fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022
Fókus

Allt sem þú þarft að vita um mál Johnny Depp og Amber Heard

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 27. apríl 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 11. apríl hófst aðalmeðferð í meiðyrðamáli leikarans Johnny Depp gegn fyrrverandi eiginkonu sinni, Amber Heard, vegna greinar sem hún ritaði árið 2018 þar sem hún sagðist vera þolandi heimilisofbeldis, en af greininni mátti álykta að þar væri verið að væna Depp um að vera ofbeldismaður. Hjónabandi þeirra lauk árið 2016 þegar Heard fór fram á skilnað og sótti samtímis um nálgunarbann gegn Depp. 

Depp fer fram á 50 milljónir dollara í skaðabætur, en hann kærði í málinu árið 2019. Síðan þá hefur Heard reynt að fá málinu vísað frá en þegar þeirri kröfu var hafnað stefndi hún Depp í gagnsök þar sem hún krefst 100 milljón dollara skaðabóta fyrir óhróðursherferð Depp gegn sér og hefur hún eins óskað eftir friðhelgi frá frekari ásökunum frá Depp.

Málið hefur vakið mikla athygli og hefur verið sýnt í beinni útsendingu frá vitnaleiðslum og málflutningi. Þar sem nú er komið við sögu hefur Depp lokið við að gefa sína aðilaskýrslu, en Heard hefur enn ekki gefið sína. Ýmislegt hefur komið fram í máli Depp sem og í málflutningi þeirra vitna sem hann og lögmenn hans hafa leitt fram.

Hér verður farið yfir það helsta sem fram hefur komið hingað til, en þessi yfirferð skal lesast með þeim fyrirvara að Heard á eftir að fá að greina frá sinni hlið og eftir á að leiða fram hennar vitni. Hingað til hefur hennar hlið aðeins fengist að heyrast þegar lögmenn hennar fengu að spyrja Depp og vitni spurninga, sem og í upphafsávarpi til kviðdómsins.

„Þegar þessar ásakanir voru lagðar fram, þegar þær gengu um í heiminum og fólki sagt að ég væri fullur kókaður brjálæðingur sem lemur konur, skyndilega á fimmtugsaldri var allt búið. Maður er bara búinn,“ sagði Depp fyrir dómi. Hann sagði að sama hver niðurstaða málsins yrði þá losni hann aldrei undan þessum ásökunum.

Heard heldur því fram að Depp hafi beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á meðan á sambandi þeirra stóð.

Myndir sem Heard hefur birt af áverkum og sagt vera eftir Depp

Grunaði að Heard færi að halda framhjá með James Franco 

Undir Depp voru bornar ýmsar upptökur, samskipti og atvik sem Heard og lögmenn hennar hafa nefnt sem sannanir fyrir því að hann hafi verið ofbeldismaður.

Gekkst Depp þar við engu ofbeldi heldur skýrði hvert atriði fyrir sig út.

Depp viðurkenndi meðal annars að hafa átt í deilum við Heard árið 2014 þegar þau voru á leið um borð í flugvél. Sagði hann rifrildið hafa stafað af því að honum grunaði á þeim tíma að Heard væri að halda framhjá honum með leikaranum James Franco. Daginn eftir rifrildið hafi Depp sent konu sinni textaskilaboð þar sem hann baðst afsökunar á framferði sínu.

„Enn einu sinni upplifi ég skömm og eftirsjá. Að sjálfsögðu þykir mér þetta leitt. Ég veit ekki alveg hvers vegna eða hvað gerðist en ég mun aldrei gera þetta aftur.“

Þar hafi hann því ekki verið að biðjast afsökunar af ofbeldi. Því hefur einnig verið haldið fram að Heard hafi haldið framhjá Depp með auðkýfinginum Elon Musk.

James Franco

Undir Depp voru borin ýmis skilaboð sem hann hafði sent til mismunandi einstaklinga þar sem hann fór ófögrum orðum um konu sína og kallaði hana meðal annars hóru.

Eins báru lögmenn Heard undir Depp skilaboð sem send voru milli Depp og vinar hans, Paul Bettany. Í einu skilaboðanna skrifaði Depp: „Brennum Amber. Drekkjum henni áður en við brennum hana!!! Ég mun ríða brenndu líki hennar eftir á til að tryggja að hún sé dauð.“

Bettany svaraði skilaboðunum: „Ég held að við ættum ekki að brenna Amber.“

Talsmaður Depp sendi tillkynningu á fjölmiðla í kjölfarið þar sem segir að þarna hafi Depp verið að vísa til grínatriðis úr smiðju Monty Python sem hann og Bettany hafi horft á sem börn.

Ekki er víst nákvæmlega hvaða brandara en margir hafa tengt þetta við senuna sem má finna hér að neðan, þó óljóst sé hvernig ofangreind skilaboð séu vísun í það grín.

