fbpx
Þriðjudagur 19.október 2021
Fókus

Edda Sif opinberaði leyndarmál föður síns í beinni útsendingu – „Verðurðu alveg trylltur eða?“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 10. október 2021 10:45

Skjáskot úr þættinum - Stöð 2

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stöð 2 fagnaði 35 ára afmæli sínu í gær og af því tilefni var blásið til hátíðardagskrár þar sem farið var yfir liðinn veg með völdum gestum. Á meðal þeirra sem komu og ræddu málin í tilefni afmælisins voru sjónvarpsfeðginin Edda Sif Pálsdóttir og Páll Magnússon.

Páll var sá sem flutti fyrsta fréttatíma Stöðvar 2 fyrir 35 árum síðan en brot úr fréttatímanum var sýnt áður en Edda Andrésdóttir, fréttaþulur Stöðvar 2, tók viðtal við Pál og Eddu. „Hver var þetta?“ spurði Páll þegar búið var að sýna brotið úr fréttatímanum. „Hann hefur breyst pínulítið,“ segir Edda og Edda Sif tekur undir. „En svo er litli bróðir minn alveg eins og hann var þarna svo þetta er gaman að sjá.“

„Þetta tókst þótt ótrúlegt mætti virðast. Ég held að við höfum verið mánuði á undan áætlun til að ná þessu fyrir leiðtogafundinn. Það hefði verið svolítið hallærislegt að segja: Já ég var með í því að búa til nýja fréttastofu og við byrjuðum daginn eftir leiðtogafundinn í Reykjavík.“

Edda spyr Pál þá hvers vegna hann sagði skilið við öruggt starf hjá Ríkisútvarpinu á sínum tíma til að fara yfir á Stöð 2. „Ég fór úr þessu öryggi þar einfaldlega vegna þess að ég hugsaði sem svo að ég myndi alltaf sjá eftir því ef ég gripi ekki tækifærið að búa til fréttastofu eins og ég vildi hafa hana, fá að ráða fréttamönnunum sjálfur til dæmis, ekki eitthvað útvarpsráð og svona,“ segir Páll.

„Ég reyndi að fá þig, þú vildir ekki koma,“ segir hann svo við Eddu. „Ég meina, ég kom á endanum, 1990,“ segir Edda þá og þau hlægja saman.

„Það var ekkert meira töff en þetta“

Edda spyr þá Pál þá hvort hann hafi hvatt dóttur sína til að feta í sín spor í sjónvarpinu. „Þvert á móti,“ segir Páll við því.

„Ég hvatti hana til að gera þetta ekki og reyndi að fá hana til að gera alls konar hluti aðra. Ég meðal annars sendi hanna til vinkonu minnar sem rak, og rekur, lögfræðistofu. Hún kom græn í framan eftir þá kynningu og sagðist aldrei ætla að gera þetta. En þekkjandi Eddu, þá hefði ég átt að, ef ég hefði hvatt hana til að fara í sjónvarp – þá hefði hún ekki gert það.“

Edda segir þá að Stöð 2 hafi alið Eddu Sif að miklu leyti upp þar sem bæði pabbi hennar og mamma unnu þar á meðan hún ólst upp. „Edda var bara alltaf með ykkur í vinnunni,“ segir Edda og Edda Sif útskýrir hvernig það var að alast upp í þessu umhverfi.

„Ég sat undir fréttasettinu þegar hann var að lesa fréttir, lék mér inni í stúdíóum og settum. Mamma vann líka í Afa. Það var ekkert meira töff en þetta, það voru náttúrulega ekki tölvur, ekki símar og sjónvarpsfólk var miklu stærri stjörnur en það er í dag.“

„Þetta var alveg hryllilegt“

Eftir að búið var að ræða uppeldið var farið yfir í að fjalla um mistök Páls og önnur vandræðaleg atvik. Til að mynda var sýnt frá því þegar Páll opnaði fréttatíma hlægjandi en fyrsta fréttin var um hryðjuverk. „Þetta var hrylllegt,“ segir Páll. „Rosalega er þetta ósmekklegt,“ segir þá Edda Sif og Páll útskýrir þá hvers vegna þetta gerðist.

„Það var biluð niðurtalningaklukkan í fréttaborðinu og það var hjá okkur tæknistjóri sem hljóp í skarðið og var að telja niður fyrir mig. Hann gerði það með svona tilþrifum og beint í kjölfarið kemur inngangur á hryðjuverk. Þetta var alveg hryllilegt. Mér finnst bara ósmekklegt að sýna þetta.“

Páll er þá spurður hvort hann vilji ekki fara aftur í fréttirnar. „Ég hef víða farið og margt séð á þessum 100 árum tæpum. Skemmtilegasta starfið sem ég hef unnið er náttúrulega bara það að vera óbreyttur fréttamaður. Það er langskemmtilegasta starf sem hægt er að komast í,“ segir Páll. „En ég er kannski aðeins búinn að missa af lestinni með að gerast óbreyttur fréttamaður á þessum stað í lífinu.“

„Þetta var nú skemmtileg saga“

Að lokum ákveður Edda að gefa Eddu Sif lokaorðið. „Eitthvað vandræðalegt um hann þá?“ segir Edda Sif. „Já þetta gengur allt út á það greinilega,“ segir Páll þá. „Ertu ekki örugglega hættur á þingi?“ spyr Edda þá og Páll svarar játandi.

„Eitthvað svona sem hefur aldrei verið sagt kannski, verðurðu alveg trylltur eða?“ spyr Edda Sif þá. „Já ég verð það þá bara á eftir, ekki hérna,“ segir Páll við því.

Edda Sif byrjar þá að ljóstra upp leyndarmálinu. „Það sem mig langar eiginlega að segja frá, það er svo vandræðalegt. Kryddsíldin, ég horfði alltaf á Kryddsíldina,“ segir hún en ein áramótin kom pabbi hennar ekki beint heim eftir útsendinguna.

„Svo kemur pabbi ekkert heim og þetta er náttúrulega stór dagur. Svo bara mörgum mörgum klukkutímum síðar kemur hann heim. Þá er hann náttúrulega búinn að drekka fyrir framan alla, allir að fá sér í útsendingunni, tekinn á leiðinni heim og missti bílprófið í ár.“

„Þetta var nú skemmtileg saga,“ segir Páll og slær létt á hendur dóttur sinnar. „Sorry, sorry,“ segir hún þá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vilja láta banna hann á YouTube – „Þessi áhrifavaldur er að drepa sig hægt fyrir áhorf“

Vilja láta banna hann á YouTube – „Þessi áhrifavaldur er að drepa sig hægt fyrir áhorf“
Fókus
Í gær

Misheppnaðar fegrunaraðgerðir áhrifavalda

Misheppnaðar fegrunaraðgerðir áhrifavalda
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þórdís Elva lætur heimsþekktan fjölmiðil heyra það – „Þið eruð hluti af fokking vandamálinu“

Þórdís Elva lætur heimsþekktan fjölmiðil heyra það – „Þið eruð hluti af fokking vandamálinu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vandræðalega spurningin sem lesbískt par fær nokkrum sinnum í viku

Vandræðalega spurningin sem lesbískt par fær nokkrum sinnum í viku