fbpx
Þriðjudagur 18.janúar 2022
Fókus

„Keppnin hefur alltaf verið mjög sanngjörn“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 25. ágúst 2021 12:00

Aðsend mynd/Carlos Velez

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það styttist óðum í Miss Universe Iceland fegurðarsamkeppnina. Nú stendur yfir netkosning þar sem fólk getur kosið eina stúlku til að hreppa People‘s Choice titillinn. Hvert atkvæði kostar eina evru og geta áhugasamir keypt hundrað atkvæði í einu og greitt hverri stúlku ótakmarkaðan fjölda atkvæða.

Sjá einnig: Þessar stúlkur taka þátt í Miss Universe 2021

DV fékk ábendingu um netkosninguna og gagnrýni í þá veru að stúlkur sem koma frá efnaðri fjölskyldum hafi meiri vinningslíkur þar sem greiða þarf fyrir atkvæðin. Manúela Ósk Harðardóttir, framkvæmdastjóri keppninnar, sagðist ekki hafa orðið vör við slíka gagnrýni, enda hafi fyrirkomulagið alltaf verið með þessum hætti.

„Aldrei orðið vör það og stelpurnar hafa aldrei tjáð neina óánægju þessi sex ár sem við höfum haldið þessa keppni hér á landi. Þeir sem vilja taka þátt í þessu geta gert það. Keppnin hefur alltaf verið mjög sanngjörn upp á hver sigurvegarinn er,“ segir hún.

Skjáskot/MissUniverseIceland.com

Ein evra fyrir atkvæði

„Þetta er alþjóðlegur vettvangur (e. international platform) sem allar keppnirnar nota,“ segir Manuela og útskýrir að Miss Universe Iceland er hluti af Miss Universe keppninni og þurfi að fylgja þeirra reglum.

„Þetta er ein evra á atkvæði og þetta er í raun bara aukatitill. Það er ekki verið að kaupa sér eitthvað sæti eða kórónu, ekkert þannig. Þetta er bara auka titill sem er People‘s Choice og þeir sem vilja kjósa geta það en þeir sem vilja það ekki þá er þetta alveg valfrjálst.“

Peningurinn sem safnast í gegnum netkosninguna fer til Miss Universe og hluti fer til Miss Universe Iceland.

„Við fáum smá hluta af þessu. Það er náttúrulega gífurlega kostnaðarsamt og erfitt fyrir okkur að halda keppnina, sérstaklega eins og síðast í Covid,“ segir Manuela.

Kosningin fer fram á MissUniverseIceland.com.

Styttist í keppnina

Keppnin verður haldin 29. september næstkomandi. „Síðast héldum við keppnina með 20 manna samkomubanni og það var mjög erfitt. Engir áhorfendur og við gátum ekki verið með neina auka einstaklinga sem hefðu getað tekið hana upp. Þetta var mjög flókið púsl en verður vonandi með eðlilegu sniði þetta árið,“ segir hún.

Miðar á keppnina eru til sölu á Tix.is og segir Manuela það vonandi koma í ljós á næstu dögum hvort keppninni verði sjónvarpað eða streymt.

„Það gengur alveg ótrúlega vel. Þetta er frábær hópur og þeim kemur svo vel saman. Gaman að sjá hvað eru að myndast sterk vinatengsl og þær eru að standa sig frábærlega á æfingum. Það gengur ótrúlega vel og ég er mjög spennt fyrir þessum hóp,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt