst ég þurfa að setja upp svo mikið leikrit til að sanna fyrir fólki að ég væri raunverulega gagnkynhneigður. Ég eyddi miklu púðri í að sannfæra annað fólk hversu mikill karlmaður ég var og hataði sjálfan mig þegar fólk sá í gegnum það.  Það var líka fólk í kringum mig, fólk sem ég veit að elskaði mig og vildi mér allt hið besta, sem héldu að þau væru að hjálpa mér með því að benda mér á að gera ekki hluti sem álitnir voru hommalegir.

Þau voru að reyna að vernda mig gegn gagnrýni en þess ýtti það undir sjálfshatur minn og ég fékk bara óhug gagnvart öllu „hommalegu.“

Ég var með bullandi minnimáttarkennd yfir þessum staðalímyndum sem samfélagið ætlast til þess að karlmenn fylgi.“ 

Gay Pride 2019 Mynd/aðsend

Hatur fær pláss til að vaxa

Jafet gerði sér far um að feta þá braut sem taldist ,,normal“ og fór að fylgja vinsælum skoðunum og að taka þátt í að ýta undir staðalímyndir sem hann telur í dag vera skaðlegar. 

„Ég veit hversu skaðlegir þessir lúmsku fordóma rgeta verið því ég var eitt sinn fylgjandi þeim sjálfur. Ég tók þátt í gríni sem var rasískt, hommafælið og hlaðið kvenfyrirlitningu því engum þótti það athyglisvert og var góð leið til þess að falla inn í hópinn. Það tók mig tíma að skilja hvað þetta var ljótt og ég skammast mín enn þann dag í dag.

Samfélagið hefur því miður alltaf verið opið fyrir þessum litlu og lúmsku fordómum og þar fær hatur pláss til að vaxa.“

Pólitíkusar nota reiðina

Hann  segir það kannski hljóma eins og klisju en hann hafi mjög sterka réttlætiskennd og mikla þrá í samfélag sem leyfir fólki að vera bara eins og það er.

„Hverju hafa Jón og Gunna úti í bæ að tapa á að leyfa fólki til dæmis að vera trans í friði? Ég skil ekki hvernig þetta hefur áhrif á annað fólk.

Það er mikil reiði bundin við þessi málefni og það er svo kjörið fyrir pólitíkusa að hlaupa með þessa reiði og nota hana sér í hag.“

Jafet Sigfinnsson Mynd/Sigtryggur Ari

„Ég er var við forréttindi mín sem hvítur sískynja karlmaður og reyni því að nýta mér rödd mína til að berjast gegn og vekja athygli á óréttlæti í þessu samfélagi eins og ég get, en það er alls ekki auðvelt að berjast gegn norminu.“

Tvískinnungur og kaldhæðni

Jafet er þungorður um tvískinnunginn og kaldhæðnina sem hann segir ríkja í samfélaginu.  

„Tökum hugtakið ,,saklaus unns sekt er sönnuð,“

Þetta hugtak virðist aðallega vera notað um konur sem ásaka karla um kynferðisbrot. Ef einhver er sakaður um að stela úr búð er samstundis komin mynd af viðkomandi á samfélagsmiðla og fólk deilir henni áfram án þess að pæla í því hvort búið sé að dæma viðkomandi.

En þetta sama fólk horfir ekki sömu augum á konu sem er sökuð um að „myrða mannorð.” manns. Fær hún ekki að njóta sama vafa? Afhverju er hún ekki saklaus af því að vera kölluð mannorðsmorðingi þar til annað sannast?

Þessi tvöfeldni er út um allt þótt maður geri sér kannski ekki grein fyrir því fyrr en maður fer að rýna betur í málin.“

Ótal tegundir af gráu

Jafet vill losna við ríkjandi tvíhyggju gagnvart kynjum.

„Það er til svart og það er til hvítt. En það eru líka ótal tegundir af gráu þar í milli. Það eru átta milljarðar fólks í heiminum og það er svo sturlað að eiga að setja hvert einasta mannsbarn í einn af einungis tveim kössum.“

Jafet Sigfinnson Mynd/aðsent

„Ég heyrði einu sinni samlíkingu sem mér finnst frekar góð. Tökum Star Wars og Star Trek og skiptum því út fyrir kynhneigð, kyn eða hvað sem þú vilt. Spurðu svo hverja einustu manneskju í heiminum hvora myndina hún elskar.

