fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Martröð Lydiu – Konan sem enginn trúði að væri móðir barna sinna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Fimmtudaginn 26. maí 2022 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var í desember árið 2002 sem Lydiu Fairchild var sagt að það væri útilokað að hún hefði fætt tvö börn sín því þau væru henni alls óskyld. Lydia skyldi engan vegin hvað gekk á, hún hafði vissulega gengið í gegnum tvær meðgöngur og tvær fæðingar með börn sín. 

En enginn trúði henni. 

Furðuleg saga Lydiu hófst þegar að slitnaði upp sambandi hennar við barnsföður sinn, Jamie Townsend, árið 2002. Samband þeirra hafði verið stormasamt í gegnum árin, þau höfðu verið sundur og saman en staðan nú var öllu erfiðari en ella. Lydia var nefnilega ófrísk af þeirra þriðja barni.

Lydia með börnin sín tvö.

Hin 26 ára gamla Lydia átti erfitt með að ná endum saman sem einstæð móðir og sá ekkert annað í stöðunni en að fara fram á tímabundna fjölskylduaðstoð frá hinu opinbera til að fæða og klæða börn sín. Við afgreiðslu slíkra umsókna fór Washington fylki, þar sem Lydia bjó, fram á DNA próf til að sannreyna að börnin væru vissulega blóðskyld foreldrunum til að koma í veg fyrir bótasvik sem yfirvöld höfðu of oft brennt sig á.

Lydiu fannst það lítið mál en nokkrum dögum síðar var hringt í hana og hún beðið að koma á skrifstofu félagsmálayfirvalda til nánari viðræðna. Lydia taldi það einfaldlega vera hluta af umsóknarferlinu en þegar að hún steig inn á skrifstofuna beið hennar þungbúinn hópur fólks sem starði hana.

Lydia Fairchild.

Eftir nokkrar sekúndur af óþægilegri þögn spurði Lydia hvernig hún gæti aðstoðað og steig þá einn embættismannanna fram og tilkynnti henni að DNA rannsóknin hefði staðfest að Jamie væri vissulega faðir barna hennar. Aftur á móti væri útilokað að hún væri móður þeirra.

Lydia var orðlaus og hélt að um einhvers konar grín væri að ræða en var fljótt þess fullviss um að fólkinu var full alvara. Hún var spurð að því hvort hún héti yfirleitt Lydia Fairchild, hver hún væri og hvort hún hefði stundað önnur bótasvik. Hún var einnig grilluð um hvaðan hún hefði fengið börnin. Frá ættingja? Vinkonu? Rændi hún þeim kannski af ástkonu Jamie?

Lögregla var kölluð til

Sömu niðurstöður

Lydia var miður sín og skildi ekkert hvað gekk á. Hún grátbað alla um að trúa sér, vissulega væru þetta hennar börn. Hvaða rugl var í gangi??!! Hún bað um leyfi til að sanna mál sitt og rauk heim að sækja fæðingarvottorð barnanna og myndaalbúm. Sýndi hún yfirvöldum fjölda mynda af henni á meðgöngunni og á fæðingardeildinni með börn sín nýfædd í fanginu. En enginn trúði henni. Lydia hringdi því næst hágrátandi í foreldra sína sem þustu á svæði, jafn rugluð og Lydia, enda hafði móðir hennar verið viðstödd báðar fæðingarnar.

Lydia með hinar afgerandi DNA niðurstöður.

Aftur og aftur voru gerð DNA próf á allri fjölskyldunni til að útiloka mannleg mistök en niðurstaðan var alltaf sú sama. Það var enginn möguleiki á að Lydia væri móðir barna sinna.

Lydia fylltist sífellt meiri skelfingu enda trúði henni ekki nokkur maður nema foreldrar hennar og barnsfaðir, Jamie.