Segist sjálfur vera þolandinn

Í gegnum skýrslugjöf sína hafa Depp og lögmenn hans birt fyrir kviðdómi þá mynd að það hafi verið Depp sem var þolandi heimilisofbeldis, en ekki Heard. Hún hafi bæði beitt hann líkamlegu og andlegu ofbeldi og hafi Depp oft þurft að læsa sig inn á baðherbergi til að sleppa undan henni. Deilur þeirra hafi mátt rekja til þess að hún var óánægð með áfengis- og lyfjanotkun eiginmanns síns. Depp hefur þó tekið fram að sjálf hafi hún drukkið mikið og tekið inn lyf.

Því til stuðnings hafa verið sýndar myndir sem sýna Depp með áverka á andliti sem lífvörður hans tók árið 2015. Þeir áverkar eru sagðir eftir Heard og að lífvörðurinn hafi heimtað að taka myndir sem svo færi að Heard ætlaði að mála sjálfa sig sem þolanda. Depp sagði einnig að eina manneskjan sem hann hafi beitt ofbeldi sé hann sjálfur, og vísaði þar til erfiðleika sem hann hefur glímt við varðandi læknadóp.

Eins var spiluð upptaka þar sem Heard virðist viðurkenna að hafa slegið Depp. „Þú sagðir mér að gera það, þú sagðir: Gerðu þetta,“ segir Heard á upptökunni. Því svarar Depp: „Þú kýldir mig í fokking hlutinn“.

„Ó þú ert búinn að átta þig á öllu,“ svarar Heard og bætir við „Ég kýldi þig samt ekki. Ég sé eftir að ég hafi ekki slegið þig í andlitið í almennum kinnhesti. Ég var að slá þig, ég var ekki að kýla. Þú ert í fínu lagi, þú ert ekki meiddur.“

@samanthadeppx Amber Heard admits to hitting Johnny Depp & starting physical fights. #johnnydepp #amberheard #johnnydepptiktok #justiceforjohnnydepp #foryou #amberheardisaliar ♬ Je te laisserai des mots – Patrick Watson

Eins lauk vitnisburði Depp á því að spiluð var upptaka þar sem Heard heyrist segja: „Segðu heiminum, Johnny, segðu þeim: Ég, Johnny Depp, karlmaður, er líka þolandi heimilisofbeldis, og sjáðu hversu margir trúa þér eða standa með þér.“

Var þá Depp spurður af lögmanni hverju hann hafi svarað.

„Ég sagði já, það er ég.“

Deilt um afskorinn fingur

Eitt af því sem tekist hefur verið á um í málinu er atvik sem átti sér stað í Ástralíu sem lauk með því að Depp þurfti að leita læknisaðstoðar eftir að það skarst framan af fingri hans. Heard heldur því fram að hann hafi skorið sig er hann barði hörðum síma úr plasti í vegginn, en Depp segir að hann hafi tapað fingrinum er Heard henti í hann vodkaflösku.

Einkalæknir Depp greindi frá því fyrir dómi að hann hafi komið á vettvang og þar hafi verið glerbrot og mikið blóð. Fyrrum einkahjúkrunfræðingur leikarans bar einnig vitni og greindi frá því hvernig hún hafi aðstoðað við leitina að afskorna fingrinum. Hún sagði heimilið hafa verið í rúst og blóði hafi verið makað út um allt. Bæði læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn sögðust aldrei hafa orðið vitni að átökum milli hjónanna, en höfðu þó séð þau rífast. Sambandið hafi verið eitrað en hjúkrunarfræðingurinn taldi að það hafi verið Heard sem að jafnaði ætti upptökin.

Umsjónarmaður heimilishalds Depps bar vitni á mánudaginn og greindi frá því er hann fann fingurinn vafinn inn í blóðugan pappír á gólfinu. Hann sagðist ekki hafa séð neinn brotinn síma á svæðinu. „Á gólfinu voru pollar af einhverju sem lyktaði eins og áfengi. Svo virtist sem að þarna hafi brotnað nokkur glös og nokkrar flöskur, ein af þeim var Stolichnaya vodkaflaska.“

Lögmenn Heard bentu á að Depp hafi sjálfur sagt að hann hefði klemmt sig sig þegar hann leitaði til læknis. Depp sagðist þá ekki hafa viljað koma eiginkonu sinni í vandræði.

