fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Alin upp í sviðsljósinu – Sat nakin fyrir 10 ára og lék vændiskonu 11 ára

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 7. mars 2021 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umræðan um friðhelgi einkalífs barna hefur fengið aukið vægi undanfarin ár, sérstaklega í ljósi þess að ósjaldan birtast myndir af börnum á samfélagsmiðlum foreldra. Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort börn svonefndra áhrifavalda njóti yfirhöfuð friðhelgi einkalífsins og hvaða áhrif það kunni að hafa á þau þegar þau eldast.

Samfélagsmiðlar eru nýir af nálinni. Fyrir þeirra tíma kom það þó fyrir að friðhelgi barna kæmi til umræðu, þá einkum barna sem reyndu fyrir sér í leiklist. Leikkonan Brooke Shields er gott dæmi um barn sem aldrei naut friðhelgi einkalífs.

Frægð með móðurmjólkinni

Teri Shields var samkvæmisljón sem dreymdi um frægð og frama. Árið 1965 fæddist henni forkunnarfögur dóttir sem fékk nafnið Brooke. Þegar Brooke var aðeins fimm daga gömul ákvað Teri að dóttir hennar skyldi verða fræg, og ákvað samtímis að gerast umboðsmaður dóttur sinnar.

Brooke var ekki orðin eins árs þegar hún fékk fyrsta smjörþefinn af frægðinni. Ellefu mánaða gömul lék hún í sinni fyrstu auglýsingu og varð fljótlega þekkt sem „fallegasta barn Ameríku“.

Fallegasta barnið varð fljótt að ungri fegurðardrottningu með blómlegan feril fram undan. Allar dyr virtust standa henni opnar. En á sama tíma fór almenningur sem og fjölmiðlar að fylgjast náið með henni. Helst varð Brooke fræg fyrir að vera ung og falleg og fjölmiðlar kepptust við að kyngera hana.

Sat fyrir nakin tíu ára

Brooke dreymdi um að fá að vera venjulegt barn, en það stóð henni ekki til boða. Móðir hennar var kröfuhörð og öllu skyldi til kostað til að tryggja frægð dótturinnar. Brooke mátti hafa sig alla við til að uppfylla kröfur og væntingar móður sinnar. Samkvæmt fjölda heimilda stjórnaði Teri öllu lífi dóttur sinnar, bæði ferlinum og einkalífinu. Allt undir því yfirskyni að hún vissi hvað væri barni sínu fyrir bestu. Þegar Brooke var aðeins tíu ára gömul bókaði móðir hennar myndatöku þar sem Brooke var látin sitja fyrir nakin.

Fyrir myndatökuna fengu mæðgurnar greidda 450 dollara og Teri skrifað undir samning sem heimilaði notkun myndanna, sem voru teknar fyrir tímaritið Playboy. Þegar Brook var sextán ára reyndi hún að koma í veg fyrir að myndirnar yrðu notaðar frekar. Dómari í málinu komst að þeirri niðurstöðu að myndirnar gætu ekki talist barnaklám og að barn væri skuldbundið þeim skilmálum sem forráðamaður hefði samþykkt fyrir þeirra hönd. Eins taldi dómari að barn gæti ekki sjálft síðar afturkallað samþykki forráðamanns. Hins vegar skilaði einn dómari í málinu sératkvæði þar sem hann sagði að barni ætti ekki að vera refsað fyrir „dómgreindarleysi móðurinnar“.

Ellefu ára vændiskona

Ellefu ára gömul lék Brooke kornunga gleðikonu í kvikmyndinni Pretty Baby. Atriði í kvikmyndinni eru talin hafa brotið blað í kvikmyndasögunni. Móðir Brooke, Teri, var harðlega gagnrýnd í kjölfarið. Að móðir skyldi láta barn sitt leika í jafn djarfri kvikmynd aðeins 12 ára að aldri? Fólk botnaði ekkert í þessu.

