fbpx
Laugardagur 19.júní 2021
Fókus

Krakkarnir vildu ekki að ég léki Ronju Ræningjadóttur

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 25. júlí 2020 12:00

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hrafnhildur látið til sín taka í umræðunni um kynþáttafordóma. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrstu minningar Hrafnhildar Ming Þórunnardóttur um mismunun vegna húðlitar eru síðan hún var í leikskóla. Hún segir kynþáttafordóma vera mjög alvarlegt vandamál.

„Uppruni minn á ekki að vera brandari annarra,“ segir Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, tæplega 18 ára nemi við Kvennaskólann í Reykjavík. Hrafnhildur var ættleidd frá Kína og hefur búið á Íslandi frá því hún var 14 mánaða gömul.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Hrafnhildur látið til sín taka í umræðunni um kynþáttafordóma og í byrjun árs hélt hún til að mynda erindi í Veröld – húsi Vigdísar um það hvernig það hefur verið fyrir hana að búa á Íslandi, hafandi annað útlit og annan bakgrunn en flestir Íslendingar.

Black lives matter-hreyfingin um allan heim fékk byr undir báða vængi í vor eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Bandaríkjunum. Hér á landi var haldinn fjölmennur samstöðufundur en um svipað leyti birtist myndband af leikaranum Pétri Jóhanni Sigfússyni sýna það sem mörgum þótti ósmekklegt grín á kostnað fólks af asískum uppruna. Pétur Jóhann baðst síðar afsökunar á hegðun sinni. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um fordómafullt „grín“ og þá fordóma sem fólk af erlendum uppruna verður fyrir hér á landi.

Ekki með „húðlitaða“ húð

„Við fæðumst fordómalaus og sem börn þá eru önnur börn okkur sem jafningjar, sama hvernig eða hver þau eru. Við lærum svo frá fjölskyldu, vinum og samfélagi að þróa með okkur ákveðna fordóma, hvort sem það er vísvitandi eða ekki. En hversu snemma byrjum við að þróa þessa fordóma með okkur?“ spyr Hrafnhildur.

„Ég ólst upp við þá trú að brúni liturinn minn væri ekki það sama og húðlitaður. Flest lærum við muninn á brúnum og húðlituðum í leikskóla. Ég man eftir því að hafa ekki mátt leika Ronju Ræningjadóttir á leikskóla, vegna þess að hún var ekki kínversk. Hverjir bönnuðu mér það? Krakkarnir á leikskólanum. Ég man þegar mér var strítt í ballett fyrir að hafa kúkabrúnan lit. Það var í 2. bekk. Ég get ekki talið þau skipti sem jafnaldrar mínir komu til mín, búin að teygja á augunum með puttunum og fóru með ching chong ching- „vísuna“ sem flestir, með asískt útlit ættu að kannast við. „Þetta er nú ekki svo alvarlegt,“ gæti einhver sagt. Nei, kannski ekki, en á einhverjum tímapunkti þarf að taka svona hegðun alvarlega. Hvers vegna ekki í leikskóla?“

Hrafnhildur leggur áherslu á að hún sé vitanlega að tala um eigin upplifun. „Ég hef örugglega ekki orðið fyrir jafnmiklum fordómum vegna húðlitar míns og einhver annar en þó jafnvel meiri en öðrum. Ég er ekki svört, eða þeldökk eins og einhverjir myndu orða það en þó hef ég lent í ýmsu,“ segir hún.