Depp á sjúkrahúsi eftir að það skarst framan af fingri hans

Kúkur í rúminu

Depp greindi frá því að hann hafi ákveðið að skilja við Heard eftir að móðir hans lést. Hann hafi ákveðið að hringja í konu sína, greina henni frá andlátinu og að hann hefði ákveðið að fara frá henni. Hann myndi gera það smekklega og ekki saka hana um heimilisofbeldi. Svo hafi hann ákveðið að halda heim til að pakka í tösku. En þegar hann kom hafi öryggisvörður hans sagt honum að þetta væri ekki besti tíminn til að koma heim og sýndi Depp mynd af rúmi hans þar sem mátti sjá kúk á lakinu. „Þetta var svo furðulegt og ógeðfellt að ég gat ekkert annað en hlegið,“ sagði Depp. Aðspurður hvort að þarna gæti hafa verið hundaskítur frá smáhundum sem þau hjónin áttu svaraði hann að það væri útilokað.

„Ég bjó með þessum hundum í mörg ár. Það var ljóst að þetta gæti ekki komið frá hundi.“

Heard hefur haldið því fram að hundur hafi kúkað í rúmið.

Möffins og persónuleikaraskanir

Réttarsálfræðingur og sérfræðingur í ofbeldi í nánum samböndum, Shannon Curry, bar vitni fyrir dómi á þriðjudag, en hún var fengin inn sem sérfræðivitni fyrir Depp. Hún hafði metið sálrænt ástand Heard í gegnum sjúkraskýrslur, ítarleg gögn sem og með alls 12 klukkustunda viðtölum við Heard.

Curry sagðist hafa metið Heard með tvær persónuleikaraskanir, annars vegar jaðarpersónuleikaröskun og his vegar geðhrifapersónuleikaröskun sem lýsir sér í því að einstaklingar með röskunina finna fyrir vanlíðan í aðstæðum þar sem þeir eru ekki í brennidepli. Curry sagði að Heard gæti verið með dramatísk og óútreiknanleg og hefði undirliggjandi þörf fyrir að vera í sviðsljósinu en á sama tíma óttist hún höfnun.

Heard hefur haldið því fram að hún glími við áfallastreituröskun vegna þess ofbeldis sem hún mátti sæta af hendi Depp. Hins vegar tók Curry fram að áfallastreita sé ein þeirra andlegu veikinda sem hvað auðveldast sé að gera sér upp og sagðist hún vera þeirrar trúar að Heard hafi „verulega ýkt“ áfallastreitu sína eftir samband sitt við Depp.

Síðan átti sér stað undarleg samskipti milli lögmanns Heard og Curry um möffins. Þau samskipti áttu sér stað þegar lögmaðurinn sakaði Curry um að hafa rofið trúnað er hún tjáði eiginmanni sínum að hún væri að gera mat á Heard.

„Það er ekki rétt,“ svaraði Curry.

Lögmaðurinn var þó ekki að baki dottinn og þráspurði Curry út í möffinskaupin og hvort þau hefðu falið í sér að Curry hafi greint eiginmanni sínum frá því hver væri væntanlegur til hennar í viðtal.

„Þú sagðir að þú hafir komið með möffins frá eiginmanni þínum og þú gafst Heard, er það ekki rétt?“

Að lokum sagði Curry : „Má ég bara skýra hvað átti sér stað svo við getum hætt að tala um möffins.“

Hún útskýrði svo að hún ætti það til að mæta með möffins á skrifstofuna, gjarnan sendi hún eiginmann sinn fyrir sig svo hún verði ekki of sein. Honum hafi vissulega grunað að hún væri að fá til sín frægan einstakling vegna þeirra ráðstafana sem hún hafði þurft að gera á skrifstofunni til að tryggja að enginn sæi hver væri á ferðinni. Hún hafi þó aldrei nafngreint Heard við hann.

Aftur reyndi lögmaðurinn:

Lögmaðurinn spurði síðar aftur: „Hvers vegna náði eiginmaðurinn þinn í möffins fyrir Heard,“

Þá hló Curry: „Hann sótti þær ekki fyrir Amber Heard.“

Sama dag bar vitni kona, Tara Roberts, sem er umsjónarmaður eignar Depp á eyju sem tilheyrir Bahamaeyjunum. Hún greindi frá því að hafa orðið vitni að rifrildi milli hjónanna þar sem „Amber sagði honum að hann væri uppþornaður leikari sem myndi deyja feitur og einmanna.“ Í beinu framhaldi, þegar Depp reyndi að yfirgefa aðstæður, hafi Heard faðmað hann og kysst og grátbeðið hann um að fara ekki. Síðar þennan dag hafi Roberts tekið eftir því að Depp var með áverka á nefi.

Lögreglukonan Melissa Saenz bar einnig vitni á þriðjudag. Hún greindi frá því að hafa verið kölluð að heimili Depp og Heard í maí 2016, nokkrum dögum áður en Heard sótti um skilnað og fór fram á nálgunarbann gegn Depp, en Heard mætti þá í dómsal með áverka á andliti sem hún sagði Depp hafa veitt sér kvöldið sem Saenz mætti að heimili þeirra. Saenz sagði að þegar hún mætti til hjónanna hafi Heard verið grátandi en að hún hafi enga áverka haft. Lögmaður Depp telur þennan vitnisburð styðja við þá kenningu að Heard hafi sviðsett áverkana til að eyðileggja orðspor Depp.

