Bandarísku leikkonunni Blake Lively er annt um einkalíf barnanna sinna og lætur netverja, sem heldur úti vinsælli Instagram-síðu, heyra það.
Blake er gift leikaranum Ryan Reynolds og eiga þau saman börnin James, Inez og Betty. Hún gagnrýnir harðlega mynd sem Instagram-síðan Hollywood Star Kids birti af henni, Ryan og börnunum þeirra.
„Þetta er svo truflað. Ég hef persónulega deilt því með þér að þessir menn hrella og áreita börnin mín. Og þú ert enn að birta myndirnar. Þú sagðist ætla að hætta. Þú lofaðir mér því persónulega. […] Þú ert að notfæra þér mjög ung börn. Vinsamlegast eyddu þessu. Sumum foreldrum finnst þetta í lagi. EKKI okkur,“ skrifaði Blake við myndina, sem nú hefur verið eytt. E! News greinir frá.
Eftir að færslunni var eytt þakkaði Blake netverjum fyrir stuðninginn. „Ég vil þakka öllum sem hættu að fylgja þessum síðum sem notfæra sér börn. ÞIÐ skiptið ÖLLU máli. Takk fyrir heilindi ykkar.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn að Blake fordæmir þá starfsemi að paparazzi ljósmyndarar taki myndir af börnum frægra. Hún er ekki heldur sú eina. Árið 2014 voru leikarahjónin Kristen Bell og Dax Shepard í forystu fyrir „No Kids Policy“ sem varð síðar að lögum í Kaliforníu og kemur í veg fyrir að paparazzi ljósmyndarar geta tekið myndir af börnum frægra einstaklinga. Fjöldi fjölmiðla tóku einnig upp stefnuna að hvorki kaupa né birta myndir af börnum frægra án leyfis í kjölfarið.
Í sumar bað leikkonan Sophie Turner fólk um að hætta að reyna að taka myndir af dóttur hennar og tónlistarmannsins Joe Jonas.
„Hún er dóttir mín. Hún bað ekki um þetta líf, að vera ljósmynduð,“ sagði hún. „Það er fokking krípí að fullorðnir menn séu að taka myndir af barni án leyfis. Mér býður við þessu.“