Er ekki frekar spes að ætlast til að allt fólk á jörðinni sé í öðrum hvorum hóp? Hvað ef ég fíla hvoruga? Eða báðar? Eða hef bara ekki skoðun á því? Hvar endar þetta? Hvað um þá sem finna sig ekki í þessum kössum sem þjóðfélagið setur þeim? Eða vill bara yfirleitt ekki vera í kassa heldur kannski hring? Fólk vill finna sitt form sjálft og það er bara fallegt.

Ég held að innst sé ég ekki hundrað prósent hommi en ég fann pressu til að taka ákvörðun, af eða á. Í dag horfi ég ekki lengur á þetta sem tvo möguleika heldur sem skala, þú getur elskað bæði vanilluís og súkkulaðiís þótt þér finnist kannski önnur tegundin aðeins betri.“

Flúði beint aftur inn í skápinn

Talið berst að hinum erfiðu menntaskólaárunum. Dökka tímabilinu sem Jafet er loksins farinn að gera rætt af hreinskilni.

„Ég reyndi að koma út úr skápnum þegar ég var 16 ára og opnaði mig við manneskju sem er mér mjög kær. Og ég veit að það kom af góðu en ég fékk að heyra áhyggjur af viðbrögðum mínum við hugsanlegu einelti. Það var til þess að ég flúði bara beint aftur inn í skápinn og var þar í fimm ár í viðbót.

Þetta jók einnig andúð mína á að vera öðruvísi, mig langaði alltaf að vera ,,venjulegur,“ eins og maður sá alltaf í öllum bíómyndunum, karl og kona hamingjusöm að eilífu með börn og hund. Það var lífið sem ég hélt að mig langaði í og reyndi að þvinga mig þangað þótt fyrir að ég fyndi fyrir þessari kynhneigð og vildi kanna hana nánar.

Ástfanginn af íþróttakennaranum

Jafet byrjaði í Menntaskólanum á Egilsstöðum haustið 2006.

„Ég varð agalega ástfanginn af íþróttakennaranum mínum, og svo það sé á hreinu þá átti ekkert óviðeigandi sér stað! Ég var bara krakki með massaskot í kennara sem var virkilega ljúfur og almennilegur við mig, ekkert svo mikið eldri en ég, eitthvað yfir tvítugt.

Í dag geri ég mér fulla grein fyrir að þetta var ekki ást heldur unglingaskot en ég talaði um þetta við hann og hann tók því mjög vel og hjálpaði mér að skilja tilfinningar mínar.

Ég er honum afar þakklátur að hafa verið til staðar fyrir mig en viðhorf samfélagsins var ekki það sama og ég fór að hata sjálfan mig, ég reyndi að hrista þetta af mér en gat það ekki.“ 

Jafet Sigfinnsson Mynd/aðsend

Nauðgunin

Sumarið 2007 var Jafet nauðgað.

„Ég fór í algjöra afneitun, þetta var löngu áður en ég kom út úr skápnum og kenndi mér sjálfum um þetta í mörg ár þrátt fyrir að hafa verið áfengisdauður þegar þetta gerist. Við höfðum sofið saman áður og eftiráhyggja fannst mér ég hafa verið að gefa honum undir fótinn fyrr um kvöldið. Þarna kemur aftur inn hvernig var, og er oft enn tala um, samkynhneigð.

Mér fannst ég bera ákveðna ábyrgð á að vera ekki að ,,tæla” gagnkynhneigða karlmenn því það væri svo rangt að vera hommi og ég bæri ábyrgð á forvitni annarra.

Auðvitað er það ekki raunin en þannig leið mér lengi vel, jafnvel eftir að ég kom út úr skápnum.

Auðvitað reyndi ég alveg við gagnkynhneigða karlmenn þegar ég var yngri en ég fór ekki yfir ákveðin mörk, tékkaði bara á hvort væri áhugi. En það þótti krípí jafnvel þótt að karlmenn mættu gera nákvæmlega það sama í samskiptum við konur. Og um leið og ég fékk nei sagði ég bless.

Af hverju er krípí þegar karlmaður reynir við annan karlmann en ekki þegar að karlmaður reynir við konu? Á þessum  tíma var ég þessu sammála og fannst það óviðeigandi.

Jafet var reiður út í sjálfan sig eftir nauðgunina. Og svo kom eineltið.

Eineltið

„Ég var að tala við strák á MSN og samtalið var jú kynferðislegt en hefði þótt allt í lagi ef það hefði verið á milli karls og konu. En af því að samtalið var á milli tveggja karla þótti samtalið fyndið og ógeðslegt. Af einhverjum ástæðum vistaði meðleigjandi hins stráksins samtalið og sýndi það svo öllum.”  Samtalið fór eins og eldur í sinu um skólann.

„Meira að segja fólkinu sem stóð mér næst og trúði mér fannst samt mikilvægt að þetta væri ekki satt. Þetta var svo skammarlegt að ég fór meira að segja til lögreglunnar sem lagði áherslu á mikilvægi þess að samtalið væri „feik“, annars yrði ég sjálfur í vanda.“

Jafet segir að skólayfirvöld hafi tekið einstaklega illa á þessu einelti sem meirihluti skólans tók þátt í.

„Þetta er búið að lagast mikið síðan en þetta var algjörlega til skammar. Þeirra hugmynd var að velja nemendur sem ég átti að umkringja mig af, einhverskonar hjálparhóp. En þetta var fólk sem ég þekkti ekki neitt og meðal þeirra einn sem var í því að leggja mig í einelti. 

Þetta var gjörsamlega vanhugsað.“ 

Jafet hommi“

Jafet fékk ítrekað að heyra af hverju hann kæmi ekki bara út úr skápnum, öllum væri sama.

„En mér var ekki sama. Ég leit á þetta sem svo að ef ég kæmi út úr skápnum yrði ég alltaf ,,Jafet hommi”. Svo ég reyndi að bíða þetta af mér, bíða eftir að fólk hætti að tala um þetta.“

Jafet Sigfinnsson Mynd/Sigtryggur Ari

En svo varð ég hrifinn af strák og það hjálpaði mér að koma út úr skápnum árið 2011. En eftir að ég kom út úr skápnum fannst mér ég samt verða að sanna að ég væri ekki ,,þannig” hommi. Ég var haldinn ranghugmyndum um að allir hommar yrðu að vera kvenlegir glimmerhommar og dragdrottningar.

En einu fyrirmyndirnar sem ég gat fundið voru strákarnir sem gátu ekki falið kynhneigð sína, og það er ekkert að því en ég tengdi bara ekki við þá.“

Léttir og frelsi

Jafet segir það hafa verið  erfitt að taka þessa ákvörðun

„En þetta var rosalegur léttir og frelsi að geta verið ég sjálfur, 21 árs. Og maður var smá villtur þarna í byrjun enda búinn að bæla þetta lengi. Það er erfitt að hætta feluleik þegar maður er búinn að vera að ljúga á hverjum degi og skammast sín svo fyrir lygarnar. En lygarnar sköðuðu engann nema sjálfan mig. Ég var tvístígandi við að koma út úr skápnum því ég var hræddur um að sjá eftir því.

En ég hef aldrei gert það og gat farið að þroskast í stað þess að þvinga mig í hlutverk karlrembu því ég var alltaf að reyna að vera eins mikill karlmaður og ég gat.

Þvinga mig í hlutverk sem voru mér ekki eðlislæg. Vinna á eigin fordómum.“

Við tók mikil sjálfsvinna.

„Ég tók meðvitaða ákvörðun um að læra að tala fallega við sjálfan mig. Það er auðvelt að segja þetta en það var flókið að byrja á því. Rétt eins og  neikvæðni er smitandi er jákvæðni það líka. Ef að fólk sýnir þér jákvæðni sýnir þú fólki ósjálfrátt jákvæðni sama við aðra. Sem er svo fallegt.

Og þetta má nota á sjálfan sig, ef þú temur að tala fallega við sjálfan þig geturðu lært að verða betri útgáfa af sjálfum þér.“ 

Sorgin og söknuðurinn

Jafet missti bestu vinkonu sína hana Hörpu fyrir sjö árum. Það varð mikið bakslag og hann fylltist reiði sem var erfiður staður til að vera á en sorgin kom út á þennan hátt.

