fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Einstök frásögn Lilju af ofsakvíða, sterkri réttlætiskennd og hvernig hún fann draumstaðinn

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 4. apríl 2021 09:00

Lilja Nótt leikur eitt aðalhlutverkið í nýrri spennuþáttaröð í Sjónvarpi Símans. Mynd: Valgarð Gísla

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkona Lilja Nótt Þórarinsdóttir fer með eitt aðalhlutverkið í nýrri spennuþáttaröð, Systrabönd, sem  er komin í Sjónvarpi Símans. Hún hefur aldrei gefist upp á leiklistinni þrátt fyrir að hafa glímt við kjaftamaskínur og kvíðaköst. Hún lærði að skapa sína eigin velgengni og vera óhrædd við að velja verkefnin. 

Lilja Nótt er alin upp á bænum Eyvík í Grímsnesi þar sem náttúran mótaði lífið og gengið var í öll störf. Foreldrar Lilju tóku við búi móðurforeldra hennar og bjuggu fyrstu fimm árin með Lilju og litla bróður hennar Magnús í einu herbergi hjá ömmu og afa Lilju á meðan pabbi hennar byggði framtíðarheimili fjölskyldunnar. Hún er náin foreldrum sínum sem búa enn í Grímsnesinu en móðir hennar sækir vinnu í Reykjavík og dvelur gjarnan hjá Lilju og Ólafi Gauti Guðmundssyni eiginmanni hennar og dætrum þeirra Birtu og Emmu, þegar hún ílengist í bænum. Hafandi alist upp hjá stórfjölskyldunni finnst Lilju notalegt að hafa fólkið sitt hjá sér.

Lilja talar opinskátt og án allrar tilgerðar sem gerir það auðvelt að tengjast því sem hún er að segja. Ekki á þann hátt sem þaulreyndir leikarar gera þó að hún sé það vissulega líka – heldur eins og heiðarlegt fólk sem finnst vænt um söguna sína gerir. Þegar hún er spurð út í æskuna slaknar á andlitinu og hún ferðast í huganum heim í sveitina.
Lilja var sjálfstæður krakki með óþrjótandi áhuga á sögum og forvitin að eðlisfari. Hún átti það til að heimfæra það sem hún las upp á sjálfa sig eins og mörg börn gera þegar þau eru að máta sig við heiminn.
Verksmiðjustilling
„Ég man eftir kvíðamómentum þar sem ég var tólf ára og las skrítna hluti og tengdi þá við mig. Ég las til dæmis um holdsveiki og þá fór ég að finna fyrir einkennum sem ég las um. Ég sagði mömmu þá að ég væri örugglega með holdsveiki sem hún sagði mér auðvitað að væri útilokað. Svo las ég stelpnafræðarann og las þar um samkynhneigð. Þá var ég viss um að ég væri lesbía. Þegar mamma spurði hvort ég væri hrifin af stelpum sagði ég nei og þannig gekk þetta. Ég var sumsé hvorki holdsveik né lesbía en þá var ég viss um að ég væri með aids. Mamma tók þessu öllu af mikilli ró og ég bar fullkomið traust til hennar og ræddi þessar hugmyndir mínar alltaf við hana.“
Lífið í sveitinni var gott en skólinn sem Lilja var í náði bara upp í 8. bekk. Hún flutti því í Mosfellsbæ 13 ára gömul og bjó hjá föðurbróður sínum og fjölskyldu hans á meðan hún kláraði grunnskólann. Eftir hann fór hún í Menntaskólann á Laugarvatni þar sem stemmingin var allt önnur og andrúmsloftið átti illa við hana.
„Verksmiðjustillingin mín er mjög óheppileg fyrir mig sem manneskju af því að ég geng alltaf út frá því að allir séu vinir mínir. Þetta hefur verið dáldið erfitt því lífið virkar ekki þannig og því fylgir oft mikil höfnun og gerði það sérstaklega framan af. Ég lokaðist eftir nokkra stóra skelli og hef meðvitað verið að vinna í því aftur að verða opnari af því að mér finnst þetta fallegur eiginleiki. Að ganga út frá því að öllum líki við mig og að mér líki vel við alla þangað til annað kemur í ljós.“
Lilja fór því í Kvennaskólann í Reykjavík sem átti ákaflega vel við hana enda með blómlegt leikfélag sem hún tók virkan þátt í. Lilja hafði ákveðið ung að verða leikkona eftir að hafa kynnst leiklistinni í gegnum afa sinn sem starfaði sem sviðsstjóri í Þjóðleikhúsinu og kynnti töfra leikhússins fyrir henni.
Keppniskúla
„Tólf, þrettán ára man ég eftir að hafa hugsað, ef ég er leikari get ég gert allt. Ég vissi strax þá að 9 til 5 vinna hentar mér ekki nema í mjög takmarkaðan tíma. Ég fæ fljótt leið á rútínu, það hefur líklega verið ein mesta áskorunin fyrir mig sem foreldri. Að halda rútínunni.“
Það þarf hugrekki til þess að læra leiklist þar sem það eru minni líkur en meiri á að hægt sé að lifa af listinni einni saman. Í dag tekur Listaháskólinn inn tíu leikaranema í tvö ár í röð og engan það þriðja. Þegar Lilja sótti um komust aðeins átta nemar inn en yfir 300 sóttu um.   Leikaranemar hafa einnig löngum verið f lokkaðir sem einir dýrustu nemar landsins ásamt tannlæknanemum svo það hlýtur að vera mikil pressa á að fólk „meiki“ það?
„Ef maður hugsaði þannig myndi enginn læra leiklist. Eftir þessi erfiðu inntökupróf og prufur þá fékk ég alveg að heyra það og við öll í bekknum – að ef við gætum hugsað okkur að gera eitthvað annað þá ættum við að ganga út og gera það. Þarna fannst okkur við vera guðs útvöldu börn,“ segir hún og hlær.
Lilja segist aldrei hafa hugsað út í það að hún myndi ekki geta lifað á listinni. „Ég hef alltaf verið mikil keppniskúla og er mjög metnaðargjörn að eðlisfari. Skólinn er líka verndaður staður og hópurinn varð eins og systkinahópur. Fólk reif sig upp á gátt og það komu alls konar tilfinningar. Þá kom kvíðinn aftur og ég fékk fullbúna felmtursröskun.“
Var hætt að sofa
Felmtursröskun, öðru nafni ofsakvíði, einkennist af endurteknum kvíðaköstum með miklum líkamlegum einkennum, útskýrir Lilja. „Ég svaf ekki í marga mánuði og horaðist niður. Í sex ár leið mér hrikalega illa.“
Hvað varstu hrædd um að myndi gerast?
„Bara allt mögulegt. Ranghugmyndirnar eru svo margar. Ég var greind með áráttu- og þráhyggjukvíða þar sem það festist bara einhver hugmynd. Í dag er það þessi hug-mynd en á morgun er það eitthvað annað. Þetta gerðist hjá mér í öðrum bekk í leiklistarskólanum og gerist í raun af því að ég gekk of nærri mér og var hætt að sofa nóg. Taugakerfið var orðið eins og það lægi utan á líkamanum og þolið eftir því.“
Hugmyndirnar eru oft mjög langsóttar, óhugnanlegar og gripnar úr því sem einstaklingurinn hefur lesið eða séð. Það er einnig algengt að þráhyggjan snúist einmitt um það sem viðkomandi óttast mest að geti komið fyrir, svo sem að skaða barn sitt eða sjálfan sig. „Ég sá bíómynd um mannætur eða hræðilega frétt um barnaníðing og þá tengdi ég það við hvað ef? og festist í því. Í skólanum vorum við að vinna með „the magic if“ sem kallar á að við lifum í núinu og vitum ekki hvað gerist næst. Það var okkar stærsta verkfæri og ég fór alla leið með það og hugsaði stanslaust hvað ef?
Sálfræðingurinn minn benti mér á að þetta væri það sem gerði mig að góðri leikkonu en þar fyrir utan myndi þetta gera mér lífið mjög erfitt sem venjulegri manneskju. Ég yrði að finna milliveginn í því að halda í þennan eiginleika sem leikkona en geta lifað sem manneskja og hreinlega komist út úr húsi.“
Lilja Nótt leikur eitt aðalhluverka í Systrabönd.  Mynd: Valgarð Gísla
Engin jarðtenging
Þetta voru sömu tíu hug-myndirnar sem hringsnérust og skiptust á að grípa hugann með tilheyrandi efasemdum um eigin geðheilsu. Þegar erfið hugmynd blossaði upp var stutt í ofsakvíðakast með þeirri vanlíðan sem fylgir stjórnleysinu. Ofsakvíðakast stendur yfirleitt að hámarki í um 30 mínútur og nær vissu hámarki áður en það fer að dvína.
„Adrenalínbirgðirnar minnka og líkaminn örmagnast að lokum. Þegar sálfræðingurinn sagði mér það og að þetta væri tímabundið ástand þá á að felast í því visst öryggi en í auga stormsins þegar kvíðinn hellist yfir þig þá fer jarðtengingin og þú nærð ekki samhenginu, að þetta sé ekki að fara að vera svona næstu klukkustundirnar.“
Ekki er óalgengt að fyrsta kastið sé upphafið að því næsta. „Þú verður svo hrædd við að fá næsta kvíðakast sem viðheldur kvíðanum. Þá ertu svo nálægt yfirborðinu að það þarf svo lítið til þess að koma kastinu af stað. Þú ert orðin kvíðin fyrir kvíðanum og þú festist í vítahring. Hvað ef ég verð kvíðin og hvað ef ég verð kvíðin?“
Á sama tíma og Lilja bjó með kvíðanum gat Lilja verið í mjög krefjandi aðstæðum líkt og að standa á sviði fyrir framan fjölda fólks án þess að finna fyrir honum – þvert á móti var hún í essinu sínu.
Plásturinn virkaði ekki

Þannig bjó kvíðinn með Lilju. Stundum komu lengri tímabil þar sem hann stjórnaði ekki og svo mætti hann allt í einu, óboðinn og yfirþyrmandi.

„Mér leið mjög illa mjög lengi. Ég var búin að vera hjá frábærum sálfræðingi reglulega í mörg ár en hann var ekki sérhæfður í sem því ég var að eiga við. Þetta var orð­ið eins og vatn og sápa fyrir einhvern með sýklafóbíu. Það kom einhver hugmynd og ég réð ekki neitt við neitt, þá fór ég í iPadinn og reyndi að dreifa huganum og það gekk í smá tíma en ég endaði svo á að hringja í sálfræðinginn og fá strax tíma.“

Hjá sálfræðingnum fékk hún staðfestingu á því að geð­heilsan væri ekki farin og að ranghugmyndirnar væru akk­úrat það – ranghugmyndir. „Þetta getur ekki gerst, er það? Ég get ekki orðið svona? Ég get ekki gert þetta? Þann­ig spurði ég og hann fullviss­aði mig um að þetta myndi ekki gerast og hugmyndirnar væru ekki raunverulegar og það var plásturinn minn. Það dugði í svona 3 til 4 vikur og þá þurfti ég að fara aftur og fá nýtt „fix“.“

Sálfræðingurinn sagði Lilju að lokum að þetta gengi ekki lengur, hún væri ekki að ná bata. „Hann sendi mig þá á Kvíðameðferðarmiðstöðina til þess að fá sérhæfðari að­stoð. Það eitt var kvíðamál, að þurfa að segja einhverjum nýjum allt upp á nýtt. Og hvað ef þau halda að ég viti ekki að þetta séu ranghugmyndir og halda að ég sé svona eða hin­segin?“ Að dvelja í óttanum Þar fór Lilja í hugræna at­ferlismeðferð sem hún segir hafa breytt lífi sínu.

