fbpx
Föstudagur 23.október 2020
Fókus

Þetta eru bestu barna- og ungmennabækurnar að mati álitsgjafa DV

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 28. september 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir eiga ljóslifandi minningar tengdar bókum sem þeir lásu sem börn eða unglingar. DV fékk valinkunna álitsgjafa til að nefna sínar uppáhalds barna og/eða ungmennabækur. Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren og þríleikurinn His Dark Materials eftir Philip Pullman eru nefndar oftar en einu sinni.

Sjá einnig: Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV.

 

HEIÐAR INGI SVANSSON, BÓKAÚTGEFANDI

Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren er án efa ein allra áhrifamesta bók sem ég hef lesið. Reyndar var hún fyrst lesin fyrir mig þegar hún kom út en síðan las ég hana sjálfur og það allnokkrum sinnum. Í henni er að finna einhvern galdur sem ekki er á allra færi að leika eftir og aðeins er hægt að upplifa með lestri vel skrifaðra bóka. Í bókinni reynir leiftrandi textinn þannig á tilfinningar manns og ímyndunarafl að allt í henni kviknar ósjálfrátt ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, bara við það að loka augunum. Þannig er bíómyndin ekkert sérstaklega eftirminnileg en bókin er ógleymanleg!

 

ÁLFRÚN PÁLSDÓTTIR, KYNNINGARSTJÓRI HÖNNUNARMIÐSTÖÐVAR ÍSLANDS

Ég er Astrid Lindgren-barn og drakk allar hennar bækur í mig oft og mörgum sinnum í æsku. Bróðir minn Ljónshjarta trónir þar á toppnum en í minningunni sá ég mömmu í fyrsta sinn gráta þegar hún las fyrir mig fyrsta kafla bókarinnar. Ég hef svo endurtekið það fyrir mín börn, enda með eindæmum sorgleg byrjun á barnabók.

 

PÉTUR G. MARKAN, SAMSKIPTASTJÓRI ÞJÓÐKIRKJUNNAR

Ég las allt sem ég komst í þegar ég var yngri, hvort sem það var Austan Eden eftir Steinbeck eða Hodja og töfrateppið eftir Ole Lund Kirkegaard. Engin bók hafði samt jafn mikil áhrif á mig eins og Riddarar hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson. Þessi setning mótar lítinn mann fyrir lífið: Og ég sem hélt að litlir strákar gætu ekki dáið.

 

GUNNAR HERSVEINN, RITHÖFUNDUR OG HEIMSPEKINGUR

Ég heillaðist af þríleiknum Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn og Skuggasaga eftir Philip Pullman. Ég las þær fyrst um aldamótin 2000 og skrifaði ritdóma um þær þar sem segir m.a.: Gyllti áttavitinn er mikilsháttar ævintýrabók, Lúmski hnífurinn er skuggalega góð bók, gefur allt sem góð bók á að gefa. Höfundurinn hefur bætt við nokkrum sögum um Lýru silfurtungu og bókin Villimærin fagra hefur þegar komið út á íslensku hjá Forlaginu. Þá hefur fyrsta þáttaröðin um þríleikinn verið gerð fyrir sjónvarp His Dark Materials og er sýnd á Stöð 2. Mæli með henni.

ÓLI KR. ÁRMANNSSON, BLAÐAMAÐUR OG RÁÐGJAFI HJÁ KOM RÁÐGJÖF

Ég verð að nefna His Dark Materials og Books of Dust seríur Philips Pullmans. Upp á milli þeirra er ekki hægt að gera. Margir þekkja fyrri þríleikinn með The Golden Compass, The Subtle Knife og Amber Spyglass. Books of Dust eiga sér svo stað bæði fyrir og eftir atburði fyrstu bókanna. Bókunum er erfitt að skipa í flokk þótt þær hafi verið markaðssettar fyrir ungmenni. Þær eru marglaga ævintýri fyrir fólk á öllum aldri, bækur sem skerpa hugsun og víkka sjóndeildarhringinn.

 

ÆSA GUÐRÚN BJARNADÓTTIR, RITSTJÓRI

Í hvert sinn sem kemur út ný Ráðgátubók í flokknum Spæjarastofa Lalla og Maju eftir Martin Widmark lesum við hjónin hana upphátt fyrir dætur okkar, tvo kafla á kvöldi, og reynum að leysa gátuna á undan aðalsöguhetjunum. Það eru einstaklega góðar stundir. Sonurinn eini er hugfanginn af Skrímslabókum Áslaugar Jónsdóttur, allrabestar eru Stór skrímsli gráta ekki og Skrímslapest. Þar má setja sig í spor bæði litla og stóra skrímslisins, með öllum þeirra kostum og göllum. Heimsklassabarnabækur.

 

 

HILDUR ÝR ÍSBERG, ÍSLENSKU- OG BÓKMENNTAFRÆÐINGUR

Er næsta spurning: Hvert er uppáhaldsbarnið þitt? Mómó, eftir Michael Ende held ég að sé alveg sér á parti, hún heldur sér mjög vel, enda fjallar hún um tímann, að gefa sér tíma, að hafa ekki tíma, um æsku og elli… Önnur sem ég ætla að nefna er Litla uglan hennar Maríu eftir Finn Havrevold. Hún hefur allt sem góð barnabók á að hafa til brunns að bera – spennu, dulúð, páfagauk og fjársjóðsleit!

 

 

HILDIGUNNUR RÚNARSDÓTTIR, TÓNSKÁLD

Bókin Barist til sigurs eftir Jan Terlouw var lesin algerlega í tætlur heima hjá okkur systkinunum og mér þykir afleitt að eiga ekki eintak af henni sjálf. Hún fjallar um þjónsson sem vill verða kóngur, þarf að leysa þrautir eins og gengur og gerist en fer hressilega óhefðbundnar leiðir til þess. Vill einhver gera svo vel að gefa þessa bók út aftur og gefa henni þá athygli sem hún á skilið? Plís?

 

SVERRIR NORLAND, RITHÖFUNDUR

Hér verð ég eiginlega að nefna bækur sem ég hef nýverið þýtt á íslensku (ég mundi aldrei þýða aðrar en eftirlætisbækurnar mínar!): Where The Wild Things Are eftir Maurice Sendak, sem í minni þýðingu nefnist Þar sem óhemjurnar eru, og eins verk eftir Tomi Ungerer. Ég þýddi þrjár bækur eftir Ungerer úr frönsku – Mána, Tröllið hennar Sigríðar og Ræningjana þrjá – en hann var heilt sólkerfi af kreatífri orku og skrifaði og teiknaði á annað hundrað bóka. Gaman væri að gefa út fleiri bækur eftir hann í framtíðinni. Hann hefur verið mér botnlaus brunnur af innblæstri og hvatningu með lífsstíl sínum og sköpunargleði og var einfaldlega einn besti og frjóasti sögumaður 20. aldar að mínu viti.

 

Þessi umfjöllun birtist fyrst í helgarblaði DV 18. september. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Heimsfaraldurinn hefur áhrif á kynlíf – Minna um munngælur og strokur

Heimsfaraldurinn hefur áhrif á kynlíf – Minna um munngælur og strokur
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Kynlífið með honum er ennþá besta kynlífið“ segir kona um sinn fyrrverandi – „Ég er ekki með neitt samviskubit“

„Kynlífið með honum er ennþá besta kynlífið“ segir kona um sinn fyrrverandi – „Ég er ekki með neitt samviskubit“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nektarmynd Ashley Graham vekur athygli

Nektarmynd Ashley Graham vekur athygli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristbjörg opnar sig: „Ég man hvað ég var glórulaus“

Kristbjörg opnar sig: „Ég man hvað ég var glórulaus“