Skelfileg fæðing

Þegar að Lydia fæddi sitt þriðja barn var starfsmaður barnaverndaryfirvalda viðstaddur fæðinguna til að sjá til þess að blóðprufur yrðu gerðar tafarlaust. Fæðingin var Lydiu martröð. Í stað þess að njóta þess að koma nýju lífi í heiminn sat bláókunnug manneskja við hlið hennar og kom í raun fram við hana eins og glæpamann. Lydia huggaði sig þó við það að loksins yrði henni trúað, annað væri útilokað.

Lydia með þriðja barn sitt.

En niðurstaðan úr DNA rannsókn á nýfædda barninu var sú sama og áður. Lydia var ekki móðir barnsins. Og þrátt fyrir að fulltrúi hins opinbera hafði séð hana fæða með eigin augum var henni tilkynnt að öll þrjú börnin yrðu að öllum líkindum tekin af henni.

Talið var langsennilegast að hún væri staðgöngumóðir og væri svikamylla Lydiu jafnvel enn stórtækari en áður hefði verið talið.

Lydia brotnaði algjörlega saman.

Karen

Foreldrar Lydiu ásamt Jamie leituðu allra leiða til að finna henni aðstoð en jafnt læknar sem lögfræðingar frábuðu sér að koma nálægt málinu. DNA laug jú aldrei. Á endanum féllst ungur lögmaður, Alan Tindell að nafni, á að taka að sér málið og hóf hann að grafast fyrir um hvernig staðið gæti á þessum makalausu niðurstöðum.

Og ekki leið á löngu þar til hann rakst á grein í læknatímariti um konu, Karen Keegan að nafni, sem einnig hafði verið tilkynnt að hún gæti ekki verið móðir barna sinna.

Karen ásamt sonum sínum áður en hún fékk tíðindin.

Þegar að Karen þurfti nýrnaígræðslu buðust allir af hennar þremur uppkomnu sonum til að gefa henni nýra og voru í kjölfarið sendir í rannsóknir til að kanna hver þeirra væri heppilegastur sem gjafi. Niðurstöður DNA rannsóknar voru hins vegar á þá leið að aðeins einn af sonum hennar var henni blóðskyldur.

Chimera

Karen stóð aftur á móti mun betur félagslega en Lydia og þrátt fyrir að ganga í gegnum sama spurningaflóð efaðist enginn í raun um að hún væri móðir sona sinna. Haft var samband við sérfræðinga á vegum erfðarannsókna og í ljós kom að Karen var blendingur (chimera), það er með vefi og blóðfrumur sem eru erfðafræðilega alls óskildir öðrum frumum líkamans.

Jamie og Lydia

Blendingur er manneskja sem í upphafi var annar tvíbura, tvö frjóvguð egg sem renna saman í eitt í upphafi meðgöngu.

Alan hafði samband við Karen, sem staðfesti söguna, og fór hann í kjölfarið fram á að sambærilegar rannsóknir yrðu gerðar á Lydiu. Var það samþykkt  og í ljós kom að blóðfrumur hennar innihéldu DNA úr tvíburanum sem aldrei varð.

Karen og Lydia voru með tvö sett af DNA í líkama sínum. Slík tilfelli eru afar sjaldgæf og hafa innan við 30 í heiminum verið skráð.

Ástin kom aftur

Málin gegn Lydiu var fellt niður og sagði hún síðar að hún gæti seint fullþakkað lögfræðingi sínum, hefði hann ekki fundið Karen Keegan hefði hún misst öll sín börn og hugsanlega séð fram á refsingu.

Í gegnum þessa skelfilegu 16 mánuði sem málið tók trúði enginn Lydiu nema foreldrar hennar og Jamie. Hann stóð ávallt sem klettur við hlið hennar og svo fór að þau fundu þau aftur þá djúpstæðu ást sem í upphafi hafði bundið þau saman.

Lydia og Jamie ásamt börnum sínum.

Nokkrum árum síðar fögnuðu Lydia Fairchild og Jamie Townsend sínu fjórða barni, hamingjusamari en nokkru sinni fyrr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“