„Þarna fékk ég hamar og nagla. Ég var búin að kenna heilanum á mér í sex ár að ef ég nálgað­ist bjargbrúnina þá hrökk ég til baka og var sannfærð um hættuna í stað þess að horfa yfir brúnina. Ef kvíðinn kom þá fór ég alltaf í sömu hegð­unina, að reyna að dreifa hug­anum, og þegar það gekk ekki, þá að bóka tíma hjá sálfræð­ingnum í stað þess að taka á móti hugsununum og segja bara komdu með það og taka á móti hugsununum og fara inn í þær og vera í óþægindunum.“

Það hljómar einfalt en það að horfast í augu við óttann og dvelja í honum er ekki auð­unnið verk. „Ég þurfti að takast á við þessar hugmyndir og lesa og kynna mér það sem ég hafði forðast og losa mig þannig undan þessum „triggerum“ og reyna að komast út úr höfð­inu á mér. Sjá mig utan frá. Ég hef eiginlega ekki fundið betri skýringu á þessu ástandi aðra en að þetta er eins og að vera andsetin. Eins og að deila heilaplássinu þínu með ein­hverju fyrirbæri sem er að reyna að fokka í þér endalaust. Þú veist sjálf hvað er rétt og að þetta er ekki raunverulegt en samt kemur efinn.“

Lilja lærði að setja undir sig hausinn og horfast í augu við óttann. Fara inn í vanlíðanina og leysa hnútinn. „Ég byrjaði að taka á móti hugsununum og eiga samtal við kvíðann. „Hvaða hugmynd ætlarðu að sýna mér núna? Ókei, þetta, þetta er skrítið, já, ætlarðu alveg með þetta þangað? Ókei, ég ræð við það.“Ég byrjaði að taka á móti í stað þess að spyrna á móti. Þetta var ógeðslega erfitt í blábyrjun en svo gat ég farið að vinda ofan af þessu hratt – og óska þess að ég hefði gert þetta fyrr. Ég hafði verið í hel­víti í rúm sex ár en núna hef ég ekki farið til sálfræðings í mörg ár.“

Hún segist veita því athygli hvað sé slæmt fyrir tauga­kerfið sitt. „Ég sæki ekki í að lesa hamfaraklám og hræði­legar fréttir og hef hætt að drekka til að verja taugakerfið þegar kvíðinn var slæmur. Það vill enginn vakna þunnur ofan á það að vera með utan­áliggjandi taugakerfi. Hjá mér er þetta líka rosalega horm­ónatengt. Ég fæ ennþá smá kvíðasting nokkrum dögum áður en ég byrja á blæðingum og þegar ég var ólétt var ég alveg í hnút en í seinni með­göngunni hafði ég náð tökum á kvíðanum.“

 

Hláturskast og drama

Þegar óvelkomnu hugmynd­irnar hættu að angra Lilju hafði hún mun meiri sálarró til þess að fá góðar hugmyndir og stofnaði framleiðslufyrir­tæki sem setti upp leiksýn­inguna Mæður á síðasta ári – korter í COVID. Í sýningunni leikur Lilja sjálf eitt aðalhlutverkanna ásamt leikkonunum og mæðr­unum Maríu Hebu Þorkels­dóttur, Kristínu Pétursdóttur og Aðalbjörgu Árnadóttur.„Sýningin fór mjög vel af stað og það var uppselt á níu sýningar þegar við þurftum að hætta að sýna vegna sam­komutakmarkana. Nú erum við loksins að byrja aftur og erum núna í Borgarleikhús­inu. Þetta eru litlar sögur sem eru bundnar saman af mömmuklúbbi þar sem fjórar mæður koma saman. Sýningin er mjög hrá, hreinskilin og ógeðslega fyndin og hún er svo fyndin af því að það sem verið er að ræða er svo satt. Mæðurnar eru allar mjög ólíkar. Svefnlausa mamman, og svo er sú sem gúglar allt og les allt og ætlar að standa sig frábærlega

vel, frama­konan sem er að eignast barn ein eftir að hafa sérvalið sæði í sæðisbanka frá lögfræðingi/djasspíanista og svo er það þessi með orkusteinana sem fæddi hlæjandi og allt er svo yndislegt og jákvætt.“