„Þessi reið stóð ekki lengi en þetta voru mögulega erfiðustu mánðuðir lífs míns því ég er ekki reið manneskja að eðlisfari. Ég hafði verið kominn á þann stað að vera í góðu sambandi við eigin tilfinningar en þarna skildi ég þær ekki og áttaði mig ekki á hvaðan þessi reiði kom. En ég var að syrgja vinkonu mína og fannst erfitt og ósanngjarnt að hún væri farin.

Hún var mér svo ótrúlega kær, mín besta vinkona. Kletturinn minn.“

Jafet og Harpa. Hún var kletturinn hans. Mynd/aðsend

„Heimurinn hrundi þegar að hún dó og ég fór aðeins út af sporinu andlega. En með tímanum náði ég mér aftur á strik og leið betur með hverju árinu sem leið en þá kom 18. desember 2020 og sendi mann beint aftur á byrjunarreit.“

Hættan á Seyðisfirði

„Hús foreldra minna er gullfallegt tæplega 140 ára gamalt hús sem hefur verið í eigu þeirra alla mína ævi. Við elskum þetta hús og það er griðastaður okkar allra í fjölskyldunni. Við systkinin höfum oft sagt að ef mamma og pabbi skyldu ætla að selja húsið þá verðum við að kaupa það frá þeim þar sem við getum ekki ímyndað okkur að missa húsið úr fjölskyldunni.

Það væri of skrítin tilfinning að sjá einhvern annan búa í því. . Við vissum alltaf að það væri ákveðin skriðuhætta á svæðinu, en þetta höfðu alltaf verið bara litlar spýjur í minni minningu.  Við töldum okkur þekkja hættumerkin sem voru ekki til staðar í þetta skiptið svo maður var bara slakur.“

Skriðan var Jafet gríðarlegt áfall Mynd/Eggert Jóhannesson

Jafet á leiðinni austur nokkrum dögum fyrr ásamt bróður sínum. Þeir voru tregir til sem hann segir afar ólíkt þeim, aldrei þessu vant voru þeir bræður ekki að fá sig í það að fara. Ferðin austur gekk brösuglega og eftir á séð var eins og þeim hefði ekki verið ætlað að fara.

Næstu þrjá daga rigndi stöðugt og systir Jafets, einnig búsett á Seyðisfirði, vildi endilega fá fólkið sitt til sín en þeim fannst ekki ástæða til að standa í því. 

Undirmeðvitundin varaði mig við

„Húsið var ekki á rýmingarsvæði og við horfðum alltaf á fossinn sem viðvörunarkerfi, það er auðvitað rökrétt að ef fossinn er vatnsmikill sé meiri hætta á ferðum. En vatnsmagnið í fossinum var blekkjandi þar sem ekki var áberandi mikið rennsli í honum.

Á fjórða degi vöknum við við að húsið Breiðablik er farið skriðu, og það er innar í bænum. Okkur fannst þetta súrrealískt og ég fann svo sterkt að þessi dagur var eitthvað öðruvísi.

Ég hafði ekki haft neinar áhyggjur en þarna breyttist hugarfarið og ég var með ónotatilfinningu. Pabbi var að fara að steypa kjallarann með nokkrum öðrum og ég bað um að sleppa við að hjálpa, fannst óþægilegt að fara niður í kjallara ef það skyldi falla skriða.“ 

Bræðurnir fylgdust með fossinum Mynd/aðsend

Jafet skutlaði mömmu sinni í vinnuna en þegar hann kom heyrði hann skerandi drunur, svo miklar að hári risu. 

