fbpx
Mánudagur 12.apríl 2021
Fókus

„Ég var í svo miklu sjokki“ – Óprúttnir aðilar buðust til að selja kynferðislegar myndir án hennar samþykkis

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 4. mars 2021 16:00

Nicole Peterkin - sjáskot BBC

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var í svo miklu sjokki. Ég var hrædd um hvað fólk þætti um mig.“

Þetta sagði 20 ára skosk afgreiðslukona, Nicole Peterkin, eftir að hún komst að því að myndir sem hún deildi af sjálfri sér á Instagram hefðu verið notaðar af óprúttnum aðilum á netinu. BBC fjallar um málið.

Nicole segir að vinur sinn hafi sent sér skilaboð á Instagram og spurt út í „aðganginn“. Fyrst hélt hún að um mistök væru að ræða, en komst svo að því að myndir af henni væru á aðgangi sem hún kannaðist ekkert við. Umræddur aðgangur auglýsti kynlífsvinnu og fleira.

„Ég var hrædd um að fjölskyldan mín myndi komast að þessu, eða fólk sem ég var með í skóla, eða vinnufélagar,“ sagði Nicole.

Um var að ræða myndir sem hún hafði sett á sinn eigin Instagram-aðgang, sem var lokaður almenningi. Gervi-aðgangurinn þóttist vera hún og leiddi á vafasama vefsíðu. Þar bauðst gervi-aðgangurinn til þess að selja kynferðislegar myndir og persónulegar upplýsingar af Nicole gegn gjaldi. Sannleikurinn var sá að kynferðislegu myndirnar sem stóðu til boða af Nicole voru ekki til í alvörunni.

„Ég hef ekkert á móti fólki sem selur kynferðislegar myndir af sér. Ég vil bara ekki að fólk haldi að ég geri það.“

Umræddur gervi-aðgangur var ekki búinn til á neinum hefðbundnum samfélagsmiðli, heldur á vefsíðuhönnunarforriti. Þar var síða búin til sem líktist miðlinum OnlyFans, en þar getur fólk selt notendum myndir af sjálfum sér. Þessi gervi-aðgangur var síðan auglýstur af öðrum gervi-aðgang á Instagram, sem þóttist einnig vera Nicole.

Instagram-aðganginum hefur nú verið eytt og Nicole segist vissulega ánægð með það. Þó er hin síðan til og hún segist enn fá skilaboð frá fólki vegna hennar.

„Mér líður vel með að aðgangurinn sé farinn, en ég fæ enn skilaboð frá ókunnugu fólki. Það segist vera tilbúið að senda mér pening ef ég sendi því myndir og myndbönd.“

„Þetta hefur slæm áhrif á mig. Það þarf að skoða þetta og gera eitthvað í þessu. Það er fullt af fólki sem er að gera gervi-aðganga og þykjast vera ungar stelpur og nota myndirnar þeirra.“ Segir Nicole sem krefst aðgerða frá stóru samfélagsmiðlunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt