Hin geysivinsæla þýska þungarokkhljómsveit Rammstein hefur klárað upptökur af nýrri plötu. Síðasta plata hljómsveitarinnar, sem hét einfaldlega „Rammstein“, kom út árið 2019 en platan á undan henni kom út árið 2009. Því kemur það aðdáendum hljómsveitarinnar verulega á óvart hversu stutt er á milli platna.
Flake Lorenz, hljómborðsleikari sveitarinnar, sagði í viðtali að þar sem hljómsveitin hafi ekki getað spilað á tónleikum vegna Covid-19, þá hafi þeir „óvart“ gert aðra plötu.
„Það að við gátum ekki spilað á tónleikum jók sköpunargleði okkar. Við höfuð meiri tíma til að finna upp nýja hluti og það var minni truflun. Þar af leiðandi bjuggum við til plötu sem við ætluðum ekki að búa til,“ sagði hann í viðtali við motor.de.
Ekki er neitt meira vitað um þessa plötu, hvorki hversu mörgum lögum má búast við né hvenær hún kemur út. Því verða málmhausar að bíða rólegir þangað til platan kemur út en hljómsveitin er ekki þekkt fyrir að láta vita af gerð nýrra platna. Þetta er því mjög óvenjuleg tilkynning frá Flake.