Ekki bætti svo úr skák að tveimur árum síðar lék hin 14 ára gamla Brooke í kvikmyndinni Blue Lagoon sem varð ekki síður umdeild. Kvikmyndin fjallar um tvö börn sem eru strandaglópar á eyðieyju. Þau verða kynþroska á eyjunni og fella hugi saman, en atriði í myndinni eru nokkuð djörf og kynferðisleg. Aftur var Teri harðlega gagnrýnd, þrátt fyrir að síðar kæmi fram að Brooke hefði stuðst við staðgengil í djarfari atriðum myndarinnar. Þótti það ekki forsvaranlegt að fjórtán ára barn væri fengið í hlutverk af þessu tagi.

Kynferðisleg auglýsingaherferð

Fyrirsætuferill Brooke olli einnig umtali. Tólf ára gömul sat hún fyrir á forsíðu unglingatímaritsins Seventeen og vakti þar athygli hins fræga hönnuðar Calvin Klein sem fékk Brooke til að vera andlit auglýsingaherferðar. Þá var Brooke aðeins fimmtán ára en var í sjónvarpsauglýsingum látin fara með línuna „Viltu vita hvað er að finna á milli mín og gallabuxna minna? Ekkert.“ Línan þótti alltof kynferðisleg fyrir svona unga stúlku og bönnuðu sumar sjónvarpsstöðvar sýningu á auglýsingunum. Hins vegar er það svo að það er ekkert til sem heitir slæmt umtal og umtalið sem auglýsingin olli varð til þess að auka á frægð bæði Calvin Klein og Brooke sjálfrar.

Gagnrýnin á hæfileika hennar sem móður og umboðsmanns reyndist Teri þungbær, sem og þrýstingurinn sem hún beitti sjálfa sig og Brooke í nafni frægðarinnar. Teri greip, líkt og svo margir í Hollywood, á það ráð að leita huggunar í flöskunni og varð drykkfelld með eindæmum. Það kom því í hlut Brooke, sem enn var barn að aldri, að sjá um móður sína samhliða ferlinum, fjölmiðlaathyglinni, umtalinu og gífurlegum kröfum móður hennar.

„Ég ólst upp hjá alkóhólista,“ sagði Brooke í samtali við The New York Times árið 1994. „Ég var í hlutverki ummönnunaraðilans sem vildi bara gera allt betra, en þú getur ekki gegnt því hlutverki til lengdar, eða svo er mér sagt.“

Brooke hefur einnig haldið því fram að móðir hennar hafi verndað hana fyrir kynferðislegri áreitni og sagði í samtali við The Telegraph’s Stella magazine í janúar 2019 að móðir hennar hefði sagt hverjum þeim er leit á hana ósæmilega: „Ég sker undan þér eistun og læt þig éta þau.“

Internetið gleymir aldrei

Svo virðist sem Brooke hafi komist frekar heil undan því að vera barnastjarna. Hún var ávallt með báða fæturna á jörðinni og notaði vinsældir sínar til að vekja athygli á góðum málum og hvetja til heilbrigðs lífsstíls.

Hún missti meydóminn 22 ára að eigin sögn en móðir hennar hafði innrætt henni að kynlíf væri syndsamlegt.

Í dag á Brooke tvær dætur og vill fyrir alla muni forðast að gera sömu mistök og móðir hennar gerði. Þar til dætur hennar fara í háskóla mega þær ekki koma nálægt kvikmyndaiðnaðinum og Brooke hefur sagt fjölmiðlum að hún sé mótfallin því að unglingar séu notaðir í auglýsingar og tískusýningar.

„Við ættum ekki að vera að horfa á líkama 15 ára barna. Ég vil ekki líkama 15 ára barns. Ég vil ekki líta út eins og lítill drengur.“

Eins hefur Brooke alið upp í dætrum sínum að fara gætilega á samfélagsmiðlum, því að internetið gleymir aldrei neinu. Hins vegar hefur Brooke aldrei séð eftir æsku sinni, eða því að hafa glatað friðhelgi einkalífs síns, enda þekkir hún ekkert annað. „Ég byrjaði í bransanum 11 mánaða gömul svo þetta hefur alltaf verið líf mitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Í gær

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“