Sannkölluð draumahöll fæst nú til sölu í Mosfellsbæ. Um er að ræða einbýlishús sem er í byggingu og á skráð á byggingarstig 3, en eitthvað vantar enn upp á til að eignin teljist fokheld. Tölvuteiknaðar myndir fylgja auglýsingu og sýna skipulag hússins og þá möguleika sem eignin bíður upp á, en þar sem enn á eftir að klára að byggja húsið geta nýir eigendur leyft ímyndunaraflinu að njóta sín.
Eignin er skráð 188,6 fermetrar en er í raun töluvert stærri. Samkvæmt teikningum er eignin tvær stofur, eldhús, tvö baðherbergi, skrifstofa og tvö rúmgóð svefnherbergi. Jafnframt er möguleiki að breyta annarri stofunni í hjónasvítu.
Aðalinngangur eignarinnar er í gegnum sólskála sem er lokaður með gleri. Frá sólstofunni er svo hægt að ganga út í garð eða inn í húsið.
Í kjallara má svo fulla gluggalaust rými sem hægt verður að nýta á ýmsan máta. Grjót/klöpp var skilin eftir í kjallaranum og skapar heilsulindar-stemningu, en rýmið þarfnast þó smá vinnu svo hægt sé að nýta það, svo sem að hreinsa smágrjót og flota gólfið.
Ásett verð er 83,9 milljónir en í auglýsingu kemur fram að seljandi óskar eftir tilboðum og býðst til að vera kaupanda innan handa með efniskaup þar sem seljandi getur nálgast efni á hagstæðari verðum en þekkist. Hér fyrir neðan má sjá tölvuteiknaðar myndir sem sýna möguleika eignarinnar.
Nánari upplýsingar má svo finna á fasteignavef DV