Mynd sem Heard telur sanna áfengisvanda Depp. Hann heldur því þó fram að hún hafi sviðsett myndina með því að fá hann, þar sem hann var að lognast út af, til að halda á ís fyrir hana. Bendir hann því til stuðnings á að önnur hendi hans er í vasanum.

Þessi samantekt er aðeins brot af því sem hefur átt sér stað í dómsalnum í Virginíu undanfarnar vikur, en þar hefur þegar verið leiddur fram fjöldi vitna og auk þess hefur Johnny staðið klukkustundum saman undir spurningum lögmanna sinna og lögmanna Heard. Greint hefur verið frá ýmsum tilvikum þar sem þau rífast og spilaðar upptökur af þeim hjónunum deila sem ýmist benda til þess að Heard sé gerandinn eða að Depp sé það. Fréttamiðlar hið ytra hafa átt í fullu fangi við að birta fréttir af nýjustu vendingum en eins hafa aðdáendur Depp gengið hart fram gegn Heard og hefur hún þurft að ráða sér lífverði eftir gífurlegt magn af morðhótunum.

Hafa aðdáendur, sem og aðrir stuðningsmenn Depp, fundið Heard allt til foráttu. Meðal annars hefur verið gert grín að lögmönnum hennar og þeir sakaðir um vanhæfi vegna tíðra mótmæla sem hafa verið gerð á grundvelli „sögusagna“ en í því felst að lögmaður mótmælir því er vitni fer að greina frá einhverju sem hann sá ekki eigin augum, svo sem ef vitni greinir frá því að einhver hafi sagt viðkomandi að eitthvað hafi gerst.

Eins þótti mörgum, og að því er virðist dómaranum líka, furðulegt þegar einn lögmanna Heard mótmælti sinni eigin spurningu. Hins vegar segja lagafróðir hið ytra að það eigi sér eðlilegar skýringar þar sem vitnið var að svara spurningu með því að vísa til ummæla sem annar aðili viðhafði um atburð.

Síðan vakti það mikla athygli þegar snyrtivöruframleiðandinn Milani birti myndband vegna málsins á TikTok. Það var til að hrekja frásögn eins lögmanna Heard í málinu en sú hafði haldið á lofti margskiptum hyljara frá Milani og greint frá því að þennan hyljara hafi Heard notað til að fela áverka sína eftir Depp.

„Þetta er það sem hún notaði og hún varð mjög góð í því. Þið munuð heyra vitnisburð frá Amber þar sem hún greinir frá því hvernig hún þurfti að blanda saman mismunandi litum fyrir mismunandi daga marblettanna þar sem þeir komu fram í ólíkum litum og hún notaði þetta til að geta falið þá,“ sagði lögmaðurinn í opnunarávarpi sínu til kviðdómsins og sýndi kviðdómurum umræddan farða. „Þetta var Amber með í veski sínu í gegnum allt samband sitt við Johnny Depp. Hún er leikari. Haldið þið virkilega að hún hafi yfirgefið íbúð sína án farða? Haldið þið að hún hafi viljað að aðrir sæju marblettina og rispurnar?“

Milani benti á að umræddur hyljari hafi ekki verið kominn í sölu fyrr en eftir að hjónabandi Heard og Depp lauk. Rétt er þó að taka aftur fram að Heard á eftir að gefa sína aðilaskýrslu. Þar gæti komði á daginn að lögmaður hennar hafi aðeins verið að sýna að Heard notaði margskiptan hyljara, en ekki endilega frá þessum framleiðanda.

@milanicosmetics You asked us… let the record show that our Correcting Kit launched in 2017!👀 milanicosmeticss InternationallSuperrSpydylann
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Haraldur geðlæknir segir að góðmennska nútímans sé að snúast upp í andhverfu sína -„Það er augljóslega eitthvað mikið að“

Haraldur geðlæknir segir að góðmennska nútímans sé að snúast upp í andhverfu sína -„Það er augljóslega eitthvað mikið að“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Lögreglan finnur ekki móður og börnin hennar þrjú eftir dvöl þeirra með Ezra Miller

Lögreglan finnur ekki móður og börnin hennar þrjú eftir dvöl þeirra með Ezra Miller
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kristján Jón er sterkasti maður Íslands 2022

Kristján Jón er sterkasti maður Íslands 2022
Fókus
Fyrir 5 dögum

Svona lengi á kynlífið að endast samkvæmt kynlífssérfræðingnum

Svona lengi á kynlífið að endast samkvæmt kynlífssérfræðingnum