fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Viðtal við Rannveigu Borg: „Þetta er erfitt og þessu fylgir vanlíðan. Það er helvíti að missa stjórn á sjálfum sér“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 30. október 2021 12:21

Rannveig Borg Sigurðardóttir. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég lít á kynlífsfíknir eins og allar aðrar fíknir. Einfaldasta skilgreiningin á fíkn er neysla eða hegðun sem er orðin stjórnlaus og hefur mjög neikvæð áhrif líf viðkomandi ,“ segir Rannveig Borg Sigurðardóttir sem var að senda frá sér bókina Fíkn.

Þetta er fyrsta bók hennar og hefur sagan þegar vakið athygli. Rannveig þykir slá nýjan og djarfan tón þar sem hún skrifar um persónur sem glíma við ýmsar fíknir.

Hún er búsett í Sviss, þar sem hún starfar sem lögfræðingur. Undanfarin misseri hefur hún meðfram vinnu lagt stund á meistaranám í fíknifræðum við King‘s College í London. Sjálf hefur Rannveig persónulega reynslu af átröskun sem hún skilgreinir sem sína fíkn, fíkn sem hún hefur þó verið frjáls frá í um 25 ár.

Þó kynlífsfíkn sé fyrirferðarmikil í bókinni segir Rannveig að hún sé ekki aðalatriðið. „Það var ekki markmið mitt að skrifa djúsí kynlífssögu. Kynlífið er drifkraftur persónanna og skiptir þar af leiðandi miklu máli fyrir söguna en sagan er ekki skrifuð utan um kynlíf. Þeirra stjórnleysi birtist meðal annars í kynlífinu en grunnur sögunnar er mun dýpri,“ segir hún.

Enginn að tala um djúsí kynlíf

Þegar eru fyrstu umsagnir um bókina byrjaðar að birtast, meðal annars á Storytel. „Mér hefur þótt vænt um að lesa þessar fyrstu umsagnir. Þar er enginn að tala um djúsí kynlíf heldur er fólk að tala um skilning á fíkn og innsæi í aðstæður fólks sem glímir við hana. Ég er mjög þakklát fyrir það. Ég hef heyrt frá aðstandendum fíkla að þeir tengja vel við söguna. Það er fólkið sem mér hefur fundist lifa sig mest inn í bókina og það gefur mér mikið,“ segir Rannveig.

Hún slær á létta strengi og segist örugglega valda fólki vonbrigðum með því sem hún segir næst: „Ég hef ekki persónulega reynslu af kynlífsfíkn.“ Næstu orð eru þrungin meiri alvöru. „Ég á auðvelt með að ímynda mér og skilja út frá minni reynslu af annarri fíkn. Mér finnst ég skilja allar fíknir, bæði út frá fræðilegu sjónarhorni í gegn um námið mitt en líka út frá reynslu minni af átröskun. Ég þekki vel stjórnleysi og ég veit hvað það er erfitt að ná aftur tökum á lífi sínu.“

Rannveig segir að í bókinni hafi henni langað að sýna hvað birtingarmyndir fíknar geta verið fjölbreytilegar og hvernig fíknin kemur aftan að fólki. „Þessi bók er ekki uppflettirit eða fræðirit. Ég heldur ekki að predika yfir fólki eða dæma það. Ég vona að þetta skíni í gegn. Ég vildi birta þessa sýn eins og þegar fólk opnar dyr inn í líf fólks og tekur myndir sem sýna raunveruleikann. Svona er þetta.“

Rannveig Borg Sigurðardóttir. Mynd/Ásta Kristjáns

Varaði yfirmanninn við

Það eru Sögur útgáfa sem gefa bókina út og naut hún leiðsagnar ritstjórans Styrmis Guðlaugssonar sem hún segir hafa verið afar dýrmætt.

„Þessi bók kom til mín í áföngum. Ég hafði lengi vitað að mig langaði að skrifa og hafði oft hugsað með mér að ég ætlaði að skrifa bók þegar ég væri „orðin stór.“ Ég vildi byrja á því að lifa og síðan skrifa. Allt sem tengist fíkn hefur verið mér mjög hugleikið og þegar ég byrjaði að skrifa komu persónurnar til mín.

Það eru mörg ár síðan ég byrjaði að skrifa bókina. Í COVID fékk ég síðan tíma til að klára hana enda var venjulegt líf sett á bið. Ég horfði varla á eina einustu Netflix-seríu. Þegar ég hefði getað verið að horfa á Netflix var ég í staðinn að skrifa nú eða læra.

