Svartur á leik, ein svakalegasta spennumynd Íslandssögunnar, fer aftur í almennar sýningar á morgun 7. október í Smárabíó í tilefni af tíu ár eru liðin frá frumsýningu hennar og nú hefur Óskar Þór Axelsson leikstjóri tilkynnt það að Svartur á leik verður að þríleik – tvær nýjar myndir, sama teymið og gerði fyrri myndina, Óskar mun sjá um leikstjórn og handrit ásamt Stefáni Mána, framleiðslufyrirtækin Filmus og Zik Zak, innlend dreifing Sena og alþjóðleg dreifing Scanbox.
Framleiðendur eru áfram Andri Sveinsson, Arnar Knútsson, Heiðar Guðjónsson og Þórir Snær Sigurjónsson.
Fyrri myndin, sem er hugsuð sem „prequel“ eða undanfari gömlu myndarinnar, verður frumsýnd árið 2024 og sú seinni 2025 verður framhald og gerist í nútímanum.
Aðalkarakterinn verður áfram undirheimar Íslands. Fyrri myndin hefst þegar fyrsti dómur fyrir eiturlyfjasölu féll árið 1975 og inn í níunda áratuginn, tímabil pönksins þegar harðari efni byrjuðu að flæða til landsins. Seinni myndin verður birtingarmynd undirheima dagsins í dag þar sem magn eiturlyfja í umferð hefur margfaldast frá þeim tíma sem Svartur á leik fjallar um og erlendar glæpaklíkur hafa rutt sér til rúms og glæpastarfssemi orðin skipulögð, aftökur og harðari glæpir.