Föstudagur 05.mars 2021
Fókus

Gift íslensk kona fann nýjan mann á netinu – Brotnaði niður þegar sannleikurinn kom í ljós

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 12. janúar 2021 12:35

Mynd: Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk kona, sem vildi ekki koma fram undir nafni, ræddi við Önnu Marsibil Clausen í Ástarsögum á Rás 1 um ástarsamband sitt sem fór fram á internetinu. Konan var þá í hjónabandi sem var ekki upp á sitt besta en samkvæmt konunni vantaði alla rómantík í sambandið.

Konan lagði það ekki í vana sinn að samþykkja vinabeiðnir frá ókunnugum á samfélagsmiðlum en það gerði hún þó í eitt skipti. Hún byrjaði að tala við þennan ókunnuga mann, sem sagðist vera frá Belgíu. „Hann virkaði ósköp venjulegur en eiginlega strax eftir samþykki á þessari vinabeiðni fór hann fram á að við myndum spjalla í gegnum Whatsapp. Þannig fór þetta að þróast,“ segir konan.

Þau spjölluðu saman um alls konar hluti og sendu myndir af sér til hvors annars. Maðurinn sagðist hafa misst allt í viðskiptum en að hann langaði að stofna lítið fyrirtæki, varahlutaverslun fyrir bíla. Konan bauðst því til að aðstoða þennan mann og sendi honum pening. „Ég var bara grunlaus, ég var gjörsamlega græn í gegn,“ segir hún.

„Það hafði enginn talað svona við mig áður“

Samskipti íslensku konunnar og belgíska mannsins þróast fljótlega yfir í að vera rómantísk. „Hann segir mér að tilfinningarnar til mín séu þess eðlis að hann vilji að þetta gangi lengra. Hann sagði í raun allt sem konur vilja heyra. Mjög rómantískt og fallegt allt saman.“

Þau töluðu um framtíðarplön en konan segist hafa verið ástfangin af manninum. „Það hafði enginn talað svona við mig áður,“ segir hún.

„Mér leið illa því mér var farið að þykja vænt um þennan mann“

Konan sendi manninum áfram pening til að hjálpa honum. Eitt sinn sagðist hann vera á leiðinni til Afríku að selja bíla. Konan byrjaði að hafa áhyggjur þegar hann hafði ekki samband í langan tíma. Þegar hann loksins hafði samband sagðist hann hafa orðið fyrir árás.

Maðurinn sagði að öllu hafi verið stolið af honum, peningunum, skilríkjunum og símanum. „Mér leið illa því mér var farið að þykja vænt um þennan mann,“ segir konan sem borgaði síðan fyrir aðgerð sem maðurinn sagðist þurfa eftir árásina.

Skömmu síðar segist maðurinn þurfa að fara í aðra aðgerð sem kostar mikið en þá er konan búin með allt spariféð sitt. Hún ákveður því að taka lán upp á hálfa milljón í gegnum skyndilánaþjónustu. Hún þurfti að fara í bankann til að millifæra upphæðina fyrir aðgerðinni inn á reikninginn hjá lækni mannsins. Þegar maðurinn þurfti síðan meiri peninga ákvað konan að veðsetja bílinn sinn til að hjálpa honum.

„Nafnið finnst ekki á netinu“

Þrátt fyrir að mikið hafi verið um peningabeiðnir var rómantíkin ekki farin. Þau vildu hittast og ákváðu meira að segja að flytja saman til Svíþjóðar. Þá sagði maðurinn að nú þyrfti hún að skilja við eiginmann sinn. Konan átti erfitt með það en ákvað loks að tilkynna eiginmanninum að hún vildi skilnað.

„Hann tók ekki vel í þetta. Hann brotnaði ekki eða neitt svoleiðis en ég sá alveg hvernig honum leið,“ segir konan en eiginmaður hennar ákveður þá að skoða hver þessi maður er. „Ég segi honum nafnið á honum og það er farið í netrannsóknir. Nafnið finnst ekki á netinu.“

„Ég einhvern veginn spáði aldrei í það“

Þegar hingað er komið hafði eiginmaðurinn samband við lögregluna sem boðaði konuna í skýrslutöku. „Fyrst vildi ég ekki trúa. Þetta gæti ekki verið svona,“ segir konan sem brotnaði niður þegar hún áttaði sig á hvað hafði verið í gangi. „Mér fannst bara tilveran hrynja. Ég var búin að mála mig út í horn gagnvart manninum mínum og hans fólki.“

Lögreglan tjáði konunni að maðurinn væri í raun og veru bara skipulögð glæpastarfsemi. „Ég vissi að það væri verið að ná peningum af kannski sérstaklega konum. En ég einhvern veginn spáði aldrei í það þegar ég lendi í þessu sjálf.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við konuna í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Páskastjarnan með nýtt lag um „mömmudreng“ – Þetta er ástæðan á bakvið lagið

Páskastjarnan með nýtt lag um „mömmudreng“ – Þetta er ástæðan á bakvið lagið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslendingar bíða með öndina í hálsinum eftir mögulegu gosi – „Ertu með óróapúls eða ertu bara glaður að sjá mig?“

Íslendingar bíða með öndina í hálsinum eftir mögulegu gosi – „Ertu með óróapúls eða ertu bara glaður að sjá mig?“