fbpx
Laugardagur 26.september 2020
Fókus

Sakamál: Neyðaróp um kvöld

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 8. ágúst 2020 20:40

Ezra McCandless mundi í fyrstu lítið eftir hvað hafði gerst. MYNDIR/ SKJÁSKOT AF YOUTUBE

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að kvöldi 23. mars árið 2018 kom stúlka, illa til reika, að bóndabæ í Wisconsin og leitaði ásjár hjá bónda sem þar bjó einn, manni að nafni Don Sipple. Stúlkan var útötuð í mold og blóði og hún var hágrátandi. Bóndinn hleypti henni inn og hringdi í neyðarlínuna.

Stúlkan gat í fyrstu veitt afar litlar upplýsingar. Hún var í losti og sagðist muna lítið af því sem hafði gerst. Þegar bóndinn hringdi í neyðarlínuna gat hún ekki einu sinni gefið upp nafnið sitt. Smám saman skýrðist þetta. Stúlkan hét Ezra McCandless, var á 21. ári. Hún sagði að fyrrverandi kærasti hennar hefði ráðist á sig og veitt sér þessa áverka. Sá hét Alex Woodworth.

Hvaða fólk var þetta, Ezra og Alex? Hver var forsagan að þessu skelfilega atviki?

Ástarþríhyrningur

Ezra McCandless fæddist og ólst upp á sveitabýli fjölskyldu sinnar í Wisconsin. Aðalþéttbýlisstaðurinn í nágrenninu er bærinn Eaue Claire, þar sem búa um 70.000 manns. Þangað flutti Ezra ekki löngu fyrir þessa atburði og hóf feril sem sjálflærður listamaður. Hún hætti í framhaldsskóla til að helga sig list sinni.

Á helsta kaffihúsi bæjarins kynntist hún manni að nafni Jason Mengel, sem var 13 árum eldri en hún. Þrátt fyrir aldursmuninn smullu þau saman og tókust með þeim ástir. Jason starfaði sem herlæknir og var stundum lengi frá vegna heræfinga. Á kaffihúsinu kynntust þau Alex Woodworth, 23 ára gömlum forfallakennara og heimspekinema. Alex og Ezra deildu áhuga á listum og hún ræddi við hann um það sem hún var að reyna að skapa. Þetta leiddi lengra og þau tóku upp samband án vitundar Jasons.

Er Jason kom aftur til Eaue Claire eftir tveggja mánaða heræfingar skýrði Ezra honum frá því að kunningi Alex hefði nauðgað sér. Þau hefðu verið að drekka saman og hún hefði orðið mjög ölvuð. Þá hefði hann ráðist á hana og hún ekki getað veitt mótspyrnu. Þegar lögregla spurði Alex út í málið sagði hann að Ezra hefði sagt honum að hún hefði haft samfarir sjálfviljug við manninn. Lögreglan hætti rannsókn málsins og varð þetta til þess að spilla vináttu Ezra og Alex.

Skömmu eftir þetta ákvað Ezra að láta bóhemalífinu í Eaue Claire lokið í bili og fara heim í sveitina til forelda sinna og sleikja sárin þar um stund. Jason hafði í millitíðinni komist að framhjáhaldi hennar með Alex og slitið sambandinu.

Alex Woodworth fannst ekki eftir árásina

Örlagadagurinn 23. mars

Dag einn ákvað Ezra að skreppa til Eaue Claire, hitta Alex og spjalla við hann um listina. Hana langaði til meðal annars til að sýna honum texta sem hún hafði skrifað. Þau hittust á áðurnefndu kaffihúsi og svo vildi til að Jason var einnig á staðnum. Honum fannst eitthvað undarlegt við andrúmsloftið á milli þeirra tveggja, Alex og Ezra, og af einhverjum ástæðum varð hann áhyggjufullur. Alex og Ezra fóru síðan heim til Alex. Stuttu síðar hjólaði Jason þangað til að aðgæta um þau. Rétt er að taka fram að það var ekki afbrýðisemi sem knúði Jason, Ezra hafði margoft beðið hann um að byrja með sér aftur en hann vildi það ekki, treysti henni ekki. En núna hafði hann áhyggjur af henni. Svo sérkennilega vildi til að nágranni sem sá Jason sniglast fyrir utan húsið þar sem Alex bjó hringdi á lögreglu. Þegar lögreglumaður kom á vettvang útskýrði Jason að hann hefði áhyggjur af vinum sínum. Lögregla aðgætti um Alex og Ezra og þau sögðu að ekkert amaði að þeim.

