Móðir ein segist vera hreinskilin við börnin sín um hvenær hún stundar kynlíf. Rithöfundurinn Jamie Beth Cohen greinir frá þessu í pistli á HuffPost.
Jamie á tvö börn sem eru átta ára og ellefu ára. Hún lætur þau vita í hvert skipti sem hún og eiginmaður hennar stunda kynlíf og segir að kynlífið sé mun betra fyrir vikið.
Áður fyrr vildi hún helst stunda kynlíf þegar börnin voru ekki heima en eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á þá hefur það verið nær ómögulegt.
„Eftir nokkurra mánaða sjálfskipaða sóttkví þá leið mér eins og ég væri að stelast þegar ég svaf hjá eiginmanni mínum, og ekki á góðan hátt […] Ég ákvað að segja börnunum nákvæmlega hvenær við værum að stunda kynlíf,“ segir Jamie í pistlinum á HuffPost.
Hún segir að hún hafi ekki getað haldið því leyndu lengur þar sem henni leið eins og hún væri að „ljúga“ að börnunum. Hún sagði við börnin sín: „Ef ég loka dyrunum og kveiki á viftunni á ganginum, þá vil ég að þið látið okkur í friði. Við erum að stunda kynlíf.“
Jamie segir að fyrstu viðbrögð barnanna hafi verið að flissa og fara hjá sér. En þau hafi látið hjónin í friði.
Í kjölfarið gátu þau stundað kynlíf og hafa þau orðið nánari fyrir vikið. Að sögn Jamie hefur það verið „guðsgjöf“ að tengjast eiginmanni sínum á ný á þennan hátt á þessu erfiða ári. Fyrst þau geta ekki farið út að borða og á stefnumót, þá ætla þau að „stunda gott kynlíf.“
Jamie er meðvituð um að sumum foreldrum þykir þetta skrýtið og of mikil hreinskilni en hún telur þetta borga sig þegar til lengri tíma er litið.
„Ég vona að þegar kemur að því að þau byrja að hugsa um kynlíf eða stunda kynlíf, þá muni þau ekki líta á það sem skömm eða leyndarmál eins og ég gerði, og þau nálgist það þar af leiðandi öðruvísi. Og vonandi munu þau kunna að meta hversu vænt foreldrum þeirra þykir um hvort annað.“