Þar sem ég hef aldrei áður skrifað bók sendi  ég óörugg fyrstu drög á frænku mína sem er fyrrverandi blaðamaður.   Hún hvatti mig áfram og gaf mér góð ráð og lét smá kynlíf ekki fara fyrir brjóstið á sér.“

Rannveig lét annan gamlan draum rætast um svipað leyti og hún byrjaði að skrifa bókina, og skráði sig í nám í fíknifræðum. „Markmiðið með náminu var í sjálfu sér ekki annað en að fræðast sjálf. En þegar ég er að taka kúrsa um fíkn á sama tíma og ég skrifa bókina þá kemur inn í söguna enn meiri fíkn en átti upphaflega að vera. Þetta er að hluta ástarsaga um ungt fólk, og hvað á ungt og ástfangið fólk að gera annað en að stunda kynlíf? Ég veit það ekki. Mér finnst að það eigi að stunda fullt af því. Það er því sannarlega kynlíf í bókinni. En þetta er líka átakanleg saga. Ég var svo heppin að fá frábæran ritstjóra sem gat leiðbeint mér og hvatt mig áfram. Hann gaf mér líka mikið frelsi. Ég var hrædd við að vera dæmd og ég hefði alveg getað farið í baklás. Það er áskorun að fyrsta bókin innihaldi kynlíf og óra. En Styrmir var alltaf hvetjandi og það skipti mig miklu.“

Rannveig er búsett í öðru landi þar sem hún er í góðri vinnu sem lögfræðingur. Þrátt fyrir að bókin væri að koma út á Íslandi vildi hún vara yfirmanninn sinn við, sagði honum að þetta væri örlítið villt bók. Hún segir að yfirmaðurinn hafi hins vegar bara hlegið góðlátlega og sagt að hann hefði orðið hissa ef hún myndi skrifa bók sem væri eitthvað annað en villt. „Ég tók því bara sem hrósi,“ segir hún.

Fyrstu merki átröskunar um átta ára aldurinn

Átröskun er ekki hluti af skáldsögunni Fíkn en Rannveig telur að hún eigi eftir að skrifa um þau mál síðar. „Mér finnst enn erfitt að tala um átröskunina. Þetta er svo persónulegt og fylgir  mikil skömm. Auðvitað á ég fyrir löngu að vera búin að komast yfir skömmina, 25 árum síðar, en það er erfitt að festast í stjórnleysi og ráða ekki við sjálfa sig. Ég var mjög ung, um átta eða níu ára, þegar fyrstu merkin gerðu vart við sig. Það var síðan skömmu fyrir fermingu sem þetta varð vandamál. Ég byrjaði þá að þyngjast skyndilega og það greip um sig panikk hjá mér. Ég vildi finna skyndilausn til að grenna mig, fór að svelta mig og þróaði með mér uppköst. Þetta var vítahringur sem varð stjórnlaus. Það eru ekki allir sammála mér um að átröskun sé fíkn en því meira sem ég læri í fíknifræðunum er þetta alveg augljóst fyrir mig. Ég upplifði stjórnleysi, ég réði ekki við þetta og reyndi endurtekið að hætta, þetta hafði neikvæð áhrif á mig og mitt líf. Hvernig getur þetta verið annað en fíkn? “ segir hún.

Rannveig játar hreinskilnislega að það sé fyrst núna sem hún þori að tala opinberlega um átröskunina. „Ég var svo hrædd um að þetta myndi bíta mig aftur. Ég lifi frekar heilbrigðu lífi og reyni að hafa jafnvægi í kring um mig. Ég er mjög varkár, ég hætti til dæmis að drekka. Áfengisneyslan var ekki orðin vandamál en mér fannst ég vera farin að dansa á línunni og að einn daginn gæti þetta orðið vandamál.

Ég var lengi hrædd um að átröskunin myndi bíta mig aftur t.d. ef ég yrði ólétt. Ég varð síðan ólétt, og á 11 ára gamlan son, en átröskun lét sem betur fer ekki á sér kræla,“ segir hún og er svo þakklát fyrir að átröskunin hafi ekki gert vart við sig aftur. „Mig langar aldrei að upplifa þetta stjórnleysi aftur. Mig langar að fræða fólk þannig að það ríki meira umburðarlyndi fyrir fíknisjúkdómum. Þetta er erfitt og þessu fylgir vanlíðan. Það er helvíti að missa stjórn á sjálfum sér. Það vill enginn. Það velur enginn að missa tökin. Fólk sem glímir við fíknisjúkdóm á ekki að þurfa að upplifa þessa skömm. Mitt markmið er að skömmin sé ekki lengur til staðar. “

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi