Þriðjudagur 09.mars 2021
Fókus

Maðurinn minn sýnir aldrei frumkvæði

Fókus
Sunnudaginn 21. febrúar 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem finnst manninn sinn skorta frumkvæði.

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín.

Ég þoli ekki hvað maðurinn minn er laus við allt frumkvæði. Hann er yfirleitt til í að taka þátt í öllu sem mér dettur í hug eða því sem ég hef frumkvæðið að en hann hefur það ekki í sér að skipuleggja neitt eða gera neitt óumbeðinn. Er hægt að kenna fólki frumkvæði eða er það bara eitthvað sem við erum annað hvort með eða ekki? Bestu kveðjur, Fröken frumkvæði

Greina vandann

Sæl, Fröken frumkvæði. Takk fyrir fyrirspurnina. Þetta er ekki óþekkt vandamál en þessi umræða kemur oft upp milli fólks sem leitar til mín í parameðferð. Aftur á móti kann ég ekki neitt svar við þessu heldur verður þessi vandi að skoðast með tilliti til annarra þátta í sambandinu.

Mér finnst spurning þín hljóma eins og það sé alltaf allt í góðu á milli ykkar og að það séu engin önnur vandamál í sambandinu nema þetta með frumkvæðið. Ég leyfi mér aðeins að efast um það því frumkvæði getur tengst svo mörgu. Á þetta við um frumkvæði almennt, t.d. í tengslum við barnauppeldi og vinnu eða snýr þetta bara að ykkar ástarsambandi? Það gæti reynst þér hjálplegt að greina þarna á milli til þess að átta þig betur á með hvað þið þurfið í raun og veru að vinna.

Mögulegt orkuleysi

Ef hann er almennt frumkvæðislaus og hann gengst við því og vill laga það þá er ég handviss um að ykkur mun takast það með litlum frumkvæðis-æfingum. Setjið ykkur tímalaus markmið, t.d. að hann sjái alfarið um að fara út með ruslið en að hann stjórni því hvenær það er gert. Eins getið þið sammælst um eitthvað sem ykkur langar til þess að gera í mánuðinum og að hann þurfi að hafa frumkvæði að því að panta, plana eða undirbúa það ef það á að verða að veruleika.

Ef frumkvæðið er mjög almennt og jafnvel í bland við orkuleysi þá getur verið ástæða til þess að skoða það og greina hvort um andlega erfiðleika sé að ræða. Slíkt getur verið viðkvæmt og jafnvel erfitt að orða, en ef þú telur að maðurinn þinn þurfi aðstoð á því sviði þá gæti verið gott að leggja frumkvæðisumræðuna á hilluna og tala heldur um depurð eða andleg veikindi sem þú viljir gjarnan að hann/þið fáið aðstoð með.

Efla með hrósi

Aftur á móti, ef frumkvæðisleysið tengist fyrst og fremst ykkar ástarsambandi þá þarf að skoða aðeins nánar hvað veldur og hvernig brjóta má upp þann vana sem hefur skapast. Getur verið að dýnamíkin í sambandinu hafi þróast þannig að þú leiðir og hann fylgi? Getur verið að hann hafi alist upp við ráðríki þar sem ekki var pláss fyrir frumkvæði? Hvað segir maðurinn þinn þegar þú kallar eftir meira frumkvæði?

Það er svo algengt að fólk vilji láta „laga“ maka sinn þannig að sambandið verði betra, en mín reynsla er sú að það þurfi að „laga“ orkuna í sambandinu svo allir verði glaðir. Þar ert þú jafn voldug og hann. Ef þú sýnir mikið frumkvæði þá er líklegra að hann taki þig til fyrirmyndar. Í þessu samhengi minni ég á að jákvæð styrking virkar alltaf betur en neikvæð styrking. Í því felst að hrós fyrir það sem þó er vel gert, mun hafa meiri áhrif en skammir fyrir það sem ekki er gert.

Reyndu að finna hið minnsta frumkvæði í gjörðum hans og bentu honum á að þetta sé akkúrat það sem þú ert að vonast eftir að sjá oftar í hans fari.

Kannski áhugaleysi

Eins leiðinlega og það hljómar þá getur frumkvæðisleysi líka bent til áhugaleysis. Ef fólk virkilega hefur áhuga á því að t.d. gleðja maka sinn þá finnur hið frumkvæðislausasta fólk leið til þess. Þetta er sár umræða en nauðsynleg ef hún á við rök að styðjast. Þetta kallar á heiðarlegt samtal milli ykkar sem er alltaf betra en þögnin og að lesa í eyðurnar. Lokasvar mitt að þessu sinni er því: Þennan vanda þarf að greina betur en hrós, hvatning og umræða ættu að vera góðir lyklar á þeirri vegferð. Góða ferð.

Í þessu samhengi minni ég á að jákvæð styrking virkar alltaf betur en neikvæð styrking.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Óttar geðlæknir: „Mér leiðast þessi píslarvottaviðtöl“

Óttar geðlæknir: „Mér leiðast þessi píslarvottaviðtöl“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sakamál: Sjónvarpsþátturinn varð innblástur að morði

Sakamál: Sjónvarpsþátturinn varð innblástur að morði
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Rödd sem hefur aldrei heyrst áður“ í sögu American Idol

„Rödd sem hefur aldrei heyrst áður“ í sögu American Idol
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona getur þú séð ef einhver er að ljúga að þér

Svona getur þú séð ef einhver er að ljúga að þér
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vill að konur gangi um með byssur – Þetta er ástæðan

Vill að konur gangi um með byssur – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vilhjálmur tekur ummæli sín til baka og skýtur á Bjarna Ben

Vilhjálmur tekur ummæli sín til baka og skýtur á Bjarna Ben