Mæður er þó ekki eina stóra verkefnið sem Lilja er í um þessar mundir því sjón­varpsþættirnir Systrabönd verða frumsýndir í Sjón­varpi Símans um páskana. Þar leikur Lilja prest sem að öllum líkindum er með eitt­hvað misjafnt á samviskunni. Það er ekki langt síðan Lilja lék morðingja í fyrstu seríu af Ófærð svo það má leiða að því líkur að hún sé ekki morð­inginn aftur? „Nei það kemur fram strax en svo er það þessi pæling um slæma hluti, ef þeir eru settir í samhengi geta þeir þá orðið minna slæmir? Eins og minn karakter í Ófærð sem myrti manninn sem nauðgaði henni þegar hann réðst á hana aftur.“

Fólk kemst í tísku

Það er oft talað um að það sé „alltaf“ sama fólkið sem fái öll stærstu hlutverkin og það sé erfitt fyrir aðra að komast að. Hver er þín tilfinning fyrir því? „Fólk kemst í tísku. Ég segi það ekki með neinum bitur­leika það er bara raunveru­leikinn. Ég held að þú komist ekkert að ef þú ert lélegur en list er svo mikið smekksat­riði. Það sem þú græðir á að komast í tísku er að þá er það samþykkt að þú „seljir“. Og ég er bara ekki þessi týpa sem kemst í tísku. Ég myndi lýsa sjálfri mér sem áunninni,“ segir hún og brosir glettnis­lega.

Það er nú ekki rétt. Þú hafðir til dæmis leikið í þremur myndum áður en þú byrjaðir í leikaranámi og lékst í kvikmynd með George Clooney í fyrra.

„Já, en það hefur alltaf liðið langt á milli og ég hef aldrei fengið röð af hlutverkum, sem er kannski fínt, þá þarf maður sjálfur að fá hugmyndir og gera eitthvað. Ég var með þá röngu hugmynd eftir að ég út­skrifaðist að ef ég næði þeim stað að geta valið úr hlut­verkum þá væri þetta komið – eins og að komast upp fyrir eitthvert strik sem þú getur þá ekki fallið undir aftur því þá ertu orðin konan sem velur úr verkunum. Svo átta ég mig á því að þetta er stanslaus barátta hjá öllum. Meira að segja George Cloo­ney. Hann er þar sem hann er því að hann er stanslaust að gera sitt eigið og skapa verkefni. Ef þú ætlar raunverulega að lifa á þessu það sem eftir er ævinnar þá þarftu að skapa þín eigin tækifæri. Það er ekki lengur þannig að þú sért æviráðinn í leikhúsinu. Ég er heppin, ég fékk þá flengingu snemma og lærði að reikna ekki með neinu.“

 

Kjaftamaskínan

Lilju var boðinn árssamningur bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu þegar hún útskrifaðist og valdi Þjóðleikhúsið þar sem hún lék hið eftirsótta hlutverk kvenhetjunnar Snæfríðar Íslandssólar í Íslandsklukkunni. „Ég gaf mig alla í hlutverkið en því var misvel tekið. Fólk-inu fannst ég góð en bransanum ekki. Það er allt í þessu fína en það eru þessi átök sem voru í þessu húsi sem voru það ekki.Konur sérstaklega lenda í þessari kjaftamaskínu þar sem einhvers staðar segir einhver eitthvað um að hún sé erfið og það sé ekki hægt að vinna með henni en oftast getur enginn sagt af hverju eða nefnt dæmi. Ástæðan er þá kannski að einhverjum einum karli fannst erfitt að vinna með henni því hún var ekki sammála öllu sem hann sagði.“