„Ég virðist hafa verið eina manneskjan sem heyrði þetta en ég hef aldrei getað útskýrt þetta en undirmeðvitundin virðist hafa verið að vara mig við allann daginn þrátt fyrir að ég reyndi að hundsa hana.“

Sat hágrátandi með hundinn í fanginu

„Bróðir minn benti mér á að fossinn væri orðinn svartur og við bara störðum. Hann fór að slökkva á tölvunni sinni ef það skildi slá út rafmagninu og hann er að labba upp stigann þegar að allt fer til fjandans. Sá fjallið springa. Bókstaflega. Það var svo mikið sjokk að horfa á þetta, ég öskra bara nei, gríp hundinn minn og hleyp með hanainn í herbergi sem snýr frá fjallinu  og fel mig þar ásamt pabba. Bróðir minn öskrar á okkur pabba að koma upp en ég sat hágrátandi með hundinn í fanginu og beið eftir dauðanum sem ég var fullviss um að væri að koma. 

Rafmagnið fór og við pabbi horfum á 2 hús við hlið okkar hverfa undir skriðuna og biðum eftir högginu sem aldrei kom. Og allt á sjö sekúndum.“

Hann segir þetta hafa verið sturlun ,,Þetta voru 70 þúsund rúmmetrar sem stefndu beint á okkur.  Og svo skipti hún um farveg.“

Skriðan hefði líklega ekki mátt falla neitt öðruvísi til að lenda ekki á húsinu.

„Þarna í blómaskálanum man ég eftir að hafa huggað mig við að nú myndi ég hitta Hörpu aftur. En hún hefur ekki tekið það í mál. Persónulega trúi ég því að hún hafi haldið verndarhendi yfir mér. Það er svo margt sérkennilegt við þetta sem ég veit ekki hvernig er hægt að útskýra.“ 

Upplifti sjálfshatur

Í kjölfarið tók við erfitt tímabil hjá Jafet sem greindist með áfallastreituröskun.

„Þetta lagaðist tímabundið eftir að ég byrjaði á ADHD lyfjum, en kom því miður aftur síðasta haust þegar fréttir fóru að berast á ný af mögulegum skriðuföllum á svæðinu sem húsið okkar stendur á. Ég átti mjög erfiða tíma í janúar og febrúar, fór aftur að eiga erfitt með sofa og fann fyrir kvíða og þunglyndi, að búast við því versta.

Ég veit að það er ekki rökrétt en það er erfitt að díla við þetta og ég er alltaf hræddur um líf ástvina minna.“

Jafet Sigfinnsson Mynd/Sigtryggur Ari

Besta útgáfan

Jafet hefur lært að elska sjálfan sig. Loksins.

„Ég hef upplifað mikið sjálfshatur í gegnum ævina, sérstaklega á menntaskólaárunum. En ég hef núna lært að skammast mín ekki fyrir mig og skafa ekki ofan af því hver ég í raun er, hver ég var, og hvernig ég komst á þann stað sem ég er í dag. 

Maður er alltaf að læra og mótast en mér finnst ég vera orðin ansi góð útgáfa af sjálfum mér, langt því frá að vera fullkomin, en sú besta hingað til,“ segir Jafet Sigfinnson. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Peaky Blinders-leikari er látinn – Lét til sín taka á ýmsum sviðum

Peaky Blinders-leikari er látinn – Lét til sín taka á ýmsum sviðum
Fókus
Í gær

Húsráðið sem breytir lífi þínu – Þú þarft aldrei að skafa frosnar bílrúður aftur

Húsráðið sem breytir lífi þínu – Þú þarft aldrei að skafa frosnar bílrúður aftur
Fókus
Í gær

Kyntákn hvíta tjaldsins átti sér dekkri hlið – „Ég vissi aldrei hvað myndi koma honum af stað“

Kyntákn hvíta tjaldsins átti sér dekkri hlið – „Ég vissi aldrei hvað myndi koma honum af stað“
Fókus
Í gær

Taylor Swift segir Kim Kardashian til syndanna – „Ég flutti til annars lands og fór ekki út úr húsi í ár“

Taylor Swift segir Kim Kardashian til syndanna – „Ég flutti til annars lands og fór ekki út úr húsi í ár“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Áhorfendum hryllti við „sifjaspellatriði“ í nýju jólamynd Netflix

Áhorfendum hryllti við „sifjaspellatriði“ í nýju jólamynd Netflix
Fókus
Fyrir 3 dögum

Meghan sögð hafa talið sig eiga meiri rétt en Katrín á að láta í sér heyra

Meghan sögð hafa talið sig eiga meiri rétt en Katrín á að láta í sér heyra