fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Sís hommi og pankynhneigð trans kona takast á um formannsstólinn – Allt sem þú þarft að vita

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 3. mars 2022 17:57

Álfur Birkir Bjarnason og Arna Magnea Danks bjóða sig bæði fram til formanns Samtakanna ´78

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö eru í framboði til formanns Samtakanna ´78 en nýr formaður verður kjörinn á aðalfundi sunnudaginn 6. mars. Þau sem gefa kost á sér eru  Arna Magnea Danks og Álfur Birkir Bjarnason.

Arna Magnea er pankynhneigð trans kona, notar persónufornafnið hún og er fyrsta trans manneskjan til að bjóða sig fram til formennsku Samtakana 78. Hún er lærð leikkona, áhættuleikstjóri og kennari og er í mastersnámi í kynjafræði við HÍ. Hún er þriggja sona móðir, femínisti, mannréttindasinni, hunda- og kattaeigandi sem semur skúffuljóð og elskar kvikmyndahátíðir, leikhús, vísinda- og fantasíubókmenntir.

 

Álfur Birkir er sís hommi sem notar persónufornafnið hann. „Mér þykir fátt betra en góður kaffibolli. Hvort sem hann er drukkinn með skemmtilegu fólki yfir mannréttindaumræðu eða í snöggri nestispásu á göngu um hálendið. Við kærastinn minn erum báðir mikil náttúrubörn og leitum mikið á hálendið til að flýja amstrið í borginni en komum svo alltaf aftur í mannlífið.

Ég er lærður tölvunarstærðfræðingur en fann fljótlega að náttúran togaði meira en skrifstofan og núna í vor er ég að klára BS í líffræði til viðbótar. Ég hef meðal annars starfað sem gagnasérfræðingur hjá Meniga og Plain Vanilla og stærðfræðikennari í Háskólanum í Reykjavík. Síðustu sumur hef ég síðan verið landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði í Eldgjá, Laka og við Langasjó.“

 

Hér á eftir eru svör þeirra við nokkrum spurningum í tengslum við framboðið.

 

Af hverju ákvaðst þú að bjóða þig fram til formanns Samtakanna ‘78?

Álfur Birkir: „Mér finnst mikilvægt að hinsegin fólk hafi sterkan málsvara sem getur komið fram af einlægni og staðfestu. Þorbjörg, fráfarandi formaður, hefur gert þetta listilega vel í þrjú ár og þegar ég komst að því að hún gæfi ekki kost á sér áfram ákvað ég að bjóðast til að taka við keflinu. Ég hef reynslu af ræðumennsku og leiklist úr menntaskóla og hef alltaf átt auðvelt með að koma fram og færa rök fyrir máli mínu. Sem formaður vonast ég til að leiða saman ólíka hópa og kynslóðir hinsegin fólks og fá tækifæri til að tala máli okkar allra.“

 

Arna Magnea: „Þegar ég ólst upp vantaði alveg sýnileika trans fólks og það tók mig áratugi að fá réttu orðin yfir sjálfa mig og enn lengri tíma að sættast við sjálfa mig.

Það að hafa getað mátað mig við eldra trans fólk hefði getað sparað mér mikinn sársauka og tel ég því að sýnileiki sé virkilega mikilvægur fyrir unga hinsegin einstaklinga til að máta sig við og til að uppgötva sinn sannleika, og ég vil vera sú fyrirmynd sem mig sjálfri vantaði þegar ég ólst upp.

Við höfum aldrei haft formann í Samtökunum ’78 sem er trans og sýnileiki okkar takmarkast við mjög fáa einstaklinga, og svo oft á tíðum neikvæðum staðalímyndum úr sjónvarpi og kvikmyndum. En sagan hefur kennt okkur að trans fólk er eins og kanarífuglar í kolanámu hinseginleikans og þegar við blómstum þá blómstrar allt hinsegin samfélagið, en þegar að okkur er vegið eins og er að gerast núna út um allan heim og sést á fréttum frá Texas, þar sem er ljóst og leynt verið að reyna að útrýma trans krökkum með því að sækja foreldra og forráðamenn þeirra til saka fyrir vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum, þá verður ekki langt að líða þangað til hatrið sækir restina af LGBTQIA+ fólkinu heim.

Ég tel að vegna þessa þá er nauðsynlegt að þau okkar sem geta verið sýnileg og sýnilegri, séum það og sem vel menntuð trans kona sem bý við ákveðið öryggi sem svo margar okkar búa ekki við, sé ég einmitt í þeirri stöðu að geta boðið mig fram og eigi því að gera það. Til að vera rödd fyrir þær/þá/þau sem ekki hafa hana, svo að öll hinsegin börn og þá sérstaklega trans börn og ungmenni – binary og non binary – viti að það er ljós, líf og hamingja til fyrir þau út úr skápnum og að þau eru fullkominn og rétt á allan hátt eins og þau eru.“

 

Hefur þú starfað áður innan Samtakanna ‘78? Ef já, hvernig?

Arna Magnea: „Var í samráðshópi Samtakanna ’78 sem aðstoðaði forsætisráðuneytið við gerð verkefnaáætlunar í málefnum hinsegin fólks.“

 

Álfur Birkir: „Já, ég byrjaði að taka þátt í starfsemi Samtakanna ‘78 árið 2016. Ég sat í stjórn sem meðstjórnandi og síðar ritari árin 2016-2018. Á þeim tíma tók ég þátt í að endurskoða og skýra lög félagsins. Við komum á laggirnar fléttustjórn þar sem stjórnarmeðlimir sitja tvö ár í senn og stjórnarseta fléttast milli ára til að tryggja að skilningur á yfirstandandi verkefnum haldist. Ég held að þetta hafi gefist mjög vel. Á þessum tíma réðum við líka núverandi framkvæmdastjóra Samtakanna, Daníel Arnarsson, sem hefur verið happafengur og síðan þá hefur stöðugildum í Samtökunum fjölgað úr einu og hálfu í fjögur full störf.“

 

Hver eru brýnustu verkefni Samtakanna ‘78 núna?

Álfur Birkir: „Það er mikill skriður í trans og intersex málefnum þessa dagana og mikilvægt að við nýtum það tækifæri til að leiða nokkur mál til lykta. Það þarf til að mynda að endurskoða undanþágur á banni við ósamþykktum aðgerðum intersex barna, stytta biðlista eftir aðgerðum trans fólks og við þurfum krefjast aukins fjármagns í þjónustu við trans börn. Í dag starfa alls tæp tvö stöðugildi í transteymi BUGL og þau sárvantar liðsauka. Þá vantar aukna félagslega þjónustu utan geðdeilda. Átta ára heilbrigt trans barn þarf ekki endilega að komast á heilbrigðisstofnun en það er eina úrræðið sem veitir þeim stuðning í dag. Og fyrst ég er farinn að tala um peninga þá vantar líka aukið fjármagn í félagsmiðstöðina okkar. Aðsókn er að stóraukast og okkur vantar meiri faglærðan mannskap.“

 

Arna Magnea: 

„1. Taka á móti og styðja við hinsegin fólk frá Úkraínu, en Úkraína er það ríki austur evrópu sem hefur verið að þoka sér upp mannréttindalistann þegar kemur að hinsegin málefnum á meðan önnur ríki, eins og Pólland, Tékkland og Ungverjaland, hafa verið að þrengja að réttindum hinsegin fólks og því ekki auðvelt fyrir hinsegin fólk að sækja um hæli í þeim löndum. Svo er staða hinsegin fólks í Rússlandi mjög bágborin eftir að Pútin og hans stjórn settu á lög sem bönnuðu hinsegin áróður árið 2013 og má því fullyrða að Úkraína undir stjórn Rússa yrði fjandsamleg hinsegin fólki. Sérstaklega trans fólki þar sem það er skráð geðveikt í Rússland, tilvera þeirra er ekki lengur viðurkennd í Ungverjalandi og forseti Tékklands hefur opinberlega kallað trans fólk „viðbjóðslegt“.

2. Stórefla hinsegin fræðslu á öllum skólastigum og innan fyrirtækja þar sem kannanir benda til að enn sé töluvert í það að hinsegin börn, unglingar, ungmenni og fullorðnir hinsegin einstaklingar upplifi sig öruggt á sínum vinnustöðum, hvort sem það er innan skóla, á almenna eða opinbera vinnumarkaðinum.

3. Berjast fyrir hinsegin vænni opinberri þjónustu þar sem virðing, gagnsæi og fyrirsjáanleiki er til staðar. Að samkynja foreldrar verði sjálfkrafa skráðir sem slíkir og njóti sömu réttinda innan opinberrar stjórnsýslu og gagnkynhneigðir foreldrar. Að biðlistar á lífsnauðsynlegum aðgerðum fyrir trans fólk séu styttir og gegnsæir þannig að enginn trans einstaklingur sé að bíða í óvissu án þess að vita hvar viðkomandi er í röðinni, hvað biðin er löng og að settar dagsetningar standi.“

 

Hvernig hefur þjónusta Samtakanna ‘78 nýst þér og þínum?

Arna Magnea: „Hef nýtt mér ráðgjafaþjónustu samtakana, sótt fyrirlestra á vegum samtakana sem foreldri, kennari og sem nemandi við HÍ.

Hef verið virk í félagsstarfinu, bæði sem hinsegin foreldri og sótt stuðningsfundi og ýmsa aðra viðburði. Er einnig félagi í Veru, félag fyrir hinsegin konur og kvár og félagi í TÍ (Trans Ísland).“

 

Álfur Birkir: „Sjálfur nýtti ég mér opnu kvöldin á fimmtudögum á tímabili og kynntist heilum hellingi af frábæru hinsegin fólki sem mér þykir mjög vænt um.

Sú þjónusta sem ég er þakklátastur fyrir er samt ráðgjafaþjónustan. Ég hef ekki nýtt mér hana sjálfur en hún var ómetanleg þegar lítið frændsystkin þurfti að skipuleggja það hvernig það kæmi út úr skápnum sem trans fyrir grunnskólanum sínum. Þar áður höfðu mæðurnar fengið aðstoð við að skilja aðstæður og hvernig þær gætu opnað faðminn og hvatt barnið áfram. Síðan þá hefur þessi æðislega litla manneskja blómstrað og það er Samtökunum ‘78 að þakka.“

 

Sumir líta svo á að hinsegin fólk á Íslandi hafi það svo gott að það sé ekki þörf á sérstakri baráttu eða hagsmunagæslu lengur. Ertu sammála því?

 

Álfur Birkir: „Nei, því fer fjarri. Jafnvel ef við reyndum að halda því fram að hinsegin fólk standi öðrum til jafns í þessu samfélagi felst hagsmunagæslan einnig í því að koma í veg fyrir afturför.

Ég nefndi trans og intersex málefni hér áðan en við það má bæta að við þurfum að ná fram almennri vernd gegn hatursglæpum, mismunun og áreiti. Bara í haust stóð hópur sem kallar sig „hommabana“ hótunum við unga homma og fyrir nokkrum árum var trans konu meinaður aðgangur að skemmtistað með orðunum „Ég ætla ekki að hleypa þessum gaur í kerlingapels inn á staðinn“. Þetta er náttúrulega algjörlega ólíðandi.“

 

Arna Magnea: „Hvenær er gott nægilega gott?

Mitt álit er að við getum hætt allri baráttu þegar hinsegin fólk þarf ekki lengur að réttlæta eigin sannleika, býr við öll sömu réttindi, þjónustu og sýnileika í útgefnu efni, hvort sem um er að ræða fræðirit, skólabækur eða leikið efni á sviði, sjónvarpi eða kvikmyndum og alllir aðrir.

Á meðan hinsegin fólk er enn að berjast við kerfisvillur og skjöl til að fá staðfest að barnið þeirra, sé í raun þeirra. Á meðan trans fólk er varla eða ekki sýnilegt í kennsluefni, íslensku leiknu efni eða á hinum opinbera vettfangi. Á meðan hinsegin fólki er hættara við að verða fyrir áreitni, einelti, ofbeldi, sjálfvígi og sjálfsskaða. Á meðan hinsegin fólk er í augum þeirra sem eru ekki hinsegin, á einhvern hátt óæðri, síðri eða ógn. Á meðan eitthvað af þessu á ennþá við, er baráttan ekki bara nauðsynleg, heldur er hún lífsnauðsynleg!“

 

Geturðu nefnt eitthvað sem þú heldur að fáir viti um Samtökin ‘78? 

 

Arna Magnea: „Þó þetta sé vissulega vitað innan samtakana, þá er ég ekki viss um að þetta sé almenn vitneskja og það er að það eru mörg félög sem eru annaðhvort innan samtakanna eða tengjast þeim á einn eða annan hátt. Sum þeirra eru hagsmunatengd, eins og til dæmis Trans Ísland, á meðan önnur eru viðburðatengd eins til dæmis Hinsegin Kórinn.“

 

Álfur Birkir: „Fyrir utan það að merki Samtakanna ‘78 vann hönnunarverðlaun? Tvisvar!

Jú, ég held að fólk átti sig ekki endilega á umfangi Samtökanna ‘78. Félagsmiðstöðin fyrir hinsegin ungmenni er til dæmis gríðarstór og að meðaltali mættu rúmlega 120 einstaklingar á hvert félagsmiðstöðvarkvöld árið 2021. Samt starfar forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar aðeins í 25% starfi og annað er unnið í sjálfboðaliðastarfi. Það mætti aldeilis bæta.

Annar stór þáttur í starfinu er ráðgjöfin. Árið 2021 voru tæplega 700 manns, bæði hinsegin fólk og aðstandendur, sem nýttu sér ráðgjöfina og veitt voru um yfir 1.000 viðtöl. Það eru að meðaltali meira en þrjú viðtöl á dag þar sem veitt er aðstoð til dæmis við að koma út úr skápnum, skilja sjálft sig, takast á við geðræn vandamál eða vandamál innan heimilis eða bara til að fóta sig í kerfinu og hvers kyns önnur viðfangsefni hvort sem þau tengist hinseginleikanum beint eða óbeint.

Ég er mjög stoltur af því að félagið mitt geti veitt alla þessa þjónustu fyrir þá litlu fjármuni sem við fáum og ekki skemmir fyrir hvað merkið er flott.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 3 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“