DV barst fyrir skömmu ábending um að íslenskri söngkonu hefði nýlega verið boðið að koma fram í áramótaþætti á stórri grískri sjónvarpsstöð. Útsendari stöðvarinnar uppgötvaði söngkonuna í leikhúsi í Aþenu þar sem hún tók kom fram í leikriti.
Konan heitir Hlín Leifsdóttir og hefur fengist við ritstörf, söng og leik undanfarin ár. Hún hefur að mestu búið í Grikklandi síðan árið 2019, hún býr í Píraeus, sem er hafnarhverfi í Aþenu. Hlín staðfesti fréttirnar er DV hafði samband við hana, en þátturinn sem hún kemur fram í hefur verið tekinn upp og verður sendur út á gamlársdag á sjónvarpsstöðinni Epsilon, rótgróinni stöð sem sendir út í Aþenu og Suður-Grikklandi.
„Ég var beðin um að syngja nokkur jólalög í nýársþætti á sjónvarpsstöðinni Epsilon og leika í stuttum leikþætti byggðum á jólasmásögunni „Betlaradrengurinn við jólatré Krists eftir Dostojevsky. Það kom mér mjög á óvart þegar ég var beðin um að syngja eitt jólalaganna, Heims um ból, á íslensku. Þegar ég spurði hvers vegna var ég minnt á að Heims um ból er oft talið hafa verið fyrsta lagið sem sungið var á vígvellinum jólin 1914 í fyrri heimsstyrjöldinni þegar sjálfsprottið vopnahlé í algjörri óþökk allra hlutaðeigandi ríkisstjórna braust út með miklum jólasöng. Hátíðarsöngurinn leysti vopnaskakið af hólmi og friður og bræðralag ríktu um stund á vígvellinum. Ísland er þekkt fyrir að vera mikil friðareyja og þótti því stjórnendum viðeigandi að þetta lag fengi að hljóma á íslensku í nýársþættinum. Ég verð að segja að þetta snerti mig mjög mikið. Ætli það sé ekki einsdæmi að Heims um ból á íslensku heyrist í sjónvarpinu erlendis?“ segir Hlín.
Þess má geta að Epsilon hefur beðið Hlín um að koma fram aftur í þætti hjá sér og standa nú yfir samningaviðræður um að syngja á stöðinni á Valentínusardaginn, þann 14. febrúar.
„Andrúmsloftið í kringum þessi hátíðarhöld er með meiri helgibrag hér en heima, enda hefur það æxlast þannig að nýárið hefur með tímanum orðið mikilvægara en jólin í hugum Grikkja. Ég hef oft heyrt því fleygt fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að tiltölulega stutt sé síðan Grikkir breyttu yfir í gregorískt tímatal hvað jólin varðar, en þau voru áður haldin í janúar stuttu eftir nýár líkt og enn er raunin í flestum löndum rétttrúnaðarkirkjunnar,“ segir Hlín.
Hlín unir sér vel í Grikklandi og segir að jólahátíðin hjá sér sé orðin grískari með hverju árinu. „Nú er ég til dæmis komin með jólabát að grískum sið í stað þess að vera bara með jólatré. Grikkir eru mikil náttúrubörn og sjómannsþjóð eins og við Íslendingar og varla til það heimili hér sem ekki er uppfullt af bátum, bæði styttum og málverkum, en á jólunum er settur upp sérstakur bátur með jólaseríu og stundum einnig öðru jólaskrauti sem skipar hærri sess en jólatré á flestum grískum heimilum. Nýárið verður líka sífellt grískara hjá mér og hér er til dæmis skorið nýársbrauð, kallað Vasilopita, líkt og á öðrum heimilum.Brauðið er skorið niður með þeim hætti að æðri máttarvöld fá fyrstu sneiðarnar, þá koma fjölskylda og aðrir sem standa hjartanu næstir, sem hver fá sína sneið, síðan er skorin ein sneið fyrir húsið í heild sinni því til blessunar og loks sneið fyrir fátæka. Í brauðinu leynist einnig lukkupeningur sem allir viðstaddir vilja fá og skapast svipuð spenna í kringum og möndlugrautinn heima. Ég vonast nú til að vera á Íslandi á næstu jólum eftir að hafa ekki komið heim í nokkur ár, en kannski er ég orðin dálítið grísk í aðra röndina, allavega er ljóst að upplýsti jólabáturinn, nýársbrauðið, grískt jólagóðgæti og ýmislegt fleira munu fylgja mínum hátíðarhöldum það sem eftir er.“
Mánuðurinn sem er að kveðja, ásamt árinu, hefur verið Hlín ljúfur. „Desember hefur verið mjög góður mánuður. Ég hef verið að syngja jólalög víða um bæ og var beðin að syngja á nokkrum fjáröflunarviðburðum til styrktar góðum málefnum sem gengu mjög vel. Þar á meðal söng ég þó nokkur lög á tónleikum til styrktar krabbameinssjúkum börnum og foreldrum þeirra sem mörg hundruð manns sóttu, sem var mjög gleðilegt.“