Móðir sem ræddi við Kidspot hjá News.com.au segist hafa verið fitusmánuð nýlega er hún fór í bílalúgu ásamt börnum sínum. Móðirin segir að síðustu vikur hafi verið erfiðar, mikið í gangi og því var hún orðin nokkuð þreytt. Hún leggur það ekki í vana sinn að panta skyndibita en síðastliðið föstudagskvöld var klukkan orðin 7 þegar hún sótti son sinn á íþróttaæfingu og ákvað hún þá að fara í bílalúgu til að kaupa kvöldmatinn.
„Við vorum öll virkilega örmagna og glorsoltin og það var ekki séns að ég væri að fara heim að elda. Svo ég pantaði barnamáltíðir fyrir börnin mín þrjú og svo bætti ég við ís í eftirrétt til að dekra við þau því þau höfðu verið svo þæg alla vikuna. Ég pantaði einnig hamborgaramáltíð fyrir sjálfa mig,“ segir móðirin.
Þegar móðirin var búin að panta matinn heyrði hún afgreiðslustúlkuna sem tók pöntunina tala við kollega sína. Afgreiðslustúlkan gerði sér líklega ekki grein fyrir því að það var ennþá kveikt á míkrafóninum hennar. „Ég trúi því ekki hversu margir foreldrar gefa börnunum sínum þetta drasl,“ segist móðirin hafa heyrt afgreiðslustúlkuna segja. „Ég þori að veðja að þau eru öll feit líka,“ á stúlkan svo að hafa sagt í kjölfarið.
Móðirin segist hafa litið beint í baksýnisspegilinn til að athuga hvort börnin sín hefðu heyrt það sem stúlkan sagði. „Sem betur fer voru þau öll upptekin í einhverjum leik sem var í aftursætinu og voru því ekki að fylgjast með,“ segir hún.
Þá segir móðirin að sér hafi verið létt þegar hún gerði sér grein fyrir því að hún var sú eina sem heyrði þetta. Skömmu síðar fór hún þó að hugsa nánar um þessi ummæli afgreiðslustúlkunnar og þá varð hún nokkuð reið. „Eftir því sem bíllinn fyrir framan mig færðist nær lúgunni varð ég reiðari því ég vissi að fljótlega myndi ég sjá manneskjuna sem sagði þetta,“ segir hún.
„Ég vissi að ég ætti ekki að hugsa um hvaða skoðun ókunnug og ung manneskja hefði á mér og mínu uppeldi en það sem hún sagði var svo harkalegt. Raunveruleikinn er sá að ég veit að ég hugsa um börnin mín og heilsuna þeirra, að við borðum sjaldan svona mat og að enginn í fjölskyldunni okkar glímir við heilsufarsvandamál eða er í ofþyngd.“
Móðirin segir þá frá því þegar hún kom að lúgunni og sá stelpuna sem sagði þetta. „Hún horfði á mig og brosti saklausasta brosi veraldar,“ segir hún.
„Hún spurði mig svo hvernig dagurinn minn var og sagði hver upphæðin mín væri sem ég þyrfti að borga, eins og hún hefði aldrei sagt þessa hræðilegu hluti aðeins mínútu áður. Þegar ég var næstum því orðin sannfærð að ummælin hennar hafi verið um eitthvað annað fólk eða að ég hefði misskilið hana þá sá ég hana líta í aftursætið á öll börnin mín sem sátu þar, eins og hún væri að athuga hvort kenning hennar væri rétt að þau væru feit.“
Á þessum tímapunkti var móðirin komin með tár í augun. „Ég sagði ekkert því ég vissi að ef ég myndi gera það færi ég að gráta,“ segir hún. „Það var ekki möguleiki á að þessi unglingur, sem hafði engan rétt á að segja svona ljóta hluti við mig, myndi sjá mig þannig. Hún lét mér líða eins og ég væri að eitra fyrir börnunum mínum, að framtíðarheilsan þeirra væri nú runnin út í sandinn því þau fengu smá franskar.“
Móðirin segir undir lokin að henni finnist kjánalegt að þetta hafi haft svona mikil áhrif á sig. „Þetta var bara ekki eitthvað sem ég þurfti í lokin á erfiðri viku og þetta hefði auðvitað ekki átt að gerast,“ segir hún.
„Eftir að við fengum máltíðirnar okkar keyrði ég nokkrar húsalengjur og fór í almenningsgarð þar sem við settumst öll við borð og borðuðum matinn okkar. Á meðan ég rétt nartaði í matinn minn, því mér leið svo illa eftir þetta allt saman, gleyptu krakkarnir sinn mat í sig án þess að hafa neinar áhyggjur. Þau eyddu svo næsta hálftímanum í að leika sér á leikvelli, algjörlega grunlaus um allt sem hafði átt sér stað, sem betur fer.“