Það átti eftir að koma á daginn að hugboð Jasons reyndist rétt.

Jason Mengel ber vitni við réttarhöldin.

Sporin inn í skóg

Aftur að sveitabænum þar sem Ezra leitaði hjálpar. Eftir að hafa yfirheyrt bóndann á bænum og Ezra var næsta mál hjá lögreglunni að finna Alex. Hann fannst hins vegar hvergi. Svaraði ekki í síma, var ekki heima hjá sér, og vinir og kunningjar vissu ekki hvar hann hélt sig.

Samkvæmt Ezra hafði árásin átt sér stað inni í bílnum hennar, hún hafði setið undir stýri er Alex veittist að henni. En hún mundi ekki hvar bíllinn var.

Með því að rannsaka fótspor Ezra sem lágu að sveitabænum tókst eftir nokkurt erfiði eða rekja þau að bíl sem stóð yfirgefinn í skógarrjóðri nokkurn spöl frá sveitabænum. Í bílnum lá dáinn maður, höfuðið út um opnar farþegardyr aftur í. Þetta var Alex og á líkama hans voru 16 stungusár.

Í endurtekinni yfirheyrslu lýsti Ezra því hvernig Alex hefði ráðist á hana með hnífnum og skorið hana þegar hún sat undir stýri. Henni hefði hins vegar tekist að snúa hnífnum úr höndum hans og hefði banað honum í sjálfsvörn.

Lýsing Ezra á atburðum þóttu ekki stemma við verksumerki. Til dæmis var lítið blóð í bílnum sem kom illa heim og saman við þann framburð hennar að þau hefðu tekist á um hnífinn í bílnum. Engin varnarsár voru á Ezra og ekki heldur á Alex. Það benti til að hann hefði orðið fyrir árás gjörsamlega sér að óvörum.

Ezra var ákærð fyrir morð að yfirlögðu ráði. Ástæðan fyrir glæpnum var talin vera sú að hún vildi ryðja Alex úr vegi til að auðveldara yrði að endurheimta sambandið við Jason.

Hún var dæmd í ævilangt fangelsi með möguleika á reynslulausn eftir 50 ár. Dómur var felldur snemma á þessu ári og hefur honum verið áfrýjað. Ezra neitaði sök fyrir rétti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Gat ekki sagt nei við FH
Fókus
Fyrir 2 dögum

Handritshöfundur Ráðherrans um fyrstu viðbrögð landsmanna – „Ekki dulinn vilji að cancela VG“

Handritshöfundur Ráðherrans um fyrstu viðbrögð landsmanna – „Ekki dulinn vilji að cancela VG“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndbandið: Dúa og Lance höfðu ekki hitt hvort annað mánuðum saman – „Ég er svo stressuð“

Sjáðu myndbandið: Dúa og Lance höfðu ekki hitt hvort annað mánuðum saman – „Ég er svo stressuð“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Faðir Aðalsteins svipti sig lífi – „Ég hugsa nánast um þetta á hverjum einasta degi“

Faðir Aðalsteins svipti sig lífi – „Ég hugsa nánast um þetta á hverjum einasta degi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tíu skipti þar sem Ellen DeGeneres fór yfir strikið.

Tíu skipti þar sem Ellen DeGeneres fór yfir strikið.
Fókus
Fyrir 4 dögum

Getur þú fundið hringina á sjónhverfingunni á innan við 10 sekúndum?

Getur þú fundið hringina á sjónhverfingunni á innan við 10 sekúndum?
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil