fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Segir RÚV mismuna Flokki fólksins – „Við erum með jafnstóran þingflokk og Samfylkingin“

Fókus
Þriðjudaginn 22. nóvember 2022 12:01

Inga Sæland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Inga Sæland segist þekkja fátækt af eigin raun og þaðan komi ástríðan fyrir því að berjast fyrir þá sem minna mega sín. Hún er nýjasti gesturinn í nýjasta Podcastþætti Sölva Tryggvasonar.

„Ég er verkamannsins dóttir og hef engan pólitískan bakgrunn. Ég þekki fátækt af eigin raun, þar sem ég ólst upp á fátæku heimili á Ólafsfirði. Ég get ekki sætt mig við það að við leyfum stórum hópi fólks að búa við sára fátækt í okkar ríka samfélagi. Það svíður sérstaklega að börn þurfi að alast upp við mikla fátækt á Íslandi. Ég brenn fyrir það að útrýma sárri fátækt á Íslandi. Það er stór hópur á Íslandi sem er langt undir því sem við höfum komið okkur saman um að sé eðlilegt framfærsluviðmið. Mér finnst eins og við ættum öll að geta sameinast um að hætta að skattleggja fólk undir 350 þúsund krónum. Eins skil ég ekki af hverju við skerðum bætur hjá eldra fólki og öryrkjum sem vilja og geta unnið að einhverju leyti. Við munum auðvitað aldrei getað komið í veg fyrir að einhverjir misnoti almannatryggingakerfið, en það er ekki eðlilegt að nokkrir svindlarar eyðileggi fyrir fólki í sárri neyð,“ segir hún.

Segir stjórnmálamenn breytast eftir kosningar

Inga segir stjórnmálamenn oft alls ekki hafa nógu sterk prinsipp og mjög oft gjörbreytist fólk strax að loknum kosningum.

„Það er sorglegt að sjá hverja silkihúfuna á fætur annarri koma fram fyrir kosningar og lofa öllu fögru, en standa svo ekki við eitt né neitt eftir kosningar. Það er ömurlegt að horfa upp á það. Auðvitað þarf maður að gera málamiðlanir í samsteypustjórnum, en fólk verður að setja línuna einhvers staðar. Það tók mig tíma að fatta sumt af þeim popúlisma sem á sér stað hjá Alþingismönnum. Eitt af því eru ákveðin upphlaup og hálfgerðar leiksýningar til að komast að í fjölmiðlum,“ segir Inga, sem er að láta kanna hvers vegna aðgengi Flokks Fólksins að fjölmiðlum sé svo lítið.

„Við erum með jafnstóran þingflokk og Samfylkingin, en fáum ekki nema brot af tímanum sem þau fá í þáttum og fréttum á RÚV til dæmis. Við erum nánast ofan í kjallara þegar tekið er saman athygli sem flokkarnir fá í fjölmiðlum. Það var bara í kringum Klaustursmálið sem við lyftumst upp og fengum athygli. En það virðist bara eiga sér stað ef það er eitthvað mjög neikvætt sem er í gangi. Við erum að láta taka saman tölur um það fyrir okkur sem sýna hvernig aðgengi okkar að RÚV er ekki í neinu samhengi við fylgið. Þessar tölur verða vonandi klárar fyrir jól. En það er augljóst misræmi á milli þess hvernig fjölmiðlar fjalla um stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.“

Passar sig á fjölmiðlum

Hún talar í þættinum um það hvernig hún áttaði sig á því eftir að hún byrjaði í stjórnmálum að hún yrði að passa sig, til þess að enda ekki sem neikvæðar fyrirsagnir í fjölmiðlum.

„Það er auðvitað hundleiðinlegt að þurfa alltaf að vera á varðbergi, en ég lærði það fljótt að ef maður leyfir sér of mikið að vera maður sjálfur er líklegt að það sé tekið úr samhengi. Jafnvel eitthvað grín, sem endar svo sem einhver flennistór fyrirsögn úr öllu samhengi. Þannig upplifði ég það fyrst þegar ég fór í stjórnmálin. Núna er ég farin að passa mig, þannig að pólitískir andstæðingar fái ekki tækifæri til að ráðast á mann fyrir eitthvað sem ekkert var. En þegar ég er að vinna að málefnum sem eru ástríða hjá mér, þá segi ég nákvæmlega það sem mér finnst og hvernig mér líður,“ segir Inga, sem segist brenna fyrir ákveðna hluti.

Inga ræðir í þættinum um ástríðuna fyrir að berjast gegn fátækt og fyrir þá sem minna mega sín.

„Ég er með risastórt hjarta og mér líður mjög illa ef öðrum líður illa og tek það inn á mig. Sérstaklega börn og dýr og þeir sem minna mega sín, þá fer ég bara að skæla. Ég held að það komi að einhverju leyti upp frá þeim sorgum sem ég hef gengið í gegnum og ég verð bara meir þegar ég tala um þessa hluti. Ég missti bróður minn og besta vin þegar hann var bara ungur. Hann og annar ungur maður drukknuðu undan Siglunesinu. Í síðasta skiptið sem ég hitti hann hélt ég á yngsta stráknum mínum og hann bað mig um að skýra hann í höfuðið á sér, en þá var búið að ákveða nafnið á honum og ég var eitthvað að fíflast í honum, en svo var hann bara farinn. Svo skömmu síðar hrapaði mágur minn í fjallgöngu og lét lífið og svo missti ég tengdason minn frá litlu barni og dóttur. Eftir þetta get ég eiginlega ekki einu sinni farið í jarðarfarir. En þessir atburðir eru líklega hluti af því að ég vil berjast fyrir þá sem minna mega sín og glíma við erfiðleika. Ég held að það sé líka mikilvægt að koma vel fram við alla sem á vegi manns verða. Maður veit aldrei hvenær maður er að sjá einhvern í síðasta sinn,“ segir hún.

Ömurlegt að horfa á brottvísunina á fatlaða manninum

Inga talar í þættinum um nýlegt mál, þar sem fötluðum manni var vísað úr landi.

„Auðvitað verðum við að hafa reglur og það er stundum sorglegt á hverjum þær bitna. En maður verður bara svo sorgmæddur þegar maður sér svona lagað. Í þessu tilviki var öll hans mannlega reisn var tekin af honum og honum bara hent eins og hveitipoka. Það er ekkert tillit tekið til þess að maðurinn er fatlaður. Við eigum alltaf þann möguleika að grípa inn í mál af þessu tagi af mannúðarástæðum. Ég myndi helst vilja að við gætum tekið á móti öllum og hugsa með hryllingi til aðstæðnanna sem margt fólk um allan heim þarf að búa við. Auðvitað verðum við alltaf að hafa einhverjar reglur, en við hljótum að geta lagað verkferlanna í þessum málum. Þegar ég heimsótti Sameinuðu Þjóðirnar í New York fann ég að allir báru virðingu fyrir Íslandi af því að við værum að leggja mikið af mörkum miðað við höfðatölu. Við eigum að vera stolt af því og gera allt sem við getum til að horft verði á okkur sem fyrirmyndarland í þessum efnum,“ segir hún.

Þáttinn með Ingu og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki