fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Fókus

Margrét Gnarr ætlar að snúa aftur í fitness eftir barnsburð: „Ég vil sýna heilbrigðara útlit á sviðinu“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 28. september 2020 13:15

Margrét Gnarr. Mynd t.h: Hanna/DV - Instagram.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Edda Gnarr ætlar að snúa aftur á keppnisgólfið. Hún var atvinnumaður í bikinífitness áður en hún tók sér hlé til að ná bata við átröskun. Hún hafði glímt við lystarstol og lotugræðgi frá því að hún var fjórtán ára gömul.

Sjá einnig: Margrét Gnarr var komin með hjartsláttatruflanir vegna átröskunar: „Ég var orðin hrædd um líf mitt“

Margrét heldur úti vinsælli Instagram-síðu og er ófeimin að tjá sig um átröskunina og batann. Hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir átta mánuðum og hefur verið dugleg að deila upplifun sinni varðandi líkamsímynd bæði fyrir og eftir barnsburð.

Margrét greindi nýverið frá því á Instagram að hún ætlaði að keppa aftur í bikinífitness. Við heyrðum í henni um komandi keppni og ferlið sem nú tæki við.

Líður vel

Aðspurð hvort það hafi verið erfið ákvörðun að ákveða að keppa aftur segir Margrét:

„Þessi ákvörðun er ennþá á byrjunarstigi og ég hef ekki ákveðið hvenær ég vil keppa aftur. Mér var boðið að skipta yfir í aðra atvinnudeild í fitness sem heitir IFBB Elite Pro og ég ákvað að slá til. Á sama tíma veit ég ekki hvenær mitt fyrsta mót verður hjá þessari atvinnudeild,“ segir hún. Hennar fyrsta mót verður þó ekki fyrr en seint á næsta ári.

Margrét birti myndband á Instagram í síðustu viku þar sem hún sýndi í hvaða formi hún var átta mánuðum eftir barnsburð. „Æfingin skapar meistarann,“ skrifaði hún með myndbandinu.

Í samtali við DV segir Margrét að henni líði mjög vel og er mjög þakklát fyrir það. „Ég trúi því að ástæðan fyrir því að mér líður vel sé að ég æfði reglulega á meðgöngunni og var í vikulegri meðhöndlun hjá Gumma Kírópraktor hjá Kírópraktorstöð Reykjavíkur,“ segir hún.

„Ég er samt alls ekki eins sterk og ég var fyrir meðgöngu en þá er það sérstaklega kviðurinn sem er slappur. Það tekur bara tíma að byggja upp þennan styrk.“

Hreyfing og mataræði

Margrét byrjaði að æfa um tvisvar til þrisvar í viku þegar drengurinn hennar var um mánaðar gamall. Hún er einkaþjálfari og sá um að setja upp æfingarnar sínar sjálf.

„Ég byrjaði á léttum æfingum heima. Þegar World Class opnaði aftur byrjaði ég að æfa þar en hélt áfram að taka frekar léttar æfingar. Um páskana fór ég svo aftur í Taekwondo, en ég æfi Taekwondo í Mudo Gym. Það eru mjög krefjandi æfingar svo ég hélt mér við að æfa það tvisvar í viku yfir sumarið. Ég er nýbyrjuð að æfa aftur í World Class og æfi þar þrisvar í viku ásamt því að fara á þrjár Taekwondo æfingar í viku,“ segir Margrét.

„Ég einblíni á að styrkja allan líkamann en með mismunandi áherslur á ákveðna vöðvahópa svo efri og neðri skrokkurinn samsvari sér.“

Margrét er vegan og borðar því engar dýraafurðir. „Ég hef verið að borða mikið magn af mat og legg mikinn metnað í að borða nóg svo ég hafi næga orku fyrir strákinn minn og æfingar. Ég borða 5-6 máltíðir á dag sem eru allar frekar hollar því þannig líður mér best en ef ég vil eitthvað í óhollari kantinum þá leyfi ég mér það hiklaust,“ segir hún.

Öðruvísi undirbúningur

Svo hún falli ekki í sama átröskunarmynstur og áður í keppnisundirbúningi ætlar Margrét að breyta ýmislegu varðandi ferlið. „Ég vil geta farið í gegnum undirbúning án þess að finna fyrir svelti og vanlíðan eins og ég gerði fyrstu árin sem ég keppti. Þá var undirbúningur fyrir mót mjög auðveldur og mér fannst allt ferlið svo gefandi og skemmtilegt. En ég gerði þau mistök að taka mér ekki pásu á milli móta sem olli því að líkaminn fór í svo kallað sveltiástand og fór að vinna gegn mér. Þá þurfti ég að borða minna og æfa meira til að komast í keppnisform. Það var hrikalega erfitt og ég var ekki lengur að njóta. Einnig fannst mér kröfurnar orðnar mun meiri í mínum flokk. Mér fannst ég alltaf þurfa að vera skornari og skornari. Ég ætla að passa vel upp á að ég sé ekki í svelti eða finni fyrir ofsaþreytu fyrir næsta mót,“ segir hún og bætir við:

„Ég vil ekki stefna á að vera eins skorin og ég var þegar ég keppti á mínum síðustu mótum heldur vil ég sýna heilbrigðara útlit á sviðinu. Ég mun vinna að þessu með Jóhann Norðfjörð þjálfara og við erum algjörlega á sömu blaðsíðu.“

Margrét viðurkennir að það fylgi því smá ótti við að fara aftur í sömu hegðun. „En ég er búin að vera í bata í tvö ár. Á þessum tíma hef ég unnið verulega í minni sjálfsímynd og lagað samband mitt við mat sem var orðið verulega brenglað. Partur af batanum er að takast á við hugsanirnar en það getur tekið langan tíma fyrir þær að hverfa algjörlega. Hugsanirnar mega koma, svo lengi sem ég svara þeim á jákvæðan hátt.“

Þú getur fylgst með Margréti Gnarr á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Blaðamaður fórnar sér – „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“

Blaðamaður fórnar sér – „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einhleypar athafnakonur – Eldklárar og æðislegar

Einhleypar athafnakonur – Eldklárar og æðislegar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes
Fókus
Fyrir 4 dögum

Auddi Blö á von á sínu öðru barni – Deilir sónarmynd

Auddi Blö á von á sínu öðru barni – Deilir sónarmynd
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hugrún Britta samdi plötu og áttaði sig á að hún væri flæðigerva – Gefur út nýtt tónlistarmyndband

Hugrún Britta samdi plötu og áttaði sig á að hún væri flæðigerva – Gefur út nýtt tónlistarmyndband