fbpx
Laugardagur 04.desember 2021
Fókus

Sakamál: Fjölskyldufaðir myrtur eftir morgungöngu í friðsælu úthverfi – Óvæntir snúningar og ótrúleg svik

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 16. október 2021 20:00

Jennifer og James Faith virtust vera hamingjusöm hjón. Mynd: Youtube-skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. október haustið 2020 varð óvæntur og óhugnanlegur atburður í friðsælu úthverfi í Oak Cliff, bæjar sem er í nágrenni Dallas í Texas. Hjónin Jennifer og James Faith voru á morgungöngu með hundinn sinn, nokkuð sem þau gerðu oft, er að þeim sveif maður og skaut James til bana, alls sjö skotum. Þar af hæfðu þrjú James í höfuðið og eitt fór í kynfæri hans.

Jennifer hringdi í neyðarlínuna en James var látinn er lögregla og sjúkralið komu á vettvang. Erfitt var að gefa greinargóða lýsingu á morðingjanum því hann var með andlitsgrímu eins og tíðkast hefur að bera í Covid-faraldrinum, sem var í hámarki um þetta leyfi. En hann ók burtu á svörtum Nissan pallbíl. Hins vegar tókst hvorki vitnum né öryggismyndavélum á svæðinu að nema skráningarnúmer bílsins og því var úr vöndu að ráða að rekja hver ökumaðurinn var enda bíltegundin ekki óalgeng í Texas.

Harmi slegin ekkjan, Jennifer, sagði í viðtölum.  „Ég vona að sá sem gerði þetta muni einhvern daginn átta sig á alvarleika gjörða sinna og hvað hann tók frá mér og dóttur minni,“ sagði Jennifer en hún og James áttu eina dóttur. Hjónaband þeirra virtist

hamingjusamt en raunar átti annað eftir að koma á daginn.

Jennifer sagði ennfremur: „Hann var hryggjarstykkið í þessari fjölskyldu. Þetta er hræðilegt.“

Snjallsíminn bjó yfir leyndarmálum

Meðal þeirra gagna sem lögreglan rannsakaði var snjallsími Jennifer, aðallega til að útiloka hlutdeild hennar í glæpnum. En skoðun á spjallskilaboðum leiddi hið gagnstæða í ljós, eða að minnsta kosti það að hjónaband James og Jennifer var ekki eins gott og það leit út fyrir að vera.

Jennifer hafði átt í tilfinningalegu sambandi við gamlan kærasta, Darrin Lopez, sem bjó í Tennessee. Þau höfðu átt í ástarsambandi áður en Jennifer kynntist James en endir var bundinn á það er Darrin þurfti að fara í herþjónustu erlendis.

En núna var Darrin hættur í hernum og hann og Jennifer voru farin að leggja drög að endurfundum. Darrin var með áætlun um hvernig þau gætu tekið saman aftur, ef marka mátti textasamskipti hans og Jennifer.

Lögregla var fljót að komast að því að Darrin átti svartan Nissan pallbíl, nákvæmlega eins og þann sem morðingi James hafði ekið í burtu á frá vettvangi. Athugun á bílnum, símagögnum Darrins og gögnum um greiðslukortanotkun hans leiddi í ljós með óyggjandi hætti að hann hafði tekið til Oak Cliff í Texas frá Tennesse um það leyti sem James var myrtur og dvalist í bænum yfir nótt og fram í morguninn. Var hann handtekinn, grunaður um morðið.

Darrin var ákærður fyrir morðið en Jennifer fékk á sig ákæru fyrir að trufla framgang réttvísinnar. Þeirri ákæru var hins vegar breytt núna í haust eftir að nýjar og sláandi upplýsingar komu fram.

Málið miklu óvenjulegra en það leit út fyrir að vera

Það sem hér hefur komið fram þykir flestum yfirleitt vera töluverð tíðindi – og óhugnanleg. En þegar upp komst um athæfi Jennifer á netinu í aðdraganda morðsins varð málið fyrst óvenjulegt.

Í ljós kom að hún hafði villt á sér heimildir og verið í samskiptum við Darrin í gegnum tvo falska tölvupóstreikninga. Í gegnum annan þeirra þóttist hún vera James, eiginmaður hennar, sem lýsti því fjálglega hvernig hann misþyrmdi Jennifer, líkamlega, andlega og kynferðislega.

Ekki var nokkur fótur fyrir þessum fáránlegu fullyrðingum og James var ekki þekktur fyrir ofbeldi. En Darrin froðufelldi yfir þessar „mannvonsku“ James og var staðráðinn í að frelsa Jennifer úr klóm hans.

Jennifer bætti um betur og skrifaði líka til Darrin í nafni vinkonu sinnar. Var það mat vinkonunnar að eina leiðin til að bjarga Jennifer frá James væri að myrða hann.

Þessar upplýsingar kunna að skýra heiftina og hatrið sem lesa má úr skotárásinni, þar sem James var bæði skotinn í höfuðið og í kynfæri.

Eftir að þessi tölvugögn voru afhjúpuð var ákærunni gegn Jennifer breytt og hún ákærð fyrir að skipuleggja morðið á eiginmanni sínum.

Réttarhöld yfir Darrin og Jennifer hefjast snemma á næsta ári. Þau hafa bæði lýst yfir sakleysi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Indíana setur af stað heilsuáskorun á aðventunni – „Ekki bíða með að huga að heilsunni fram í janúar“

Indíana setur af stað heilsuáskorun á aðventunni – „Ekki bíða með að huga að heilsunni fram í janúar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gefur manninum sínum kynlíf í jólagjöf

Gefur manninum sínum kynlíf í jólagjöf
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hugleikur birti skopmynd með ádeilu á meinta viðkvæmni sem misbauð Facebook – Sjáðu myndina sem Facebook bannaði!

Hugleikur birti skopmynd með ádeilu á meinta viðkvæmni sem misbauð Facebook – Sjáðu myndina sem Facebook bannaði!
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýir heimildarþættir BBC kynda undir kenningum um einelti Meghan Markle í garð starfsfólks

Nýir heimildarþættir BBC kynda undir kenningum um einelti Meghan Markle í garð starfsfólks