fbpx
Sunnudagur 24.janúar 2021
Fókus

Saman í 29 ár – Stundum kemur upp afbrýðisemi og tortryggni

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. júlí 2020 20:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar hún lesendum sem hafa aldrei verið einhleypir.

Við erum búin að vera saman frá því við vorum 15 ára, höfum verið saman í 29 ár og eigum tvö börn. Við kunnum ekkert annað en að vera saman og okkur líður vel, en okkur hefur báðum liðið eins og við séum að fara á mis við eitthvað. Við höfum aldrei verið með öðrum manneskjum og höfum engan samanburð um það hvernig þetta gæti verið öðruvísi. Þetta hefur stundum valdið afbrýðisemi og vantrausti í tengslum við hvort hinn aðilinn sé að líta í kringum sig, sé að hugsa um framhjáhald eða jafnvel skilnað og að breyta til. Þegar við ræðum þetta þá erum við sammála um að rækta sambandið okkar, en þetta er svona mara sem hangir alltaf yfir okkur. Áttu einhver ráð?

Kristín Tómasdóttir, fjölskylduráðgjafi

Frábær spurning

Takk fyrir frábæra spurningu og mikið er ég glöð að þið skulið eiga svo opinská samskipti að þið getið rætt flókna líðan ykkar í tengslum við sambandið. Það sem myndi hræða mig væri ef þið væruð að hugsa þetta sitt í hvoru horninu, gætuð ekki rætt þetta og jafnvel stigið einhver skref sem þið svo seinna gætuð séð eftir. Allt uppi á borðum, er það ekki alltaf best?

Sterkari heild

Sterk sjálfsmynd hefur mest forspárgildi um hamingju í framtíðinni og því sterkari sjálfsmynd sem þú býrð yfir, því líklegra er að þú eignist maka með sterka sjálfsmynd. Ástæður þess að sambönd sem byrja á unglingsárum endast ekki alltaf alla ævi, er oft sú að fólk þroskast sitt í hvora áttina, en í þeim tilfellum þar sem verða samlegðaráhrif, geta einstaklingarnir orðið sterkari heild en margar aðrar. Þar sem ykkar tengsl byrja að myndast á ykkar mestu mótunarárum má draga ályktun um að þið hafið þroskast saman og haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd hvors annars.

Kostirnir fleiri

Við mótumst nefnilega af samböndunum sem við erum í. Það hvernig ég tala, mótast af því hvernig þú hlustar. Það hvernig ég sýni mig fer eftir því hvernig þú sérð mig. Sambönd móta hver við erum. Gætuð þið snúið dæminu við og hugsað: hvað höfum við sem aðrir hafa ekki? Hvað gefur þessa margra ára sérstaða okkur? Ég leyfi mér að fullyrða að kostirnir geti verið ansi mikið fleiri en gallarnir. Þið hafið mótað hvort annað í áraraðir og fyrir vikið má segja að þið séuð sérsniðin upp á millimetra hvort að öðru. Það er meira en margir geta sagt. Þess virði? Þú talar um að þið upplifið að þið hafið misst af einhverju, en það er mikilvægt að minna sig á að stórum breytingum eins og skilnaði og nýju sambandi fylgja líka fylgifiskar sem þið eruð ekkert endilega spennt fyrir. Þið gætuð verið að missa af því að byrja upp á nýtt, að læra að vera ein aftur, kynnast nýjum einstaklingi og setja saman fjölskyldur. Þessu fylgja nýjar áskoranir, öðruvísi vandi og mögulega eitthvað nýtt og spennandi. En þessu fylgir ekki bara bleikt ský og hamingja, ónei, á ykkar aldri getur þetta orðið drulluflókið verkefni, sem getur mögulega aldrei smollið jafn vel og þið hafið nú þegar gert hvort að öðru.

Er það þess virði?

Væri ekki heldur ráð að setja fókusinn á hvað þið getið gert til þess að auka spennu, ófyrirsjáanleika og nýjungar í ykkar sambandi? Þið eruð ekki búin að leggja skóna á hilluna. Það er svo margt sem þið getið gert til þess að gera þetta langa samband ykkar ennþá dýpra. Hvaða tilraunir getið þið gert í tengslum við það? Hvað þarftu frá makanum þínum sem þú ert ekki að fá? Hvað getur þú veitt maka þínum sem þú hefur aldrei áður gert?

Hugsið í lausnum

Mögulega þurfið þið að setjast niður og endurskilgreina samband ykkar. Langar ykkur til þess að eyða meiri tíma ein eða saman? Langar ykkur til þess að prófa eitthvað nýtt? Í dag er töluvert meira umburðarlyndi gagnvart ýmsum sambandsformum og pör eru farin að skilgreina sambönd sín á ýmsa vegu, t.d. opið samband, fjölástir, eða ákveður að hætta tímabundið saman. Ég er alls ekki að segja ykkur hvað þið eigið að gera, enda enginn sérfræðingur í ykkar lausnum, en mögulega myndi það létta þessa þungu möru sem vofir yfir ykkur, ef þið horfist í augu við þetta og hugsið í lausnum. Hvað þurfið þið svo vantraustið og óttinn hverfi? Þið hafið verið saman í 29 ár, það hlýtur að þýða að þið séuð fær um ýmislegt saman. Nýtið ykkur það sem styrkleika og haldist í hendur í átt að ykkar lausn.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til
Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Enn og aftur „vandræðalegt“ augnablik á milli fyrrverandi forsetahjónanna – „Melania er alveg búin“

Enn og aftur „vandræðalegt“ augnablik á milli fyrrverandi forsetahjónanna – „Melania er alveg búin“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íbúar „kynlífshúss“ segja að Covid sé að eyðileggja orgíurnar

Íbúar „kynlífshúss“ segja að Covid sé að eyðileggja orgíurnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Algeng lygi úr svefnherberginu sem „er skaðleg konum“

Algeng lygi úr svefnherberginu sem „er skaðleg konum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég kvíði því að fara í vinnuna vegna stöðugra Covid slagsmála“

„Ég kvíði því að fara í vinnuna vegna stöðugra Covid slagsmála“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vikan á Instagram: „Þetta ár fer í að njóta tvöfalt“

Vikan á Instagram: „Þetta ár fer í að njóta tvöfalt“