Maisie er 25 ára og er þekktust fyrir leik sinn í geysivinsælu HBO-þáttunum Game of Thrones. Hún lék í þáttunum frá því að hún var 12 ára gömul og allt þar til hún varð 22 ára.
Í hlaðvarpsþættinum The Diary of a CEO sagðist hún ekki vilja fara út í of mikil smáatriði – systkina og stórfjölskyldunnar vegna – en sagði þetta tengjast föður hennar.
„Sem ung stúlka, fyrir átta ára aldur, átti ég í frekar hryllilegu sambandi við föður minn […] En þetta heltók stóran hluta æsku minnar. Ég hef átt erfitt með svefn síðan á man eftir mér,“ sagði hún.
Leikkonan sagði að hún hafi gengið í gegnum „mörg áföll“ en á þeim tíma hafi hún ekki áttað sig á því að „það sem var að gerast var rangt.“
Hún sagði að í kjölfarið hafi hún glímt við geðræn vandamál og hafi það tekið hana langan tíma að sætta sig við fortíðina.
„Ef ég á að vera hreinskilin, þá hef ég hugsað mikið um þetta. Það er ekki mér að kenna að þessir slæmu hlutir gerðust þegar ég var barn,“ sagði hún.
„Ég hélt að það væri það. Ég hélt að það væri eitthvað verulega að mér.“
Þáttinn má hlusta á í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Þú getur einnig horft á hann hér að neðan.