Mæðradagurinn er í dag og DV hvetur því alla til að dekra við mömmu sína í dag.
Það gerist ekki klassískara. Þetta er einn annasamasti dagurinn hjá blómabúðum landsins og fátt sem bæði gleður og lífgar upp á heimilið jafn mikið og lifandi blóm.
Flestum mömmum, og raunar öllum, finnst gott að fá sér smá sætindi. Í dag er tilvalið í að kaupa góðan konfektkassa handa mömmu.
Bakaríin eru að selja Köku ársins 2022 sem inniheldur silkimjúka pistasíu-mousse með créme brulée miðju, hindberjagel og stökkan pistasíu botn. Eina svoleiðis handa mömmu!
Í dag er síðan lokadagur sölu bakaría á sérstökum brjóstasnúð, sem seldur hefur verið fyrir mæðradaginn undanfarin ár, en allur ágóði af sölu þeirra rennur óskertur til styrktarfélagsins Göngum saman sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.
Bjóða mömmu í gönguferð um útivistarsvæði í grenndinni og taka með nesti. Passa að gönguferðin sé einmitt nógu auðveld/erfið þannig að hún passi fullkomlega fyrir mömmu. Það er gott að taka með sér heitt kakó og samlokur, niðurskorna ávexti og ekki má gleyma vatninu.
Ef mamman í þínu lífi deilir með þér heimili er tilvalið að koma með morgunmatinn til hennar í rúmið.
Þegar börn eru á heimilinu er upplagt að aðrir fullorðnir á heimilinu aðstoði krakkana við að koma mömmu á óvart með einhverju gúmmelaði þegar hún vaknar. Eins og alltaf þá er það hugurinn sem gildir. Það er allt í lagi þó eggin brenni við. Samt auðvitað betra ef þau gera það ekki…
Fátt er jafn hressandi og að fara í sund, líka þó maður fari bara í heita pottinn. Ef þú vilt bjóða mömmu í sund er tilvalið að prófa nýja sundlaug sem þú hefur heyrt góða hluti um.
Síðan fjölgar sífellt þeim náttúrulaugum sem hægt er að fara í. Sky Lagoon í Kópavogi er ein þeirra nýjustu sem er manngerð og nýtur mikilla vinsælda. Í maímánuði er þar boðið upp á sérstakan pakka sem heitir Mömmumót, með vísan í stefnumót, þar sem meðal annars er innifalið einkaklefi með sturtu, líkamskremi og handklæði, drykkur og sælkeraplatti. Athugið að panta þarf tíma fyrirfram.
Við mælum líka sérstaklega með Guðlaugu á Akranesi. Þar skiptið þið mamma um föt í útiklefa og horfið yfir sjóinn úr lauginni sem er á þremur hæðum. Þau sem vilja geta síðan tekið smá sundsprett í sjónum, eða bara spókað sig í fjörunni. Fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu er þetta fínn helgarbíltúr, og hægt að borða á Akranesi í leiðinni.
Gefðu mömmu bók. Þetta getur verið æsispennandi skáldsaga eða einhver létt og rómantísk.
Þá hefur skáldsagan Vanessa mín myrka eftir Kate Elizabeth Russel hefur vakið verðskuldaða athygli síðan hún kom út. Þetta er saga um ást og ofbeldi, og er með vísanir í menningarsöguna allt frá Lolitu Vladimirs Nabokov til klámvæðingar kvenna í dægurmenningu 21. aldarinnar. Mömmur vita að þetta er bók sem skiptir máli.
Hér mælum við líka sérstaklega með fræðibókinni Alls konar íslenska eftir Eirík Rögnvaldsson sem er nýkomin út og fjallar um íslenskt mál á 21. öldinni. Eiríkur er fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands og hann er talsmaður þess að tungumálið okkar þurfi að fá að þróast, eins og það hefur alltaf gert.
Skrifaðu ljóð til mömmu þinnar eða lítið bréf þar sem þú útskýrir af hverju hún er besta mamma í öllum heiminum. Gætir jafnvel gefið henni smá tissjú með. Ekki ofhugsa þetta. Flest erum við ekki nógu dugleg að hrósa mömmu okkar, því miður. Þær eru allar að gera sitt besta.