fbpx
Mánudagur 12.apríl 2021
Fókus

Ógleymanlegasta stundin í lífi Óttars Guðmundssonar – Ég hef aldrei aftur náð þessari alsælu

Erla Hlynsdóttir
Föstudaginn 26. febrúar 2021 07:00

Óttar Guðmundsson, geðlæknir, í Fossvogskirkjugarði þar sem foreldrar hans hvíla. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óttar Guðmundsson geðlæknir er ófeiminn við að viðra umdeildar skoðanir sínar en skilur ekkert í því hvað hann er umdeildur. 

Óttar er í forsíðuviðtali í nýjasta helgarblaði DV þar sem hann segir venjulega heila ekki ráða við allt áreitið sem fólk í nútímasamfélagi býr við. Hann ræðir starf sitt með transteyminu á Landspítalanum, sjálfsvígshugsanir, guð og áfengið sem varð að fara.

Hér má lesa brot úr viðtalinu.

Að afloknu læknaprófi frá Háskóla Íslands 1975 fór hann til Svíþjóðar þar sem hann ætlaði að vera í sex mánuði sem urðu að tæpum níu árum. „Ég menntaði mig í nokkrum sérgreinum; taugasjúkdómafræði og lyflæknisfræði og fleiru. Doktorsritgerðin mín var í lyflæknisfræði en ég fékk enga stöðu sem ég var sáttur við á Íslandi. Ég fór að vinna á heilsugæslunni í Keflavík en ákvað síðan að venda mínu kvæði í kross árið 1985 og fór að vinna hjá SÁÁ.

Þetta var árið sem ég hætti að drekka en ég og áfengi áttum aldrei samleið. Ég var edrú í 12 ár og var mjög virkur í edrúsamfélaginu, skrifaði bók um alkóhólisma, vann við alkóhóllækningar og hélt fjölmarga fyrirlestra um alkóhólisma.

Ég byrjaði síðan að drekka aftur og drakk í nokkur ár. Síðan hætti ég og hef ekki drukkið í fimmtán ár. Samanlagt hef ég verið edrú í 27 ár en það á víst ekki að telja þannig. Jóhanna konan mín hætti líka að drekka með mér í seinna skiptið svo að þetta er sameiginleg ákvörðun og sameiginlegur lífsstíll sem bætir lífsgæðin mikið.

Öll mín saga sýnir mér að ég á ekki að snerta alkóhól. Þegar ég fór að drekka aftur tókst mér að telja mér trú um að þetta hefði aldrei verið neitt vandamál. Ég sagði að þetta hefði allt verið einhver misskilningur og líklega hefði ég bara verið að drekka vitlausar tegundir af áfengi. Alkóhólistar eru rosalega snjallir að telja sér trú um allt mögulegt til að réttlæta áframhaldandi drykkju. Ég er mjög sáttur við að vera edrú í dag og hafa komið mér út úr píslarvættis- og fórnarlambshlutverki alkóhólistans.

Þegar ég hætti árið 1985 að drekka lagði það grunninn að nýju lífi. Ég var að vinna hjá SÁÁ, nýorðinn edrú og byrjaði að hlaupa og var allt í einu orðinn mikill hlaupari. Það var eiginleiki sem ég vissi ekki að ég ætti til og ég endaði með því að hlaupa sex maraþonhlaup.“

Enn þann dag í dag er hann stoltastur af sínu fyrsta maraþoni. „Ógleymanlegasta stundin í lífi mínu var þegar ég kom í mark í New York maraþoninu 1988. Mér fannst það ótrúlega merkilegt andartak. Sama hvað ég hef notað af efnum eða gert annað á lífsleiðinni þá hef ég aldrei náð þeirri alsælu sem fylgdi því að hlaupa í mark í maraþonhlaupi í fyrsta sinn.“

Fór að leiði pabba síns með fyrstu bókina

Ritfærni er annar hæfileiki sem hann uppgötvaði. „Ég fór að skrifa í blöð og vissi ekki heldur að ég gæti það. Þetta þróaðist yfir í að ég fór að skrifa bækur. Þessi lífsstílsbreyting sem varð nokkrum árum fyrir fertugsafmælið mitt gjörbreytti öllu fyrir mig. Ég eignaðist nýtt líf eftir árin hjá SÁÁ og ákvað eftir það að læra geðlæknisfræði. Lífið fer alltaf í hringi og ég var aftur kominn til upphafsins á geðdeildina. Ég er ævarandi þakklátur SÁÁ og sérstaklega Þórarni Tyrfingssyni fyrir leiðsögnina til betra lífs. Við gátum reyndar ekki unnið saman en það er önnur saga.“

Fyrsta bókin hans var Íslenska kynlífsbókin sem kom út árið 1990 og vakti mikla athygli. „Það var ólýsanleg tilfinning að gefa út bók í fyrsta sinn. Ég fór með fyrsta prufueintakið að leiði föður míns til að sýna honum bókina. Ég grét við leiðið og var stoltur af að geta sýnt honum það sem ég var að gera, þótt hann væri löngu farinn.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta helgarblaði DV.

Einfalt er að gerast áskrifandi að prent- og/eða vefútgáfu blaðsins með því að smella hér: dv.is/skraning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

31 árs og hefur ekki áhuga á konum nema þær séu eldri en 60 ára – „Ég elska lyktina“

31 árs og hefur ekki áhuga á konum nema þær séu eldri en 60 ára – „Ég elska lyktina“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þórunn segir ættleiðinguna vera besta ákvörðun lífs síns – Sá dóttur sína og hugsaði „Þarna er hún komin“

Þórunn segir ættleiðinguna vera besta ákvörðun lífs síns – Sá dóttur sína og hugsaði „Þarna er hún komin“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Helena um kvöldið sem eiginmaður hennar dó – „Þannig byrjaði martröðin“

Helena um kvöldið sem eiginmaður hennar dó – „Þannig byrjaði martröðin“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jarðarförin mín verður sýnd um alla Evrópu

Jarðarförin mín verður sýnd um alla Evrópu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir synina hafa fengið morðhótanir – „Það voru 57 þúsund kvartanir gegn mér“

Segir synina hafa fengið morðhótanir – „Það voru 57 þúsund kvartanir gegn mér“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Klara Sif hefur grætt 15 milljónir á því að selja nektarmyndir

Klara Sif hefur grætt 15 milljónir á því að selja nektarmyndir