Fáfræði um rasisma

Hrafnhildur segir að það sé sannarlega til fólk sem trúir því ekki að það séu kynþáttafordómar á Íslandi. „Það kemur betur og betur í ljós hve fáfróðir margir eru um rasismann á Íslandi með hverri fréttagreininni sem segir „rasisminn algengari en okkur grunar“. Ef þið voruð ekki búin að fatta það þá er langstærsti hlutinn af „okkur“ hvítt fólk. Við þá einstaklinga vil ég segja eftirfarandi: Hafið þið verið sökuð um að taka atvinnutækifæri frá landinu þar sem það er ekki „sannur Íslendingur“ í ykkar starfi? Hafið þið verið kölluð þrælar vegna uppruna? Hefur einhver neitað að tala við ykkur á íslensku, vegna þess að aðilinn trúir því einfaldlega ekki að þú getir skilið eða talað íslensku? Hafið þið verið beðin um að óhreinka ekki mat annarra?“ spyr hún en Hrafnhildur varð fyrir því þegar hún vann í bakaríi að eldri maður hafði áhyggjur af því að bakkelsið yrði á einhvern hátt „óhreint“ ef hún afgreiddi hann.

Ófyndnir ættleiðingarbrandarar

„Það eru til ótal dæmi um fáránlega hegðun hvítra Íslendinga gagnvart þeim sem hafa annan húðlit. Varðandi myndbandið af Pétri Jóhanni þá baðst hann afsökunar á hegðun sinni og því að hafa sært fólk. Mér finnst það persónulega flott að hann hafi tekið ábyrgð á gjörðum sínum og beðist afsökunar. Höfum það þó í huga að þótt afsökun hans hafi verið tekin gild þá er svona hegðun ekki í lagi, hvort sem viðkomandi var í einkasamkvæmi eða annars staðar. Þá komst ég ekki hjá því að reiðast þegar ég las ummælin þar undir. Allir þeir sem skrifuðu: „Hvað er fólk að væla yfir öllu, hann á ekki að biðjast afsökunar á að vera fyndinn,“ voru hvítir. Með þessari hegðun þá var ákveðinn hópur særður. Það er því ekki í verkahring hins hópsins að ákveða hvort einhver eigi rétt á því að upplifa þetta á sáran hátt. Ef ör er skotið að tveimur mönnum og annar særist, þá er það ekki hlutverk hins að ákveða hvort sá særði megi finna til eða ekki,“ segir Hrafnhildur

„Ég, ásamt öllum öðrum, get ekki breytt því hvar ég fæddist. Ég get ekki breytt þeirri staðreynd að ég sé ættleidd en mér hefur verið strítt nóg fyrir það til að finnast brandarar um ættleiðingu leiðinlegir og ófyndnir, hvort sem þeir koma frá mínum nánasta vinahópi, fjölskyldu eða einhverjum manni úti í bæ. Með rasískum bröndurum erum við að réttlæta rasíska hegðun og þannig normalísera rasisma,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ísland er spillt land“ – Horfðu á úrslit MORFÍs í beinni

„Ísland er spillt land“ – Horfðu á úrslit MORFÍs í beinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sex ára gömul beið Klara úti í bíl eftir föður sínum sem var á strippklúbb – „Ég veit ekki hvort ég myndi öskra á hann eða bara stúta honum“

Sex ára gömul beið Klara úti í bíl eftir föður sínum sem var á strippklúbb – „Ég veit ekki hvort ég myndi öskra á hann eða bara stúta honum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eyþór Melsteð hefur keppni á World Strongest Man – Var heppinn að drepa sig ekki á æfingu á dögunum

Eyþór Melsteð hefur keppni á World Strongest Man – Var heppinn að drepa sig ekki á æfingu á dögunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir margar konur gera þessi stóru mistök í svefnherberginu – Þetta er lausnin

Segir margar konur gera þessi stóru mistök í svefnherberginu – Þetta er lausnin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Óskar Finnsson æðrulaus í risastóru verkefni – „Ég get ekkert gert við því að ég sé kominn með fjórða stigs krabbamein og heilaæxli“

Óskar Finnsson æðrulaus í risastóru verkefni – „Ég get ekkert gert við því að ég sé kominn með fjórða stigs krabbamein og heilaæxli“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ingó Veðurguð og fleiri stjörnur ganga til liðs við Boomerang – „Maður nær alls ekki að anna eftirspurninni“

Ingó Veðurguð og fleiri stjörnur ganga til liðs við Boomerang – „Maður nær alls ekki að anna eftirspurninni“