Lilja segist sjálf hafa gerst sek um að dæma konu úr leik því hún hafði heyrt að viðkomandi væri erfið í samstarfi. „Ég var að leita að manneskju til að skrifa með mér handrit og Þórhallur Gunnarsson stingur upp á konu sem ég afskrifaði strax. Þegar hann spurði mig hvort ég þekkti hana eða hefði unnið með henni varð ég að átta mig á að ég var þarna orðin hluti af vandamálinu. Þetta var svo gott á mig – og ég var svo pirruð á því að ég hefði tekið þátt í þessu því ég hafði lent í hinni hliðinni.“

Þetta fyrsta ár Lilju í Þjóðleikhúsinu hafði hún tekið þátt í nokkrum uppsetningum þegar farið var að kalla fólk í prufur fyrir næsta leikár. „Það voru bara prufaðar leikkonur. Leikararnir þurftu ekki að fara í prufur, þeir fengu bara sín hlutverk, en leikkonurnar urðu að mæta í prufur. Eðlilega varð mikill kurr í húsinu og mikið talað inni í lokuðum herbergjum. Ég með mína útblásnu réttlætiskennd og litlu meðvirkni gat ekki setið á mér þegar ég var boðuð í prufu og rétti upp hönd og sagði: Má ég spyrja að einu, af hverju er bara verið að prufa konur?“

Lilja segir að það hafi ekki verið tekið vel í þá fyrirspurn og fátt hafi verið um svör. „Ég var ung og nýútskrifuð og átti bara að þegja og vera þakklát fyrir að vera í vinnu. Ég fékk svo ekkert hlutverk í þessu leikhúsi árið eftir. Ég fór í kjölfarið mjög langt niður. Ég hafði fengið þarna gífurlega eftirsótt hlutverk í Íslandsklukkunni sem átti að vera upphafið mitt. Ég skildi ekki hvar mér hafði mistekist því ég lagði mig alla fram. Svo ári seinna kemur í ljós að kjaftamaskínan hafði farið í gang eftir þessa spurningu mína, að ég væri svo erfið og mikil stjarna og þættist of góð til þess að mæta í prufu. Hvort maskínan kom því eitthvað við að ég var ekki ráðin veit ég ekki en það hjálpar ekki. Þess vegna var það svo hugvekjandi fyrir mig að átta mig á að ég hafði sjálf tekið þátt í þessu með því að vilja ekki íhuga þessa konu sem handritshöfund því ég „hafði heyrt“ að hún væri erfið sem hún var svo alls ekki og er algerlega brilljant.“

Er þetta ekki ekki öðruvísi núna? Er fólki ekki fagnað fyrir að taka slaginn?
„Jú, að einhverju leyti, en svo eru alltaf einhverjir sem hugsa: Gott hjá þér svo lengi sem þú tekur slaginn við aðra og vinnur annars staðar. Ég nenni ekki að vinna með þér, hvað ef þú ferð að taka slaginn við mig?“ segir Lilja og segist þó sjálf ekki vera upptekin af því hvaða afleiðingar réttlætiskenndin hefur. Hún þarf að fá að brjótast fram.

„Ég áttaði mig heldur ekki á því fyrr en ég var ráðin aftur í Þjóðleikhúsið að þessi draumastaður sem ég sá fyrir mér – að geta valið úr verkefnum – ég var á honum. Hann leit bara öðruvísi út en ég hélt nokkrum árum áður. Þarna hafði ég hafði losað mig undan kvíðanum, eignast barn og var komin nær sjálfri mér. Þá fann ég kraftinn til að velja. Ég þarf ekki að taka öll verkefni sem mér bjóðast, ég ber ábyrgð á því sem listamaður að velja verkefnin mín.“

Lilja Nótt setti upp sýninguna Mæður sem slegið hefur í gegn. Mynd: Valgarð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart