fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Arna missti móður sína úr krabbameini og föður sinn úr sjálfsvígi – „Hans fjandi var hins vegar ósýnilegur“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. september 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arna Pálsdóttir situr í stjórn Píeta-samtakanna, en hún missti föður sinn úr sjálfsvígi. Móðir hennar sat áður í sæti hennar í samtökunum sem sinna mikilvægu forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og veita aðstandendum stuðning, og tók Arna við sæti hennar eftir að móðir hennar lét lífið úr krabbameini.

Hún ritar áhrifamikla grein sem birtist hjá Vísi í dag í tilefni af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga sem er á föstudaginn, þann 10. september.

„Ég missti mömmu mína í vor. Hún lést úr krabbameini,“ skrifar Arna. Hún segir að móðir hennar hafi barist hetjulega við sjúkdóminn.

„Hún tók alla slagi sem hún gat tekið, ef það var meðferð í boði þá vildi hún prófa. Alla daga vaknaði hún og hugsaði; ég ætla að sigra þennan fjanda. Við hlið hennar vorum við, fólkið hennar, að styðja hana. Þegar líða fór á stríðið fór að dofna yfir lífsgæðum hennar. Hún hætti að geta stundað allt það sem hún hafði ánægju af, mátturinn og orkan fóru minnkandi og líkamleg vanlíðan tók þeirra stað.“

Skömmu áður en móðir Örnu lést ræddu þær saman um framhaldið og sagðist móðir hennar þá vera tilbúin að berjast á meðan það væri von, en ef meðferðir myndi fela í sér sömu vanlíðanina og hún hafði gengið í gegnum á þeim tíma þá vildi hún frekar fá að kveðja.

„Ekki svo löngu áður en hún dó áttum við samtal um framhaldið. Hún sagði að hún myndi alltaf berjast á meðan það væri von en ef frekari meðferðir byðu henni eingöngu upp á þau lífsgæði sem hún lifði við á þeim tímapunkti þá vildi hún frekar fá að fara. Það var svo erfitt að heyra hana segja þetta en ég skildi hana. Ég skildi það að hún vildi frekar eiga stutt eftir ólifað en að lifa við þá vanlíðan sem hún lifði við á þessum tíma.“

Arna missti föður sinn árið 2001, en hann lést úr sjálfsvígi. Hann hafði lengi glímt við þunglyndi, en sá sjúkdómur sjáist ekki utan á fólki og oft berjast þeir sem við hann glíma í einrúmi.

„Hann hafði verið í stríði við sinn fjanda í langan tíma. Hans fjandi var hins vegar ósýnilegur. Baráttan var tekin á hnefanum og í einrúmi. Að lokum valdi hann frekar að fara en að lifa við þá andlegu þjáningu sem hann lifði við. Það reyndist mun erfiðara að skilja – á þeim tímapunkti.“

Arna bendir á muninn á því að láta lífið úr krabbameini annars vegar og sjálfsvígs hins vegar. Krabbamein eigi fólk auðvelt með að skilja, veita stuðning og síðan skilning þegar fólk er tilbúið kveðja. Annað gildi gjarnan um sjálfsvíg.

„Það reynist mörgum erfiðara að skilja sjálfsvíg og það er allt í lagi. Við þurfum ekki að skilja hvert og eitt sjálfsvíg, það er svo margt annað sem við getum öðlast skilning á. Við getum skilið að sjálfsvíg eru líka heilbrigðismál. Við getum skilið áhættuþætti og við getum skilið gildi forvarna. Við getum skilið að einstaklingur sem vill binda enda á líf sitt er í baráttu. Við getum skilið að þessi einstaklingur þarf aðgang að vopnum – læknismeðferðum, samstöðu og skilningi og við getum skilið að hann þarf stuðning heilbrigðiskerfisins og samfélagsins.“

Sjálfsvíg séu meðal 20 algengustu dánarorsaka í heiminum og á þeim beri enginn ábyrgð nema sá sem þau fremur. Hins vegar sé mikilvægt að vita að það er hægt að koma í veg fyrir þau með auknum forvörnum, öflugu heilbrigðiskerfi og aukinni vitund um geðheilbrigðismál

Á föstudaginn sé alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga og tilgangur hans sé að stuðla að forvörnum og minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

„Mamma sat í stjórn Píeta samtakanna en þau sinna mikilvægu forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og veita einnig aðstandendum stuðning. Mér bauðst sá heiður að taka hennar sæti í stjórn samtakanna þegar hún lést. Á skömmum tíma hef ég fengið innsýn inn í aðdáunarvert starf starfsmanna og sjálfboðaliða en mikilvægi samtakanna hafa sýnt sig með margföldum vexti síðustu ár.

Verum óhrædd við að ræða sjálfsvíg og geðheilbrigðismál.

Við erum á réttri leið en betur má ef duga skal.“

Þau sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða hugsa um að skaða sig eru minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar hér:

Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart
Fókus
Fyrir 5 dögum

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig