fbpx
Þriðjudagur 20.apríl 2021
Fókus

Erfitt samband mæðgina – „Ekki beint ofbeldi en þetta er mjög óheilbrigt samband“

Fókus
Sunnudaginn 7. mars 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggjur af systur sinni og syni hennar.

Kristín Tómasdóttir

Sæl, Kristín.

Systir mín á í erfiðu sambandi við son sinn. Þau rífast eins og hundur og köttur, systir mín er stöðugt að siða hann til og ég hef oft orðið vitni að því að sonur hennar er hræddur við mömmu sína. Við höfum rætt þetta í stórfjölskyldunni frá því strákurinn var bara tveggja ára en í dag er hann að verða sextán.

 Systir mín þolir ekki ef ég skipti mér af en sonur hennar er farinn að leita mikið til mín út af þessari vanlíðan. Systir mín á tvö yngri börn og hennar samband við þau er alls ekki í líkingu við þetta, þau eru reyndar bæði stelpur og eiga annan pabba sem systir mín býr með í dag.

Ég tek það fram að þetta er ekki beint ofbeldi en þetta er mjög óheilbrigt samband og mjög ögrandi og erfið samskipti. Hvað get ég gert? Til hvers getum við leitað og á ég að benda systur minni á fagaðila eða syni hennar?

Bestu kveðjur, Stóra systir

 

Ákveðið samskiptamynstur þróast

Sæl, stóra systir. Takk fyrir að leita til mín. Þessi staða er flókin því það er ekkert viðkvæmara en samband móður/ foreldris við barnið sitt. Ég leyfi mér að fullyrða að allar mömmur vilja börnunum sínum vel og þar er systir þín vafalaust engin undantekning. Aftur á móti er það þannig í öllum samskiptum að það þróast ákveðið samskiptamynstur. Þetta mynstur getur undið upp á sig og orðið að vítahring sem erfitt er að snúa upp á. Það er þó alltaf hægt, ef viljinn er fyrir hendi.

Þú nefnir að systir þín eigi son sinn með öðrum manni og að sonurinn sé hennar fyrsta barn. Þar af leiðir að sambandið milli þeirra hefur þróast í öðrum aðstæðum þar sem líðan þeirra beggja hefur verið með öðrum hætti en aðstæður og líðan er í dag. Þetta eru breytur sem hafa mikil áhrif á samband þeirra og getur skýrt hvers vegna samband systur þinnar við hin börnin er með öðrum hætti. Samband hennar við yngri börnin sýnir líka að hún kann að mynda góð tengsl og hefur burði til þess að eiga í góðum samskiptum við börnin sín. Það er mjög gott merki.

Fjölskyldur samsettar úr kerfum

Ég þreytist seint á að útskýra að fjölskyldur eru samsettar úr kerfum og fjölskyldufræðin byggja á ákveðnum kerfiskenningum sem ávallt er gott að hafa í huga þegar fjölskyldumynstur eru skoðuð. Systir þín og sonur hennar eiga sitt mæðginakerfi. Þú og systir þín eruð í systrakerfi. Samkvæmt kerfiskenningunum er mjög mikilvægt að hafa skýr mörk milli kerfa og að varlega sé stigið til jarðar þegar farið er inn í kerfi sem maður tilheyrir ekki. Þetta rímar við að þér finnst erfitt að ræða þetta við systur þína og að systir þín fer í vörn þegar þú skiptir þér af. Í þessu samhengi dettur mér einna helst í hug að þar sem sonur hennar hefur verið að leita til þín þá sé hægt að hjálpa honum að ræða þennan vanda við móður sína. Hann tilheyrir mæðginakerfinu og leyfist að koma með ábendingar sem eiga heima þar.

Og þessu tengt, fyrst þú spyrð hverjum þú átt að beina hvert þá gæti verið hjálplegt að hvetja hann til þess að biðja móður sína um að koma með sér í fjölskyldumeðferð. Gæti hann haft orð á því að samskipti þeirra séu ekki nægilega góð og að hann vilji styrkja þau? Auðvitað er hann alltaf barnið og á ekki að taka ábyrgð á að hegðun móður sinnar, en fyrst hann er að leita til þín þá væri þess virði að reyna að styrkja hann til þess að taka þessa umræðu við móður sína sjálfur.

Börnin eiga að njóta vafans

Annað sem þú getur haft til hliðsjónar í þessu máli er að reyna að styrkja böndin milli þín og systur þinnar. Reyndu að dæma hana ekki og ekki leyfa þessu að sundra ykkur. Heldur væri skynsamlegt að vinna þér inn meira traust til þess að leyfast að hjálpa henni með þetta viðkvæma mál. Góðum systraböndum leyfist ýmislegt og ef þú nálgast hana sem systir hennar af væntumþykju þá gæti verið að varnarmúrinn molni í rólegheitum. Þú segir að ekki sé um ofbeldi að ræða og það er mjög gott. En erfið samskipti geta mjög auðveldlega haft sömu afleiðingar og andlegt ofbeldi, sérstaklega þegar börn verða hrædd eins og þú nefnir. Þetta er nokkuð sem mikilvægt er að hafa á bak við eyrað, sérstaklega þegar börn eru annars vegar.

Ef minnsti grunur kviknar um ofbeldi gagnvart börnum þá eru það alltaf börnin sem eiga að fá að njóta vafans. Ég mæli þess vegna alltaf með því að fólk leiti til barnaverndar til þess að meta hvort atvik eða aðstæður séu þess eðlis að þau beri að tilkynna. Ekki hika við það, barnavernd er til þess að aðstoða fjölskyldur við að vernda börn og fólk á ekki að víla það fyrir sér að nýta sér þá þjónustu. Ég veit að þessir punktar eru ekki að fara að breyta öllu á einni nóttu en vonandi gefur þetta þér skýrari hugmyndir að því hvernig þú getur hjálpað þeim mæðginum að líða betur. Gangi þér sem allra best.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

OnlyFans umræðan ennþá í fullum gangi: Manuela Ósk fær að heyra það fyrir druslusmánun – Katrín Edda biðst afsökunar

OnlyFans umræðan ennþá í fullum gangi: Manuela Ósk fær að heyra það fyrir druslusmánun – Katrín Edda biðst afsökunar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Frændinn komst að framhjáhaldinu og hjásvæfan er ólétt – „Borgin okkar er lítil“

Frændinn komst að framhjáhaldinu og hjásvæfan er ólétt – „Borgin okkar er lítil“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta óttast karlar og konur mest í kynlífi

Þetta óttast karlar og konur mest í kynlífi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Kynlífið er hræðilegt því kærasti minn er klámfíkill“

„Kynlífið er hræðilegt því kærasti minn er klámfíkill“