fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 26. september 2020 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar haustvindarnir byrja að blása er tilvalið að hjúfra sig undir teppi með góða bók. DV fékk valinkunna álitsgjafa til að nefna sínar uppáhaldsbækur í flokki skáldsagna almenns eðlis. Síðar verður fjallað um uppáhalds barna/ungmennabækurnar, og uppáhalds spennusögurnar þeirra.

 

ÆSA GUÐRÚN BJARNADÓTTIR, RITSTJÓRI

Það er auðvitað fráleitt að velja eina uppáhaldsskáldsögu enda komast nokkrar fyrir á hverju aldursskeiði. Tvítug: Karítasbækur Kristínar Marju, þrítug: Hvítfeld Kristínar Eiríksdóttur og þessa dagana er mér mjög hugleikin ný skáldsaga sem heitir Hansdætur og er eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur. Dúndur-dramatísk skáldsaga af ófeðruðum systrum vestur á fjörðum snemma á 20. öldinni, baráttu þeirra, sorgum og sigrum. Ég bæði flissaði og skældi svolítið yfir henni en fylltist líka baráttuhug. Það er góð lestrarupplifun.

 

HILDIGUNNUR RÚNARSDÓTTIR, TÓNSKÁLD

Uppáhaldsskáldsagan mín – hér er erfitt að velja. Ég fer í fantasíuheiminn, þar er valið milli Pratchett og Gaiman og mögulega Iain M. Banks og ég held að sagan Neverwhere eftir Neil Gaiman sé ein mest lesnu bókanna minna. Gaiman byggir hliðarheim undir London og persónusköpun og þroskaferli bæði aðal- og aukapersóna er glampandi.

 

ÓLI KR. ÁRMANNSSON, BLAÐAMAÐUR OG RÁÐGJAFI HJÁ KOM RÁÐGJÖF

Gravity‘s Rainbow eftir Thomas Pynchon er fyndin og furðuleg. Um leið er hún er ótrúlega umfangsmikil og úthugsuð. Sögusviðið er Evrópa undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og bókin hefst með flugskeytaárás Þjóðverja á London. „A screaming comes across the sky“ er einhver magnaðasta upphafslína nokkurrar bókar og lýsir komu eldflaugarinnar. Við tekur einhver tæplega 800 síðna skemmtiferð með ótal útúrdúrum þar sem meðal annars kemur við sögu fyrri helför Þjóðverja í Namibíu, ódauðleg ljósapera, og svo margar sögur að ekki er tóm til að tæpa á þeim. Stöðugt má uppgötva eitthvað nýtt í þessu stórskemmtilega furðuskáldverki.

 

SVERRIR NORLAND, RITHÖFUNDUR

Fyrsta skáldsagan, sem kemur upp í hugann, er Infinite Jest – Endalaust grín – eftir David Foster Wallace. Það er tæplega 1200 blaðsíðna brjálæði sem lýsir betur en nokkurt annað verk sem ég hef kynnst upplýsingaáreitinu og afþreyingarofríkinu sem við búum við og depurðinni sem oftar en ekki hlýst af því að búa í hinum útflatta og ómanneskjulega heimi kapítalismans. Góð listaverk eru alveg sér á báti og þessi bók er skilgreind sem skáldsaga en um leið brýtur hún allar reglur og er ólík öllum öðrum skáldsögum sem ég hef lesið. Bók sem krefst þess að maður hafi ró og næði til að kafa í hana!

 

HEIÐAR INGI SVANSSON, BÓKAÚTGEFANDI

Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Þetta var ein af uppáhaldsbókum ömmu minnar og uppalanda, Heiðdísar Eysteinsdóttur. Gerði fyrst atlögu að henni sem unglingur vegna hvatningar frá henni en náði ekki tengingu við hana þá og kláraði því ekki. Las hana svo aftur þegar hún var endurútgefin árið 2010 og þá opnaðist hún alveg fyrir mér. Algerlega mögnuð bók og allt í senn áhrifamikil, sönn, átakanleg og vel skrifuð. Bók sem skilur svo mikið eftir hjá lesandanum.

 

ÁLFRÚN PÁLSDÓTTIR, KYNNINGARSTJÓRI HÖNNUNARMIÐSTÖÐVAR ÍSLANDS

Ég á margar uppáhaldsskáldsögur, bækur sem sitja í manni, vekja til umhugsunar og víkka sjóndeildarhringinn verða yfirleitt fyrir valinu. Það er erfitt að nefna einhverja eina bók, en ef ég neyðist þá hafði bókin The second sex (Hitt kynið) eftir franska heimspekinginn Simone de Beauvoir djúp áhrif á mig og ég les stundum ennþá kafla og kafla. Líklega var það vegna þess að ég las hana ólétt að mínu fyrsta barni í háskólanámi erlendis. Bókin opnaði augu mín á svo marga vegu og ég lærði hluti sem eiga eftir að fylgja mér út ævina. Bókin ætti í raun að vera skyldulestur fyrir bæði kynin.

 

 

PÉTUR G. MARKAN, SAMSKIPTASTJÓRI ÞJÓÐKIRKJUNNAR

Ég las mikið áður fyrr – kem því sjaldnar í verk núna. Sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig er sú dásamlega ljóðabók Oh, the Places You’ll Go, eftir Dr. Seuss. Mamma gaf mér hana daginn sem ég útskrifaðist sem stúdent. Bókin er lífshlaup manns, sigrar hans og ósigrar, gleði, óvissa, örvænting, von, vissa og upprisa. Ég hef enga bók lesið oftar, engin bók hefur oftar lesið mig. Í öllum flutningum áranna hefur bókin fylgt mér samviskusamlega rétt eins og syndin, nautnin og kvíðinn. Nú situr hún á píanóinu og hlustar á mig þegar aðrir eru sofnaðir.

 

GUNNAR HERSVEINN, RITHÖFUNDUR OG HEIMSPEKINGUR

Það er Einu sinni var í austri – uppvaxtarsaga eftir kínverska höfundinn Xiaolu Guo. Sagan greip mig umsvifalaust. Söguhetjan er gefin umkomulausum eða barnlausum hjónum í fjallahéraði, sem reyndust síðan ekki hafa ráð á því að ala barnið upp eða gefa því að borða, þannig að þau gáfu það öðrum. „Aðeins smábarn og strax búið að gefa mig tvisvar.“

Eftir lesturinn varð ég að lesa aðra bók eftir höfundinn. Hún heitir Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur og er einstök. Bókaútgáfan Angústúra gaf báðar bækurnar út.

 

HILDUR ÝR ÍSBERG, ÍSLENSKU- OG BÓKMENNTAFRÆÐINGUR

Þó það sé erfitt að velja get ég hér nefnt tvær. Báðar hef ég bara lesið einu sinni, af því að ég þori ekki að lesa þær aftur. Sú fyrri er God knows eftir Joseph Heller. Hún er skrifuð í orðastað Davíðs konungs úr gamla testamentinu – eins konar sjálfsævisaga hans, en flakkar óhindrað um tíma og rúm. Alveg mögnuð bók.

Sú seinni er Life of Pi eftir Yann Martel, en það er einfaldlega vegna þess að hún var, þegar ég las hana, fyrsta bókin í mörg ár sem kippti mér út úr mínum eigin heimi og inn í annan – ég man eftir að hafa verið hálfmóðguð þegar síminn hringdi, því ég var ekki í sama heimi og hann.

Þessi umfjöllun birtist fyrst í helgarblaði DV 18. september.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“